Hlaðvarp

Upptaka og intró

Það hefur staðið til um nokkurt skeið að Bara byrja bætti við sig hlaðvarpi um skólastjórnun, starfsþróun og notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Það var því kærkomið að kynnast því betur í tímanum hjá Helga Frey um daginn.

Ég er þegar búin að taka viðtalið og það var nú ekki gert inni í fataskáp, heldur í venjulegri kennslustofu sem var á næstu hæð fyrir neðan íþróttasal og það var opið fram á gang. Ég tók upp á Makkann minn og notaði QuickTime Player. Ég notaði ekki fína míkrófóninn sem ég hafði þegar keypt til að nota í þessum tilgangi. Mér fannst ég þurfa að prófa þetta fyrst. Í næstu upptöku nota ég hann sennilega og get þá borið saman hljóðgæðin.

Allir betri þættir á netinu hafa inngangs- og lokastef. Ég er svo heppin að eiga tónlistarmann í fjölskyldunni sem setti saman fyrir mig stef.

Nú bíða bæði upptakan og stefið í tölvunni minni eftir því að ég hafi mig í að setja þetta saman og blanda eigin kynningu og lokaorðum við. Mig minnir að Helgi hafi talað um að það væri hægt að gera í Audacity. Ég mun alla vega prófa það. Ég hlakka til þeirrar stundar.

26. september 2018

Fyrsti þátturinn

Í dag fór fyrsti þáttur Bara byrja hljóðvarps í loftið. Ég þurfti að upgrada vefinn minn til að geta sett inn á hann plugin sem sér um að koma hljóðskránni ljúflega inn í færslurnar á vefnum.

Ég vann þetta í GarageBand og kann ekkert á það forrit. Vona að ég geti fengið einhvern til að hjálpa mér með það fljótlega.

Ég vista þættina á Blubrry og þaðan koma þeir sjálfkrafa inn á vefinn minn. Ég hef sótt um að hlaðvarpið verði "samþykkt" hjá apple.

Ég fór eftir þessari bloggfærslu sem ég fann á netinu: https://www.entrepreneur.com/article/282282

Annar þátturinn

Annar þáttur Bara byrja hlaðvarps er viðtal við Hans Rúnar Snorrason UT kennara í Hrafnagilsskóla.

Ég fékk hjálp (bæði á samfélagsmiðlum og í raunheimum) við að læra meira og betur á Garage Band. Þetta er allt að koma. Þarf bara meiri þjálfun.

Ég er núna búin að fá hlaðvarpið samþykkt á ITunes. Það á því að vera auðvelt að finna hlaðvarpið þar og gerast áskrifandi að því.

Ég er búin að skrá það í ITunes Connect og bíð eftir að það komi sjálfvirkur áskriftarhnappur inn á færslurnar. Ég þurfti hjálp við að finna út úr því. Fékk hana á Twitter.

Ég er þegar komin með hugmynd að næsta viðmælanda og hlakka til að ræða við hann.

Þriðji þátturinn

Þriðji þáttur Bara byrja hlaðvarps er viðtal við þrjár konur sem allar hafa starfað sem kennarar en sinna nú öðrum störfum sem tengjast skólastarfi.

Ég er búin að uppfæra Garage band og vinn núna í nýjustu útgáfunni og get stuðst við nýjustu leiðbeiningarnar á netinu.

Það er ekki kominn hnappur á færslurnar mínar um að hægt sé að gerast beint áskrifandi af hlaðvarpinu á ITunes. Ég skil ekki hvað það er sem ég á eftir að gera til að svo verði. Þarf að gramsa mig áfram í því.

Nú eru komin hugmynd að þremur þáttum í viðbót og eru tveir viðmælendur búnir að segja já við viðtölum.