Fjöldi rannsókna er til á því sem einkennir árangursríka læsiskennslu og vinnubrögð þeirra kennara sem ná góðum árangri með nemendum. Rannsóknir Hall (2013), Wray og Medwell (2002) og Grambrell, Malloy, Marinak og Mazzoni (2015) eru samhljóða um margt og renna stoðum undir þær aðferðir sem nýttar eru í verkefninu Læsi fyrir lífið.
Rannsókn Hall (2013) er safngreining (e. meta-analysis) á rannsóknum sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu á því sem einkennir starfshætti skilvirkra læsiskennara sem ná góðum árangri með nemendum. Rannsókn Wray og Medwell (2002) náði til breskra kennara sem sköruðu fram úr og rannsókn Gambrell, Malloy, Marinak og Mazzoni (2015) fjallaði um aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að skili góðum árangri í læsiskennslu (e. evidence-based instruction). Rannsóknirnar eru samhljóma um margt og renna stoðum undir grunnþætti læsis.
Kennarar vinna eftir ítarlegum kennsluáætlunum og setja fjölbreytt markmið fyrir hverja kennslustund en kunna engu að síður að grípa tækifærin sem gefast í kennslunni. Þeir skapa vinnureglur sem stuðla að sjálfstæði nemenda og lestrarhvetjandi umhverfi, styðjandi endurgjöf og jákvæða styrkingu.
Kennsluskipulag er fjölbreytt og kennarar kenna ýmist litlum hópum, nota paravinnu, einstaklingskennslu eða vinnu með bekkjarheild; þeir vinna með litla hópa þar sem nemendur hafa svipaðar þarfir - en gæta þess að samsetning þeirra taki breytingum í samræmi við stöðugt mat á þörfum nemenda.
Kennarar hafa góð tök á skipulagi og framvindu kennslustunda. Þeir tryggja flæði og hnökralausa framvindu og skil milli verkefna og nota tímaafmörkun til að skipuleggja vinnuna og halda nemendum að verki.
Nemendur verja miklum tíma í viðfangsefni sem krefjast rökhugsunar og skipta máli fyrir læsi og kennarar samhæfa vinnu aðstoðarfólks til þess að námskrá nemenda verði heildstæð og löguð að þörfum nemenda.
Kennarar þróa námsmenningu sem einkennist af námi án aðgreiningar og stuðlar að áhuga á læsi með því að velja viðfangsefni sem eru áhugaverð, nemendum verðug og gefa kost á vali og samvinnu.
Kennarar gæta þess að halda góðu sambandi við foreldra/forráðamenn og samfélagið.
Kennarar nota hæfilega krefjandi og fjölbreytta texta við læsiskennsluna, nýja texta jafnt sem texta sem nemendur þekkja og frásagnartexta jafnt sem upplýsingatexta. Textar stigþyngjast eftir því sem nemendum fer fram. Nemendur fá tækifæri til nákvæmnislestrar til að öðlast djúpan skilning; þeim bjóðast fjölbreyttar aðferðir við lestur svo sem félagalestur, þátttökulestur, sjálfstæðan lestur og að hafa val um bækur.
Nemendur lesa mikið og skrifa texta um það sem skiptir þá máli. Kennarar leitast við að efla sjálfstæði þeirra með því að gefa þeim tíma og hvetja þá til lesturs og ritunar að eigin vali.
Kennarar leitast við að efla orðaþekkingu, orðaforða, réttritun, lesskilning og ritun skipulega með því að hvetja nemendur til að beita þessum aðferðum innan heildstæðra viðfangsefna. Þeir kenna nemendum einnig fjölbreyttar aðferðir við endurþekkingu orða.
Kennarar kenna ritun skipulega og í fjölbreyttum tilgangi þar sem nemendur geta skrifað einir eða í samvinnu hver við annan. Kennarar vinna skipulega með uppbyggingu málsins og tengja það raunverulegum verkefnum sem hafa merkingu fyrir nemendur og gefa nemendum kost á að vinna að margvíslegum textagerðum, bæði frásögnum og fróðleikstextum. Kennarar eru einnig sífellt vakandi yfir því að halda jafnvægi á milli þess að semja merkingarbæran texta og þess að vinna með tæknilegar hliðar læsis.
Kennarar hafa skýrar hugmyndir um mikilvægi samvirkni og jafnvægis á milli læsisþátta. Þeir byggja kennslu sína á slíkum hugmyndum, líta á læsi sem sjálfsagðan hluta af mannlegum samskiptum og setja viðfangsefni læsiskennslu sinnar í samhengi við þau. Slíkir kennarar samþætta lestur og ritun þannig að ritun sé leidd af textum sem nemendur hafa lesið. Þeir tengja læsiskennslu við allar námsgreinar þannig að lestur og ritun hafi raunverulegan tilgang og nota þemaverkefni til að samþætta námsgreinar. Kennslan einkennist af jafnvægi milli þess að nemendur lesi góðar bókmenntir, semji texta í raunverulegum tilgangi og læri um leið reglur ritmálsins.
Sýnikennsla er snar þáttur í kennslunni. Kennarar leggja áherslu á að nemendur þekki tilgang lestrar og skilji hvernig lestur og ritun virka og hvernig eigi að bera sig að við lestur og ritun. Þeir eru fyrirmyndir nemenda við læsistengdar athafnir og gera þeim þær sýnilegar.
Vel skipulagður stigskiptur stuðningur einkennir kennsluna og allt læsisnám nemenda. Kennarar fylgjast náið með námi og framförum og veita viðeigandi aðstoð, handleiðslu og endurgjöf þegar nemendur ljúka verkefnum. Þeir eru mjög færir í að greina þarfir barna út frá mistökum þeirra í lestri og ritun, átta sig á hvað liggur að baki niðurstöðunum og hvernig eigi að bregðast við þeim.
Kennarar leggja bæði leiðsagnarmat og lokamat á árangur nemenda og matsaðferðirnar endurspegla hve læsi er flókið og krefjandi viðfangsefni og þeir leggja áherslu á sjálfsmat og sjálfstæði nemenda.
Kennarar tengja kennsluna við menningarlegan bakgrunn nemenda.
Grambrell, L.B., Malloy, J.A., Marinak, B. A. og Mazzoni, S. A. (2015). Evidence-based practices for comprehensive literacy instruction in the age of common core standards. Í L. B. Gambell og M. Morrow (ritstjórar). Best practices in literacy instruction (5. útgáfa, bls. 11-21). Guilford Press.
Hall, K. (2013). Effective literacy teaching in the early years of school: A review of evidence. Í J. Larson og J. Marsh (ritstjórar), The SAGE handbook of early childhood literacy (2. útgáfa, bls. 523-540). SAGE.
Wray, D. og Medwell, J. (2002). What do effective teachers of literacy know, believe and do? Í R. Fisher, G. Brooks og M. Lewis (ritstjórar), Raising standards in literacy (bls. 55-65). Routledge Falmer.