Skipulögð íþróttaiðkun barna og unglinga hefur í för með sér líkamlegan, sálrænan og félagslegan ávinning fyrir börn. Tilgangur iðkunar er að efla líkamlegt hreysti, ásamt því að kenna og þjálfa ákveðna lífsfærni. Þátttaka í íþróttum kennir siðferði, heiðarleika, virðingu, samvinnu, hollustu og skuldbindingu. Í gegnum íþróttaiðkun lærist að takast á við sigur og tap, setja sér markmið, sýna vinnusemi og tillitssemi, vinna í hóp, virða skoðanir og síðast en ekki síst að fara eftir reglum þar sem skýr viðurlög eru við brotum á reglum í íþróttum. Allir þessir þættir endurspeglast í framkomu og vinnusemi þátttakenda í skóla, vinnu og í þátttöku í samfélaginu.
Hlutverk íþróttaiðkunar er að rækta nauðsynlega eiginleika sem búa þau undir lífið, efla hæfileika sem hjálpa þeim að ná árangri í lífinu og að takast á við áskoranir og hindranir í lífinu. Íþróttir eru því frábær vettvangur til þess að rækta hæfileikann til að bregðast rétt við mótlæti, vinna með öðrum að sameiginlegu markmiði og að fara eftir reglum. Í íþróttum upplifa börn einnig á eigin skinni að vinnu fylgir árangur og að regluleg hreyfing hefur í för með sér líkamlega og andlega vellíðan.
1. Ég kem hvíldur og upplagður á æfingar
2. Ég er stundvís, mæti a.m.k. 10 mínútur fyrir æfingar og er tilbúinn þegar æfingin hefst.
3. Ég er jákvæður og í góðu skapi á æfingum.
4. Ég rífst ekki við þjálfara/dómara.
5. Ég kem kurteislega fram við æfingafélagana því ég vil að þeir komi vel fram við mig.
6. Ég legg mig alltaf 100 % fram.
7. Ég tek sigri með hóflegri gleði og tapi með jafnaðargeði.
8. Ég hjálpa samherjum eins og ég get á æfingum.
9. Ég geng vel um búningsklefa og íþróttasal.
10. Ég er í íþróttum fyrir sjálfan mig, af því að það er gott fyrir líkamann og skemmtilegt.
ÞÁTTTAKA FORELDRA
Foreldrar eru jafn mikilvægir í íþróttaiðkun barna sinna eins og í öllu öðru sem viðkemur börnum. Börn eru ólík og þeim henta ólíkar íþróttagreinar því er mikilvægt að fá að upplifa ýmsar greinar. Mikilvægt er að leyfa börnum að prófa sig áfram og finna þá íþróttagrein sem barninu finnst skemmtileg. Íþróttaskólinn er því tilvalinn til þess.
Íþróttahreyfingin hefur alla tíð verið frjáls vettvangur sjálfboðaliða þar sem fólk starfar að sameiginlegum áhugamálum, myndar tengsl og kynni. Þar er hægt að starfa með mismunandi hætti allt æviskeiðið. Framlagið sem sjálfboðaliðar vinna í íþróttafélögum styrkir undirstöður samfélagsins og verður seint metið til fjár.
Þjálfarar eiga að mæta tímanlega og vel undirbúnir fyrir hverja æfingu. Forföll skal tilkynna eins fljótt og unnt er til formanns Harðar. Þjálfarar fylla út mætingaskýrslur og skila þeim inn til stjórnar. Þjálfarar bera fulla ábyrgð á þeim eigum félagsins sem honum er treyst fyrir, og sér til þess að gengið sé tryggilega frá öllum búnaði eftir hverja æfingu og keppni. Þjálfarar koma einnig með tillögur að bættum aðbúnaði til stjórnar Harðar.
Þátttaka í keppnum er ávallt undir merkjum HHF. Lögð er áhersla á að vera í góðu samstarfi við foreldra um hvort og á hvaða mót skal fara. Mikilvægt er að foreldrar séu reiðubúnir til þess að fylgja börnum sínum á mót ef taka á þátt.