Sprettur á elsta stigi 

Sprettur er hugtak sem nær yfir samþættingu fjögurra námsgreina, samfélagsfræði, náttúrufræði, upplýsingatækni og íslensku. Sprettur byggir á því að auka vitund nemenda á eigin námi og gera þá enn meðvitaðri um þróun þess. Með breyttum áherslum er leitast við að gera markmið námsins skýrari og að nemendur séu meðvitaðri hvað sé framundan og hvers sé ætlast til af þeim í fyrirliggjandi vinnu. Nemendur  vinna í lotum þar sem áhersla er á einstaklings- og hópamiðaða vinnu.  Það fyrirkomulag býður upp á aukin tækifæri fyrir nemendur á að nýta eigin styrkleika, sér og öðrum til framdráttar.

 Fyrirkomulag

Í Spretti vinna nemendur í mismunandi  teymum og nýta þannig ólíka styrkleika sína til þess að uppfylla markmið hvers viðfangsefnis fyrir sig. Með því að nýta fjölbreytni og mismunandi hæfni samnemenda gefst tækifæri á því að dýpka nálgun á viðfangsefnum, auk þess sem hvert viðfangsefni fær aukinn tíma og þar af leiðandi gefst nemendum kostur á að koma sínum hugmyndum og skoðunum enn frekar á framfæri. Hver Sprettur er byggður upp af skyldu- og valverkefnum sem tengjast bæði beint og óbeint. Í hverju verkefni er unnin vinna sem styður við og styrkir nemendur í þeim hæfniviðmiðum, sem skólastarfið byggir á. Þannig fá nemendur skýrari mynd hvers vegna þeir eru í námi og hvers vegna hvert verkefni er uppbyggt eins og það er. Þannig taka nemendur aukna ábyrgð á eigin vinnu og geta verið með betri yfirsýn á námið og hvað þarf að gera til að ná markmiðum, gera þau að sínum og auka árangur í starfi. Auðvelt er fyrir nemendur og foreldra að fylgjast með þar sem öll verkefnin fara inn á Google Classroom og inn á heimsíðu skólans undir „Námið“ ásamt því að vera metin inni á Mentor út frá þeim hæfniviðmiðum sem fylgja hverju verkefni.