Fréttabréf

Grunnskólans á Ísafirði

Apríl - maí 2019

Tíminn flýgur áfram og nú er komið að síðasta fréttabréfi þessa skólaárs. Skólaárið hefur verið viðburðaríkt og margvísleg verkefni sem við höfum tekist á við, fyrir utan hefðbundið skólastarf. Nú í maímánuði eru vorverkin í algleymingi og í mörgu að snúast. Skipulagðar ferðir eru hjá mörgum árgöngum s.s. hjólaferðir, sveitaferðir og fjöruferð, ásamt alls konar hreyfingu, eins og sjá má á skipulagi hér fyrir neðan.


Mygla

Þann 25. mars s.l. var haldinn kynningarfundur fyrir starfsfólk og foreldra um niðurstöður úr sýnatöku úr stofum í austurálmu Grunnskólans á Ísafirði varðandi myglu. Í ljós kom að sýni af báðum hæðum álmunnar innihéldu myglu og ljóst að fara þarf í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæðinu. Stefnt er að því að lægfæringum verði lokið fyrir skólabyrjun í haust.

Ljósmyndasýning í Neista

Nemendur í ljósmyndavali á unglingastigi sýna nú valin verk í Neista. Í vetur höfum við unnið með myndbyggingu, ljósop og hraða, ljosmyndasögu, farið í stúdíó og gönguferð. Myndirnar eru afrakstur vinnu vetrarins og valdi hver nemandi 1 - 4 myndir úr sínu safni.

Umhverfismennt

Umhverfismennt hefur með árunum orðið viðameiri þáttur í heimilisfræðikennslu. Nemendur í 4. bekk skelltu sér í „hugarflug“ eftir að hafa horft á nokkrar áhrifamiklar myndir þar sem allslags úrgangur og rusl hafði mengað náttúruna. Yfirskrift verkefnisins var: Umhverfismál – hvað getum við gert – stórt og smátt? Í tímanum sköpuðust líflegar umræður og voru nemendur mjög áhugasamir og ræðnir um þessi mikilvægu málefni.

Árshátíð

Árshátíð skólans var með öðru sniði þetta árið vegna þrengsla í kjölfar myglunnar. Yngsta stig skólans þ.e. 1. - 4. bekkur steig á stokk 7. maí s.l. og sýndi hver og einn árgangur atriði undir yfirskriftinni Disney. Sama gerði miðstigið, þ.e. 5. - 7. bekkur 9. maí s.l.

Á unglingastigi er meira annríki og ákváðu árgangarnir að fara aðrar leiðir. Í 8. bekk var boðið upp á ratleik um bæinn og í 9. bekk eru tengiliðir foreldra að undirbúa dagskrá í lok maí.

Öryggið í fyrirrúmi

Á dögunum komu fulltrúar Kiwanisklúbbsins Bása í heimsókn til okkar og færðu öllum nemendum í 1. bekk reiðhjólahjálma að gjöf. Hjálmarnir koma sér svo sannarlega vel, þar sem margir nemendur eru farnir að taka fram reiðhjólin og hlaupahjólin. Við hvetjum alla til að nýta hjálmana og gæta fyllsta öryggis í umferðinni.

Út að borða

Það var fámennt en góðmennt í heimilisfræði hjá 5.bekk einn góðviðrisdaginn í lok apríl. Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, nýtti sér góða veðrið og bauð krökkunum ,,út að borða". Nemendur elduðu eggjaköku í ofni inni og gæddu sér svo á góðmetinu undir berum himni.

Lið G.Í. frá vinstri: Magnús Örn Guðnason, Kári Eydal, Hrefna Dís Pálsdóttir, Bríet Sigurðardóttir, Solveig Amalía Atladóttir og Helgi Ingimar Þórðarson. Á myndina vantar Stefán Frey Jónsson, sem var varamaður í úrslitakeppninni.

Skólahreysti

Keppni í skólahreysti var haldin í fimmtánda sinn nú í vor með þátttöku 100 grunnskóla af öllu landinu. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautunum.

Grunnskólinn á Ísafirði sigraði sinn riðil í undanrásum og tryggði sér þar þátttökurétt í úrslitakeppninni sem fram fór í Laugardalshöll nú í byrjun maí. Við erum stolt af krökkunum okkar sem höfnuðu í 11. sæti af þessum 100 þátttökuskólum og óskum þeim enn og aftur til hamingju.

Valgreinar

Nú er verið að ganga frá valgreinum fyrir næsta vetur, bæði í hræringi á miðstigi og á unglingastigi. Við reynum eftir fremsta megni að hafa valið sem fjölbreyttast og alltaf eru einhverjar nýjar greinar á hverju ári.

Valblöðin eru í vinnslu og verða send heim á næstu dögum.

Nemendur á miðstigi í forritun

Þjóðleikur

Lokahátíðin Þjóðleikur NorðVestur var haldin hátíðleg í Félagsheimilinu á Hólmavík 30. apríl og 1.maí að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur. Þar komu saman leikhópar frá Strandabyggð, Kaldrananeshreppi, Borgarnesi, Ísafirði, Snæfellsbæ og raunar Snæfellsnesi öllu. Sett voru upp leikverkin Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason.

Leiklistarval G.Í. tók þátt í verkefninu og sýndi verkið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur og Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur og stóð hópurinn sig mjög vel innan sviðs sem utan.

Heimsókn frá Kaufering

Um síðustu mánaðamót komu átta nemendur (allt stelpur) frá Kaufering, vinabæ Ísafjarðarbæjar í heimsókn til okkar ásamt tveimur kennurum. Þau komu akandi frá Reykjavík og voru himinsæl með ferðina þar sem þau sáu bæði hvali og seli á leiðinni.

Auk heimsóknar í G.Í. fóru þau til Bolungarvíkur og í skólaheimsókn til Suðureyrar og Þingeyrar. Einnig heimsóttu þau sveitabæ, skoðuðu hesta, fóru í siglingu, skoðuðu söfn og fóru í víkingaskálann á Þingeyri þar sem allir sem vildu gátu klætt sig upp í víkingaklæði. Hópurinn bakaði brauð við opinn eld að víkingasið og var það mikil upplifun.


Nú er enn einu skólaárinu að ljúka og í mörgu að snúast síðustu dagana. Hér til hliðar má sjá skipulagið hjá hverjum árgangi fyrir sig.

Skólaslit Grunnskólans á Ísafirði verða í Ísafjarðarkirkju föstudaginn 7. júní 2019 kl. 20:00 þar sem 8. - 10. bekkur tekur við vitnisburðum sínum. Aðrir árgangar hitta sína kennara fyrr um daginn eins og sjá má á vordagskránni hér að framan.

Við þökkum nemendum, starfsfólki og lesendum öllum fyrir viðburðaríkt skólaár.