Á námskeiðinu verður fjallað um kennslufræði skriftar og hvers vegna það skiptir máli að kenna og þjálfa skrift. Þá verður nýtt námsefni í skrift frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu kynnt og farið yfir helstu áherslur varðandi stafdrætti og tengingar. Að lokum fá kennarar tækifæri til að læra eða rifja upp stafdrætti og tengda skrift ásamt því að nota matsramma til að meta eigin skrift og skrift annarra.
Námskeiðið byggist á leiðsagnarnámi og samræðum í kennslustundum. Farið verður yfir ýmsar kennsluaðferðir sem eru tengdar við fræðin eins og t.d.:
Einn, tveir og allir
Fiskabúrið
Mottuaðferðin
Púslaðferð
Snjóboltaaðferðin - samvinnuaðferð
Hóphugarkort - samvinnuaðferð
Að nota kveikjur
Að nota spjallfélaga
Misjafnar leiðir í námsmati
Leiðir til að ýta undir sjálfstæði og ábyrgð nemenda og fleira
Kennarar prófa sjálfir að beita aðferðunum og mikið er lagt upp úr samræðum um kennsluaðferðirnar.
Farið verður yfir innihald laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna s.s. snemmtækan stuðning, stigskipta þjónustu og hlutverk tengiliða og málstjóra. Einnig verður farið yfir innleiðingu laganna hjá Kópavogsbæ og farsældarþjónustu og verklag sem mikilvægt er að kennarar í grunnskólum Kópavogsbæjar þekki. Lögin verða rædd út frá ,,raunverulegum“ nemendum sem kennarar þekkja úr sínu starfi í samhengi við hlutverk kennara.
Með notkun gervigreindar hafa kennarar tækifæri til að endurskipuleggja vinnu sína og jafnvel hugsa kennsluna upp á nýtt. Gott dæmi um slíka nýsköpun er notkun spjallmenna í kennslu, en þeim er hægt að beita til að veita nemendum persónulega einstaklingsmiðaða aðstoð, þau má nota til að dýpka skilning og auka virkni nemenda í kennslustofunni. Farið verður yfir það hvernig spjallmenni getur verið verkfæri kennara til að auka gæði og fjölbreytni í kennslu.
Á námskeiðinu verður fjallað um Hvatningarleikinn (e. Good Behavior Game), sem er bekkjarstjórnunaraðferð þar sem markmiðið er að hvetja nemendur til að vinna saman sem lið og fylgja reglum um viðeigandi hegðun. Kynntar verða niðurstöður meistararannsóknar sem kannaði áhrif tveggja útgáfa af Hvatningarleiknum – táknstyrkja-útgáfu og áminninga-útgáfu – á óæskilega hegðun, námsástundun, endurgjöf kennara og hávaða í kennslustofu. Í báðum útgáfum vinna nemendur leikinn ef þeir halda sig innan skilgreindra marka og fá umbun í formi félagslegrar umbunar, svo sem stuttra leikja. Þátttakendur námskeiðsins fá tækifæri til að kynnast framkvæmd leiksins í reynd og prófa hvernig hann er settur upp og framkvæmdur í skólastarfi. Markmiðið er að þátttakendur öðlist þekkingu til að innleiða Hvatningarleikinn á markvissan hátt í sínu kennsluumhverfi að námskeiði loknu.
Byrjendanámskeið fyrir alla nýja kennara sem eru að hefja störf í grunnskólum Kópavogs varðandi spjaldtölvunotkun nemenda og kennara í skólastarfi. Meðal efnisþátta eru:
Hugmyndafræðin
Markmið og þróun
Leiðir að markmiðum
Google umhverfið
Jamf umsýslukerfið
Áherslur í samþættingu upplýsingatækni í skólastarfi
Stjórnun spjaldtölva í skólastofunni
Kennsla í stafrænni borgaravitund
Þátttakendur nálgast spjaldtölvur sínar hjá UT deildarstjóra í sínum skóla vikuna áður og mæta með hana á námskeiðið.
Skráning á þetta námskeið fer fram í gegnum skólastjórnendur í hverjum skóla.
Á þessu námskeiði fjallar Hlín um mikilvægt samstarf stoðþjónustu og umsjónarkennara. Það verður m.a. rætt um:
Hlutverk stoðþjónustu og umsjónarkennara
Hver ber ábyrgð á hverju – og hvað gerum við saman?
Hvaða stuðning er hægt að veita innan kennslustofunnar?
Hagnýt atriði um einstaklingsnámskrár og hvernig þær nýtast í daglegu starfi
Markmiðið er að efla skilning, samvinnu og sameiginlega sýn.
Farið verður yfir birtingamyndir ADHD í skólanum, skipulag kennslu, tól og tæki sem nýtast í kennslu. Kenndar verðar aðferðir um hvernig draga má úr óæskilegri hegðun og styrkja æskilega hegðun með því að byggja á styrkleikum nemandans. Samskipti, samvinna og samræmd viðbrögð þeirra sem koma að nemendum með ADHD geta skipt sköpum. Farið er yfir leiðir til að eiga farsæl samskipti milli skóla og heimilis. Hvað er ADHD fókus og hvernig getur kennarinn aðstoðað nemendur við að finna sinn fókus. Þess má geta að það sem virkar fyrir nemendur með ADHD virkar í flestum tilfellum fyrir alla. Við hvetjum því alla sem starfa innan skólakerfisins að taka þátt.