Í Læsi fyrir lífið er lögð áhersla á virkt nám, virkt nám setur fókusinn á hvernig nemendur læra í stað þess að fókusinn sé einungis á hvað þeir eru að læra. Lögð er áhersla á að nemendur séu virkir í námsferlinu í stað þess að þeir séu mataðir á upplýsingum frá kennurum eða úr námsefni. Í gegnum samræður, samvinnu, lausnaleit og vinnu með viðfangsefni sem eru merkingarbær og endurspegla reynsluheim nemenda fá þeir tækifæri til að efla gagnrýna hugsun, rannsaka, túlka, vinna með hugtök og hugmyndir. Með því að tengja nám nemenda við áhugasvið þeirra og raunveruleikann sjá nemendur tilgang með náminu.
Markmiðið með virku námi er að skapa umhverfi þar sem nemendur taka ábyrgð á eigin námi, læra að vinna saman í hópum og sjálfstætt, þróa með sér sjálfsstjórn, læra að leysa vandamál á skapandi hátt og geta metið eigið nám og hvað þeir hafa lært. Virkt nám leiðir til dýpri skilnings á viðfangsefnum, aukins áhuga og ánægju í námi auk þess sem aðferðin hefur jákvæð áhrif á námsárangur og ýtir undir að nemendur tileinki sér það hugarfar að vera fróðleiksfús og að halda áfram að læra eftir að formlegu námi lýkur (e. lifelong learner).
Í verkefninu er horft til þess hvernig virkt nám er skilgreint í Cambrigde Assessment International Education og bendum við á vefsíðu þeirra fyrir þá sem vilja kynna sér virkt nám betur - Getting started with Active learning.
Hvað þurfa nemendur mínir að læra?
Hafðu í huga þá hæfni sem þú vilt að nemendur búi yfir sem og markmið námskrár.
Hvernig munu verkefnin sem ég legg fyrir hjálpa nemendum mínum að læra?
Hvernig stuðla verkefnin að því að nemendur nái árangri?
Hvar eru nemendur mínir sterkir og hvar geta þeir bætt sig?
Hvers konar stuðnings þarfnast nemendur til að ljúka verkefninu?
Hvernig nota ég spurningatækni?
Eru þær spurningar sem ég legg fyrir nemendur lokaðar eða bjóða þær upp á fjölbreytt svör og ígrundun?
Opnar spurningar efla gagnrýna hugsun, þjálfa nemendur í að hugsa sjálfstætt og efla færni þeirra í að þróa hugmyndir sínar og koma þeim á framfæri. Það er um að gera að fylgja opnum spurningum eftir, t.d. með því að nota eftirfylgnispurningar á borð við: segðu mér meira um það eða hvers vegna telurðu það?
Mikilvægt er að tryggja að allir nemendur hafi tækifæri á að taka þátt í umræðum.
Einnig þarf að huga að því að nemendur fái færi á að hugsa um spurninguna áður en þeir þurfa að svara.
Er námsumhverfi nemenda minna jákvætt og upplifa þeir að það sé í lagi að taka áhættu og prófa sig áfram með nýjar hugmyndir innan hópsins?
Nemendur þurfa að upplifa að það sé í lagi að prófa nýjar hugmyndir og að gagnkvæm virðing ríki innan skólastofunnar.
Er ég bæði að leggja áherslu á að kenna viðfangsefnin samkvæmt námskrá og efla hæfni nemenda samhliða?
Cambridge International Education Teaching and Learning Team. (e.d.). Getting started with Active learning. Cambridge International Education Teaching and Learning Team. https://www.cambridge-community.org.uk/professional-development/gswal/index.html?fbclid=IwAR1bIwWkQY6JWPknuUdsagwi1jxE3fDWZmTadkNZRCshXUKMHEgv-LBqrL4#Back-to-top-E2IR1rOoy9