Við þökkum góða mætingu á tónleikana okkar í Hlégarði, ánægjulegt að sjá svona marga.
Starf kórsins veturinn 2024-2025
3. september fyrsta æfing haustsins sem verður opin æfing
16. nóvember laugardagsæfing (10:00-14:00)
10. desember síðasta æfing fyrir jól
7. janúar fyrsta æfing eftir jól
8. og 9. mars æfingabúðir í Hreðavatnsskála, gist eina nótt á Hraunsnefi
5. apríl laugardagsæfing (10:00-14:00)
23. apríl Tónleikaferð til Dublin á Írlandi
4. maí sunnudagsæfing (17:00-20:00)
11. maí sunnudagur kl. 17:00 (mæðradagur) vortónleikar í Hlégarði
13. maí aðalfundur kórsins kl. 19:30
Síðasta helgin í ágúst þátttaka í bæjarhátíð Mosfellsbæjar „Í túninu heima“
Æfingar þriðjudaga í Lágafellsskóla kl. 19:30-21:30.
Kórstjóri: Dagný Þórunn Jónsdóttir.
Árgjaldið er 20.000 fyrir áramót og 25.000 eftir áramót.
Starfið vorið 2024:
Fyrsta æfing ársins var þriðjudaginn 9. janúar og áfram var æft í Lágafellsskóla en við ákváðum að stytta æfinguna svo á vorönn var æft frá 19:30-21:30.
Við sendum inn umsókn um fjárframlag úr lista- og menningarsjóði Mosfellsbæjar. Menningar- og lýðræðisnefnd samþykkti á fundi sínum þann 12. mars sl. að styrkja verkefnið Heklurnar – kvennakórinn sem bakar ekki um kr. 250.000.
Kórbúðir voru 2. – 3. mars 2024 og gistum við eina nótt á Sveitahótelinu Hraunsnefi í Norðurárdal í Borgarfirði en æfðum í Hreðavatnsskála. Það var frábær mæting; 20 kórkonur og stjórnandinn. Um kvöldið var matur á Hraunsnefi og heimatilbúin skemmtiatriði “raddanna”. Við vorum einstaklega ánægðar með helgina og staðsetninguna, góð þjónusta, góður matur og fín gisting. Engin eldamennska, uppvask eða þrif svo kórkonur gátu einbeitt sér að sönglistinni og slakað á í heitum potti eða á gleðistund á barnum.
Fyrir vortónleika kórsins voru þrjár langar aukaæfingar í tónlistarskólanum í Garði á Suðurnesjum en þar er mjög góð aðstaða. Vortónleikarnir voru svo haldnir í Guðríðarkirkju í Grafarholti, fimmtudaginn 9. maí kl. 16:00 en það var uppstigningardagur. Meðleikari á tónleikunum var Mariia Ishchenko sem lék á flygilinn og Gulla okkar (Guðlaug Ásgeirsdóttir) lék á þverflautu í einu laginu. Marta sá um miðasölu og Helga Dröfn sá um veitingar. Það mættu 76 fullorðnir á tónleikana og um 20 börn en það var frítt fyrir þau. Meðlæti með kaffinu var í takt við nafnið á tónleikunum sem við kölluðum “Bland í poka” og gerði það góða lukku, ekki síst hjá yngra fólkinu. Tónleikarnir tókust mjög vel, þeir voru teknir upp og kórkonur fá rafrænt eintak af hljóðupptökunni.
Við í stjórninni viljum að lokum nota tækifærið og þakka kórkonum fyrir mjög ánægjulegt samstarf í vetur og hlökkum til framhaldsins með Dagnýju okkar frábæra kórstjóra og vonandi verður Mariia píanóleikari líka áfram með okkur.
Starfið haustið 2023:
Kórstarfið í haust byrjaði með opinni æfingu þriðjudaginn 12. september sem við auglýstum vel á samfélagsmiðlum. Mæting var mjög góð og 11 nýjar konur sýndu áhuga, nokkrar af þeim höfðu verið áður en aðeins 3 af þessum 11 kláruðu haustönnina. Einnig voru nokkrar af þeim sem voru með á síðasta ári sem ekki skiluðu sér í haust en koma vonandi aftur inn síðar. Það voru því 23 konur virkar í kórstarfinu á haustönn.
Áhersla var á blandað lagaval og fyrir tónleika voru æfð lögin: Adiemus, Cantilena, Orðin mín, Liljurós, I got rhythm, Scarborough fair, Red is the rose, La Cumparasita, Plena, Na na na, And so it goes, True colors, Bonse aba, Amavolovolo, Bring me little water, Mamma þarf að djamma og svo rúsínan í pylsuendanum hin frægu karlakórslög Hraustir menn og Brennið þið vitar! Áfram var áhersla á að læra textana utanbókar.
Síðasta æfing á haustönn var 12. desember og þá voru sungin nokkur jólalög en ákveðið var að sleppa jólatónleikum þetta árið og einbeita sér frekar að vortónleikum. Það voru samtals 12 æfingar á haustönn en tvær féllu niður vegna veðurs og veikinda.