Rökfærsluskrif

Verkefnalýsing

Verkefni 1 – rökfærsluskrif

Tvær stuttar greinargerðir um lykilhugtök í lotu 1 (samanlagt 20 %)

Einstaklingsverkefni – sjálfsmat og jafningjamat í seinna skiptið

Hlutverk greinargerðarinnar er ekki að endursegja lesefni, umræðu eða aðra umfjöllun úr lotunni heldur er hún farvegur fyrir nemendur að segja eitthvað um lotuna og tefla fram mismunandi sjónarmiðum. Ef þið segið ykkar skoðun á einhverju eða færið rök fyrir einhverju sem stendur í lesefninu getið þið annað hvort vitnað í lesefnið máli ykkar til stuðnings eða fært rök gegn einhverju sem stendur í lesefninu annað hvort með dæmum úr eigin reynslu eða þá með stuðningi annars lesefnis. Ef þið notið dæmi úr eigin reynslu, sem er æskilegt, reynið þá að nota lesefnið til að greina reynsluna og spegla hana í lesefninu. Mikilvægt er að það séuð þið sem talið í greinargerðinni, þið eruð að byggja upp röksemdafærslu (e. argument) þótt hún sé studd af heimildum. Varist að setja höfunda heimildanna í forgrunn og láta þá hafa orðið (Fullan segir... ; Stoll og Lois segja að... ; Anna Kristín segir...).

Rökfærsluskrif (e. argumentative writing) er form sem gerir kröfur en er skemmtilegt form þegar maður nær tökum á því. Upplýsingar og leiðbeiningar um rökfærsluskrif má finna á eftirfarandi slóðum: http://owl.english.purdue.edu/owl/resource(685/05) og

http://writingcenter.unc.edu/handouts/argument/

Hver greinargerð á að vera 800-1000 orð. Það getur verið vandasamt að koma frá sér innihaldsríkum texta í svo knöppu formi en er góð æfing að glíma við.

Skilað á Moodle sem word-skjali (ekki PDF)