Forþekking

Forþekking

Við höfum öll einhverja þekkingu um Ísland og því er gagnlegt að byrja verkefnið á að tala um hvernig þú og aðrir hafa upplifað landið.

Vinnið þetta verkefni sem námsfélagar. Ræðið saman um staði sem þið hafið séð og ykkur fannst áhugaverðir.

Þegar kennari ákveður deilið þið með öðrum nemendum því sem þið rædduð um. Ef að þið eigið skemmtilegar sögur frá einhverjum stöðum eða ferðalögum sem þið hafið upplifað eða aðrir í fjölskyldunni hafa sagt ykkur, væri það frábært.

Mikilvægt er að allir fái að segja sínar sögur hvort það eru staðir sem þið hafið heimsótt, búið á eða heyrt um, þannig að hlustið vel á frásögn annarra. Það er allt í lagi að sumir segja frá sama staðnum því að við upplifum ekki alltaf hlutina á sama hátt.

Þegar allir hafa sagt frá, á hver og einn nemandi að hrósa 1-2 öðrum fyrir áhugaverðar sögur og koma með eina spurningu um stað sem var kynntur.

Þessi aðferð er til að æfa okkur í að segja frá reynslu, hlusta á aðra og læra um landið í gegnum augu annarra.


Hæfniviðmið og viðmið um árangur


Íslenska - Talað mál, hlustun og áhorf

Nemandi getur hlustað af athygli og beitt þekkingu sinni og reynslu til að skilja það sem sagt er og greint frá aðalatriðum

  • Ég hrósa öðrum

  • Ég spyr spurningu um stað sem var kynntur


Samfélagsgreinar-Félagsheimur

Nemandi getur tjáð þekkingu sína og viðhorf með fjölbreyttum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra.

  • Ég segi frá reynslu minni af Íslandi

  • Ég segi frá reynslu minni við námsfélaga

  • Ég tek þátt í kynningu við námsfélaga