Fréttabréf

Grunnskólans á Ísafirði


Október 2019 Ábyrgðarmaður: Helga S. Snorradóttir

Nú er komið að fyrsta fréttabréfi vetrarins og er stefnan að gefa það út annan hvorn mánuð. Skólastarfið hefur farið vel af stað og allt að færast í eðlilegt horf í húsnæðismálum eftir að viðgerðum lauk. Þrengslin síðasta vor og fram á haustið reyndu vissulega á, en viðhorf starfsmanna og nemenda létti róðurinn og gerði það mögulegt að vinna við þessar aðstæður. Það ber að þakka og nú kunnum við enn betur að meta hvers virði góðar starfsaðstæður eru.

Fyrir utan hefðbundna kennslu er alltaf eitthvað sem brýtur upp hversdagsleikann. Við höfum fengið heimsóknir, tekið þátt í Íþróttadeginum í Bolungarvík, Ólympíuhlaupi ÍSÍ, haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir nemendur í 5. og 8. bekk og gengið á fjöll, svo fátt eitt sé nefnt. Við reynum að nýta góðviðrisdaga til útiveru, enda býður nærumhverfið upp á ótalmarga möguleika í þeim efnum. Við reynum að setja inn myndir af sem flestum viðburðum inn á heimasíðu og Facebook síðu skólans.

Andy Hargreaves, prófessor í kennslufræðum við Boston College í Bandaríkjunum

Námstefna Skólastjórafélags Íslands

Dagana 11. – 12. október sóttu skólastjóri og aðstoðarskólastjóri G.Í. Námstefnu Skólastjórafélags Íslands, sem haldin var á Selfossi. Þátttaka félagsmanna var framar öllum vonum en námstefnuna sóttu um 300 manns af öllu landinu.

Fyrirlesarar voru þrír. Fyrst fjallaði Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, um traust, virðingu og ábyrgð, Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri, ræddi um kennslufræðilega forystu skólastjórnenda og Andy Hargreaves, aðalfyrirlesari námstefnunnar, tvinnaði saman það praktíska í starfinu við faglega stefnumótun og þær áherslur sem okkur eru nauðsynlegar til að hámarka árangur og gæði í skólastarfinu.

Hinn félagslega þátt námstefnuhaldsins má ekki vanmeta, því með auknum kynnum stjórnenda skóla víða af landinu, skapast kröftug og víðtæk fagleg umræða þeirra leiðtoga sem leiða skólastarf grunnskóla í landinu í dag.

Plánetuverkefni í 6.bekk

Í náttúrufræði í 6. bekk hafa nemendur verið að vinna hópverkefni um reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar. Verkefnið gengur út á að teikna þær í réttum hlutföllum við hverjar aðrar, lita, klippa og svo hengja upp á vegg í skólastofunni. Unnið hefur verið út frá bókinni Auðvitað - jörð í alheimi og hafa krakkarnir haft gaman af að pæla í sólkerfinu og stöðu jarðar í alheiminum.

Litlar breytingar á nemendafjölda

Við skólaslit í vor voru nemendur G.Í. 376 talsins og voru 27 þeirra útskrifaðir úr 10. bekk. Nú í haust innrituðust 24 nemendur í 1. bekk eða 3 færri. Samt sem áður náum við að halda okkar fjölda og komum út aðeins í plús á milli ára ef svo má segja, þar sem nemendur í dag eru 378 talsins.

Lesfimi

Lesfimi er staðlað próf fyrir nemendur í 1.-10. bekk grunnskóla. Prófin eru þrjú fyrir hvern árgang og er ætlað að meta stöðu nemenda í nákvæmum raddlestri og framfarir innan árs og milli ára.

Í síðasta mánuði var fyrsta próf skólaársins lagt fyrir. Skólinn er nokkuð nálægt landsmeðaltali í flestum árgöngum eins og sjá má á myndritinu hér til hægri.

Ferðasaga 10. bekkinga að lokinni ferð til Delft í Hollandi

Nemendur 10. bekkjar í Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskólanum á Suðureyri taka þátt í verkefni á vegum Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið tekur tvö skólaár og er tengt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Nemendur frá Búlgaríu, Grikklandi, Hollandi og Svíþjóð taka einnig þátt í verkefninu. Fyrr í mánuðinum fóru 5 nemendur G.Í. til Delft í Hollandi á vegum verkefnisins ásamt tveimur fararstjórum. Hér á eftir fer ferðasaga þeirra.

Skólinn sem við heimsóttum er í bænum Delft og er flottur og mjög nýlegur. Krakkarnir voru mjög skemmtilegir.

Í bænum er gömul vindmylla og tvær kirkjur frá miðöldum. Í Delft búa um 100.000 manns og þar af eru 20.000 háskólanemar.


Mánudagur 7. október

Á mánudaginn mættum við í skólann 8:30 og fyrsti tíminn var íþróttir sem var frjáls tími t.d. klifur, körfubolti, bandý, fótbolti. Eftir það var smá tími til að fara í sturtu og borða og spjalla við aðra þátttakendur í verkefninu..

Síðan voru kynningar frá hverju landi, með umfjöllun um nemendur og landið þeirra.

Eftir það var farið til Den Haag á friðarsafnið sem er dómstóll og staður fyrir samningaviðræður fyrir lönd sem þýðir að þetta er ekki einstaklingsdómstóll frekar fyrir þjóðir og þjóðarbrot. Við fengum líka að fara inn í Friðarhöllina en til þess að komast þangað þurfti að sýna vegabréf og þar var ströng gæsla.

Þriðjudagur 8. október

Við mættum í skólann 8:30 og fyrst á dagskrá var að segja frá verkefnunum sem bekkurinn okkar gerði út frá greinum mannréttindasáttmálans. Klukkan 10:30 fórum við í rútu til Den Haag. Þar fórum við í fangelsi frá miðöldum og leiðsögukonan talaði um hvernig aðstaðan var í fangelsinu á þessum tíma, sumir fengu góðan klefa með rúmi og allt en þurftu líka að borga fyrir það, en aðrir fengu að vera í troðfullum fangaklefa með engu rúmi. Þá fórum við í hádegismat og svo í ratleik um bæinn. Við borðuðum á McDonald’s og ónefndur borðaði 2 bigmac. Svo fórum við aftur til Delft, ég (Kári) fékk vegan mat í kvöldmat og nokkrir úr hópnum fóru rennibrautagarð.

Miðvikudagur 9. október

Við mættum í skólann um 8:30 og byrjuðum á því að fara í hópa og fengum dagblöð og áttum að klippa út orð og búa til setningar tengdar mannréttindum. Síðan fengum við að velja hvort við færum í íþróttir eða elda og eftir það borðuðum við öll saman í skólanum matinn sem krakkarnir elduðu. Eftir það var okkur aftur skipt í hópa og spiluðum við Landnemaspil.

Fimmtudagur 10. október

Við byrjuðum á því að búa til flísar( blue delft )í skólanum kl 8:30 við lituðum þær með bláum tússlit og eftir að við vorum búin að því þá fóru flísarnar beint í ofninn og þemað á flísunum var mannréttindi sem voru ýmis áhugaverð. Eftir það var afhending viðurkenninga þar fengum við viðurkenningu og bolla frá skólanum. Síðan var pása þangað til að það var farið í keilu og þar skemmtum við okkur konunglega.


Föstudagurinn 11. október

Það var kveðjustund í skólanum klukkan 8:15. Eftir hana hófst ferðin heim. Við tókum lest á flugvöllinn, flugum heim og tókum svo rútu til Reykjavíkur þar sem hver fór í sína átt.

Arnar, Halla María, Kári, Oliwia og Stefán Freyr

Unnið með Barnasáttmálann í 8. bekk

Undanfarið hefur 8.bekkur verið að vinna í verkefni tengdu Barnasáttmálanum í samfélagsfræði og hefur það verið mjög fróðlegt að sjá hvernig krakkarnir túlka hinar ýmsu greinar hans. Unnið var með þemun fjölskylda, öryggi og vernd, heilsa, menntun og þroski og réttindi allra barna.

Meðal þess sem kom í ljós við vinnslu verkefnisins var samanburður læsis á Íslandi og nokkurra Afríkulanda en þar koma fram sláandi tölur. Einnig var borið saman menntun íslenskra og afganskra stúlkna þar sem kom meðal annars fram að 3,7 milljónir afganskra barna ganga ekki í skóla og þar af eru 60% stúlkur. Þá komust þau að því að af 796 milljónum þeirra sem eru ólæs í heiminum eru konur 66% af þeirri tölu.

Nemendur unnu einnig verkefni tengd barnaþrælkun og öfluðu sér upplýsinga um hversu algeng sú vinna er í hinum ýmsu löndum, hver munurinn væri á milli stúlkna og drengja og fleira í þeim dúr. Aðrir einbeittu sér að tómstundum, meðal annars hvernig aðgengi fatlaðra er að mismunandi tómstundum og Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Jól í skókassa

Verkefnið Jól í skókassa felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og til þess að tryggja að öll börnin fái svipaða jólagjöf er mælst til þess að ákveðnir hlutir séu í hverjum kassa.

7. bekkur hefur undanfarin ár tekið þátt í þessu verkefni og þetta haustið söfnuðust 23 kassar, sem nemendur skiluðu af sér til Ísafjarðarkirkju. Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Gangapassinn

Við erum farin af stað með svokallaðan gangapassa til að vekja nemendur til umhugsunar um umgengni. Handhafi passans fer með umsjónarbekkinn sinn a.m.k. tvisvar í þeirri viku um skólann að raða skóm í hillur, tína upp rusl af gólfi, hengja upp úlpur og slíkt.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa eins og sést á meðfylgjandi myndum.