Málstofa og ritgerð

Verkefnalýsing

Verkefni 2 - Málstofa, umræður og ritgerð um kafla í bók Stoll og Seashore-Louis (30%) Skiladagur ritgerðar er 29. október Ritgerðin er metin af jafningjum á móti kennaramati

Verkefnið er paraverkefni og er í nokkrum liðum:

1) Í 1. lotu velja nemendur kafla í bókinni.

2) Nemendur undirbúa málstofu um kaflann sinn fyrir lotu 2 (fyrri daginn). Málstofan samanstendur af 10 mínútna framsögu um efnið og spurningum til samnemenda. Í framsögunni draga höfundur fram og reifa það sem þeir telja markverðast um efnið og reyna að haga spurningunum þannig að þær leiði til umræðna og skoðanaskipta um efnið. Ætlast er til að höfundur hverrar málstofu reyni að halda lífi í umræðunum þannig að þær verði frjóar (10 mín).

3) Liður í undirbúningi málstofunnar er að finna tvær ritrýndar greinar sem tengjast efni kaflans og flétta efni þeirra inn í málstofuna (og kynna þær stuttlega þar).

Í kynningum er ekki verið að leita eftir endursögn á efninu heldur skapandi úrvinnslu, eigin ígrundun og greiningu og tengingu viðfangsefnisins við annað fræðilegt efni í námskeiðinu og eigin reynslu. Til þess að umræður verði málefnalegar og markvissar er mikilvægt að allir hafi lesið kaflana og greinarnar sem bent er á. Höfundar málstofa eru því beðnir að senda öðrum upplýsingar um kaflann og greinarnar á Moodle viku fyrir lotu 2.

Mat á málstofunum byggist á tvennu: 1) Hversu skýrt og skilmerkilega flytjendur hverju sinni kynna viðfangsefni sitt og 2) hversu vel þeim tekst að skapa umræður um efnið og halda þeim lifandi. Vægi málstofuhlutans er 25% af heildarvægi verkefnisins.

4) Höfundar hverrar málstofu skila loks ritgerð um efni málstofunnar. Í ritgerðinni skal ræða efnið á fræðilegan hátt með tilvísun til annarra heimilda sem bæði má sækja í lesefni námskeiðsins (grunnefni og ítarefni) og greinar sem nemendur finna sjálfir (þar með taldar eru greinar skv. lið 3). Ætlast er til að nemendur noti a.m.k. fimm heimildir sem eru utan við grunnlesefni námskeiðsins. Þótt ritgerðin eigi að vera fræðileg er engu að síður lögð mikil áhersla á sjálfstæða og skapandi umfjöllun, eigin röksemdafærslu, samantekt og mat höfunda. Vitna skal til heimilda og skrá þær í samræmi við reglur um heimildaskráningu (APA).

Lengd ritgerðar 2500–3000 orð (meginmál). Mikilvægt er að virða lengdarmörk (bæði um lágmarks- og hámarkslengd).

UÞL_málstofa 9. okt

Málstofa 9. október 2018

UÞL_ritgerð úr málstofu