Markmið námskeiðsins er að kenna árangursríka bekkjarstjórn og benda á hagnýt ráð í lestrarkennslu.
Uppsetning kennslusvæðis
Væntingar
Virk bekkjarstjórnun
Stuðningur við hegðun
Tíðni hróss frá kennara
Tíðni hróss og eftirtekt kennara
Kennsla og þjálfun lesturs
Stöðumat á nemendum
Hvað þarf ég að kenna?
Leikni og leikniviðmið
Námsframvinda
Námskeiðið samanstendur af hálfum námskeiðsdegi í ágúst (3 klst.) og fjórum eftirfylgnitímum á 4-5 vikna fresti (u.þ.b. 1–1½ klst. í hvert skipti). Á námskeiðsdegi að hausti verður rýnt í fræðin og leiðir í læsiskennslu með áherslu á málhljóðin, umskráningu, lesfimi, lesskilning, orðaforða, málskilning, hlustunarskilning og ritun. Þá verður einnig rætt um mikilvægi skimunarprófa og hvernig má nýta niðurstöður þeirra til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda með markvissum þjálfunaráætlunum og/eða námskeiðum. Í lok dags fá þátttakendur heimaverkefni sem þeim er ætlað að vinna á vettvangi.
Eftirfylgni – 1. tími, í september: Rýnt verður í heimaverkefni sem þátttakendur unnu á vettvangi (tengt málhljóðum, umskráningu og lesfimi). Fræði og leiðir tengd orðaforða og lesskilningi rifjuð upp (frá haustnámskeiði) og heimaverkefni tengt efnisþáttunum sem eru til umfjöllunar lagt fyrir.
Eftirfylgni – 2. tími, í október: Rýnt verður í heimaverkefni sem þátttakendur unnu á vettvangi (tengt orðaforða og lesskilningi). Fræði og leiðir tengd málskilningi og hlustunarskilningi rifjuð upp (frá haustnámskeiði) og heimaverkefni tengt efnisþáttunum sem eru til umfjöllunar lagt fyrir.
Eftirfylgni – 3. tími, í nóvember: Rýnt verður í heimaverkefni sem þátttakendur unnu á vettvangi (tengt málskilningi og hlustunarskilningi). Fræði og leiðir tengd skrift og ritun rifjuð upp (frá haustnámskeiði) og heimaverkefni tengt efnisþáttunum sem eru til umfjöllunar lagt fyrir.
Eftirfylgni – 4. tími, í desember: rýnt verður í heimaverkefni sem þátttakendur unnu á vettvangi (tengt skrift og ritun). Samantekt á efni námskeiðsins. Endum á hugleiðingu um heimanám og mikilvægi einstaklingsmiðunar í því samhengi.
Eins og flestir kennarar vita og hafa upplifað á eigin skinni þá er flókið og krefjandi að mæta ólíkum þörfum nemenda með einstaklingsmiðuðum stuðningi, halda góðan vinnufrið og ýta undir virka þátttöku hjá nemendahópnum í heild. Það er því mjög mikilvægt að kennarar búi yfir góðri færni í árangursríkri bekkjarstjórnun og kunni fjölbreyttar leiðir til að mæta þörfum nemenda á einfaldan og árangursríkan hátt.
Á þessu námskeiði verður því lögð áhersla á kennslu í jákvæðum, einföldum og hagnýtum leiðum til árangursríkrar bekkjarstjórnunar. Fjallað verður stuttlega um lögmál hegðunar og mikilvægi þrepaskipts stuðnings. Lykilatriði árangursríkar bekkjarstjórnunar verða kynnt lauslega og samhliða því fjallað um aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að skili árangri. Áhersla verður lögð á hagnýta fræðslu þar sem gefin verða dæmi sem þátttakendur geta tengt við, sumar aðferðir útskýrðar nánar með sýnikennslu og í einhverjum tilvikum veitt tækifæri til æfinga. Í lok námskeiðsins gefst þátttakendum kostur á að velja sér eina til þrjár af þeim aðferðum sem hafa verið kynntar, útfæra þær nánar og innleiða um leið og nemendur flykkjast í skólann í haust.
Í lok september gefst þátttakendum svo færi á að mæta á umræðufund með Elísu til að eiga samtal um þær aðferðir sem þeir innleiddu, hindranir og ávinning og næstu skref. Tímasetning og staðsetning verður send þátttakendum í beinu framhaldi af námskeiðinu.
Í vinnustofunni verður fjallað um skipulag náms, kennslu og námsmats í fjölbreyttum nemendahópum. Þátttakendur í vinnustofunni velja sér afmarkaðan námsþátt og nemendahóp og fara í gegnum ferli þar sem búin er til námsáætlun sem gerir ráð fyrir aðlögun náms fyrir alla nemendur. Stjórnendur vinnustofunnar leggja upp verkferli og gefa þátttakendum tækifæri til að deila hugmyndum og afurðum. Nýr vefur aðalnámskrár verður kynntur og sýnt hvaða gögn má nýta á honum til að styðja við skipulag náms og framkvæmd námsmats. Áhersla verður lögð á tengsl hæfniviðmiða, námsmarkmiða og matsviðmiða. Einnig verður sýnt hvernig hægt er að flétta lykilhæfni inn í kennsluáætlanir til að þjálfa námshæfni nemenda og gera leiðsagnarmat sýnilegra í daglegu starfi.
Vinnustofan er einkum ætluð stjórnendum og innleiðingarteymum á endurskoðuðum hæfniviðmiðum greinasviða aðalnámskrár í hverjum skóla. Hámarksfjöldi er 60 sem gerir 5-6 frá hverjum skóla. Þátttakendur þurfa að koma með fartölvur með sér.
Á námskeiðinu er rammi Altækrar hönnunar náms (AHN) kynntur sem leið til að styðja kennara í að móta inngildandi námsumhverfi. Kennarar munu kynna sér praktískar leiðir til að nýta lögmál AHN í kennslu og tengja við hugmyndir um inngildingu.
Námskeið sem fjallar um kennsluefni í gervigreind fyrir nemendur á grunnskólaaldri þar sem leitað er svara við hvað gervigreind er og hvernig hún virkar. Fjallað verður um það hvernig gervigreind er þjálfuð og hvernig spjallmenni virka. Gervigreindin ChatGPT er skoðuð með það að markmiði að skoða áhrif hennar á nám og sköpun og hvernig gervigreindin getur verið hlutdræg. Að lokum verður skoðað hvernig gervigreindin hefur áhrif á það sem við sjáum á netinu og hverjir helstu kostir og gallar andlitsgreiningar eru. Fræðslan er einkum ætluð kennurum á unglingastigi en aðrir áhugasamir kennarar eru velkomnir.
Á þessu hagnýta námskeiði fá almennir grunnskólakennarar leiðbeiningar og verkfæri til að styðja nýkomna erlenda nemendur. Farið er yfir lykilatriði í námsaðlögun, árangursrík samskipti við nemendur og foreldra og hvernig byggja má traustan grunn fyrir skólagöngu barnanna innan bekkjarins.
Farið verður yfir helstu verkefni sem tengjast samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna eins og gerð frummats, fundargerða og stuðningsáætlana. Einnig verður farið yfir markvissa stýringu teymisfunda, skilvirka skráningu og mikilvægi eftirfylgdar. Unnið verður með sýnidæmi sem eru byggð á raunverulegum nemendum. Námskeið nýtist tengiliðum farsældar, fulltrúum í stuðningsteymum og starfsfólki sem tekur þátt í samþættingu þjónustu.