Námsmappa

Adobe Sparks

Í fyrstu lotunni sagði Helgi Freyr okkur frá Adobe Spark forritinu sem er ókeypis og er nýtt til að gera plagöt, síður og myndbönd. Mér finnst það vera einfalt í notkun og sniðmátin sem eru í boði líta öll vel út þegar verkefnin eru tilbúin.

Ég kynntist Adobe Sparks á menntabúðum #Eymennt á vorönn 2017 og nýtti mér þetta í fyrsta skiptið til að búa til myndasýningu skólaársins sem sýnd var á skólaslitum það vorið. Svo notaði ég þetta síðast liðið vor til að taka saman niðurstöður úr könnun sem ég gerði meðal foreldra nemenda Þelamerkurskóla og kennara . Könnunin var liður í stöðumati á Skíðaskóla Þelamerkurskóla. Ég notaði svo samantektina þegar ég kynnti niðurstöður stöðumatsins. Það kom vel út að sýna niðurstöðurnar sem myndband. Það lífgaði betur upp á kynninguna heldur en ef ég hefði tekið þær saman á hefðbundna glærusýningu. Ég mæli hiklaust með þeirri notkun.

Í vikunni bjó ég svo til "video paper" í Adobe Sparks fyrir ráðstefnu evrópskra skólastjórnenda ESHA. Ráðstefnan verður haldin í Tallinn um miðjan október og þangað koma skólastjórnendur af öllum skólastigum víðs vegar að úr heiminum. Þátttakendum bauðst að senda inn einnar mínútu myndband sem sýndi hvernig þeir hefðu hvatt til aukinnar notkunar á upplýsingatækni í skólastarfi. Stýrihópur #Eymenntar sendi inn myndband og sótti jafnframt um að fá að kynna það verkefni fyrir ráðstefnugestum. Níu myndbönd og verkefni verða svo valin til sýningar og kynningar. Þegar þetta er skrifað er beðið eftir því hvort Adobe Sparks og myndefni #Eymenntar nái í gegn hjá þeim sem velja inn efni ráðstefnunnar.

Eins og sést á þessum tveimur myndböndum þá er auðvelt að nýta Adobe Sparks til að búa til falleg og grípandi myndbönd til kynningar á næstum hverju sem er.

25. sept. 2018

Makerý búðir

Helgina 28.-30. sept. 2018 tók ég þátt í Makerý búðum á Snæfellsnesi. Ég skráði á bloggið Bara byrja það sem ég sá og lærði.

Menntun til framtíðar

Um þessar mundir er útvarpað þáttum á rás 1 á RUV sem fjalla um menntun til framtíðar. Umfjöllunin er í þáttum Ævars Kjartanssonar Samtalið. Í þessum þáttum hefur Ævar fengið Jón Torfa Jónasson til liðs við sig. Þættirnir eru orðnir fimm og á síðasta sunnudag var útvarpað þætti þar sem ég fékk að vera með þeim félögum í hljóðverinu. Við ræddum m.a. um inntak og gildi menntunar til framtíðar og hvort og þá hvernig grunnskólinn getur og undirbýr nemendur nútíðarinnar fyrir framtíðina. Það var skemmtilegt að taka þátt í þessum pælingum með þeim félögum.

Til að hlusta á þættina getur þú smellt á eða skannað QR kóðann með snjalltækinu þínu (með t.d. myndavél snjalltækisins, appi sem er qr-lesari eða myndavélinni á Snap Chatinu).

Útistærðfræði í Skagafirði

Föstudaginn 5. október 2018 verð ég með vinnustofu um útistærðfræði á kennaraþingi í Varmahlíð í Skagafirði. Þar sem tíminn var styttri en þegar ég er venjulega með vinnustofu um útistærðfræðina áforma ég að vera bara úti að gera verkefni og ég deildi því glærunum á Twitter og með Qr kóða. Þannig geta kennarar skoðað þær þegar heim er komið.

  • Ég notaði google slides og birti þær á vefnum.
  • Ég stytti slóðina á Google url shortener svo qr kóðinn á slóð glæranna yrði snyrtilegri
  • Ég bjó til Qr kóðann á Qrstuff.com
  • Ég hlóð kóðanum niður á símann minn og kennarar geta komið til mín og fengið slóðina þegar við ljúkum vinnustofunni. Ég deildi slóðinni á glærurnar á Twitter með myllumerki þingsins. Þá geta allir nálgast þær sem vilja.
  • Ég notaði Mentimeter til að leggja eina kveikju-spurningu fyrir þátttakendur og setti slóðina á qr kóða. Hugmyndin er að tveir og tveir vinni saman í upphafinu á vinnustofunni. Hvert par kemur til mín og með síma og skanna kóðann að spurningunni á mentimeter og svara henni í símanum. Svo geta þátttakendur fengið svörin á öðrum kóða og ég mun líka tísta þeim til þátttakenda. Svörin eru líka aðgengileg á glærukynningunni.
  • Eftir það gerum við a.m.k. tvö verkefni í útistærðfræði og ég er með eitt uppi í erminni ef tími vinnst til.

4. okt. 2018

Vefsvæði til að búa til alls konar æfingar og glærur. Ókeypis og gagnvirkar.

Open source kerfi.

Vyond myndgerðarforrit

Sá áhugavert myndband sem búið var til í Vyond. Það leit vel út og virtist vera einfalt í notkun.

Emaze kynningarefni

Ég sat svo flotta kynningu á skóla í Eistlandi. Kynningin var gerð á vefsvæði sem sem heitir Emaze. Það virðist vera hægt að gera glærukynningar, vefsíður og fleira. Þarna er mikið af tilbúnum sniðmátum sem hægt er að velja úr.

Til að kynnast þessu verkfæri betur fylgi ég því núna á Twitter.

Hello Ruby

Á ESHA, ráðstefnu samtaka evrópskra skólastjórnenda í Tallinn 16.-19. okt. hlustaði ég á Lindu Liukas tala um börn og forritun. Hún er forritari, barnabókahöfundur ásamt því að myndskreyta bækur sínar. Hún heldur úti vefsíðu með efni sínu: https://www.helloruby.com/

Ian Dukes

Á sömu ráðstefnu var Ian Duke aðalfyrirlesari. Hann deildi með áheyrendum skjali með greinum og bókum sem hann hefur lesið og mælir með fyrir kennara sem vilja innleiða tölvur og tækni í kennslu sína:

bit.ly/ESHA2018

Vinnustofa um Google Photos

Á menntabúðum Eymennt í Hrafnagilsskóla í október var ég með vinnustofu um það hvernig maður býr til kvikmynd í Google Photos. Vinnustofan var vel sótt og ég studdist við færslu sem ég átti á Bara byrja. Þátttakendur voru sammála um að við myndum endurtaka leikinn með framhaldi og bæta þá við kennslu í IMovie og Clips.

Vefsíða um tækni

Þegar ég var að leita að leiðbeiningum að því hvernig maður gerir hlaðvarp fann ég vefsíðu sem heitir Hnetan-tækni á mannamáli. Þar eru að vísu engar upplýsingar um hver heldur úti vefsíðunni en þar eru margar góðar upplýsingar og leiðbeiningar sem geta komið að gagni.

UTÍS 2018

Utís2018 fór fram á Sauðárkróki um miðjan nóvember. Ég hef haft tækifæri til að mæta á Utís undanfarin þrjú ár en hafði ekki tækifæri til að vera með í ár. Þess vegna fannst mér kærkomið að fá aðgang að Padlet vegg samkomunnar og skoða það sem þátttakendur vildu deila með öðrum af hugleiðingum sínum, myndum og lærdómi á þessu Padleti.

Vefsíða um Osmo í kennslu

Á UTÍS2018 var hvatt til þess að þátttakendur deildu verkefnum hver með öðrum. Unnur Valgeirsdóttir kennari í Giljaskóla tók áskoruninni og bjó til vefsíðu um Osmo í kennslu. Þar eru leiðbeiningar um uppsetningu Osmo, skráningu nemenda og dæmi um verkefni.

Vefsíða um Google viðbætur

Bergmann Guðmundsson kennari hefur safnað saman fróðleik um Google viðbætur á eina vefsíðu. Hann uppfærir hana reglulega með því að setja inn á hana umfjöllun um viðbætur sem hann telur að komi skólafólki að gagni.

Tiltekt

Í morgun (6. des. 2018) gaf ég mér tíma til að taka til á þessari vefsíðu og lærði að fela síður þannig að þær sjást ekki í umferðakerfi síðunnar. Þannig er hægt að gera undirsíðurnar að myndum eða greinum á aðalsíðum vefsíðunnar. Það kom vel út, sérstaklega eftir að ég skipti líka um þema á síðunni.

Núna held ég að hún sé komin í endanlegan búning og það sem gerist eftir þetta verði aðeins að ég bæti á hana síðustu verkefnaskilum misserins og svo lýsingum og skilum á vormisserinu.