Við lærum nýja hluti alla ævi. Sumt getum við verið fljót að tileinka okkur en oft á tíðum erum við einhvern tíma að öðlast góða færni. Í námi sínu eru nemendur reglulega að takast á við nýja hluti sem þeir þjálfast svo í og efla færni sína. Árið 1983 voru það Pearson og Gallagher sem komu fyrstir fram með hugmyndina að stigskiptum stuðningi. Hugmyndin er í grunninn byggð á hugmyndum rússneska sálfræðingsins Lev Vygotsky um svæði hins mögulega þroska (e. zone of proximal development) (Menntamálastofnun, 2022).
Stigskiptur stuðningur er ferli sem vísar til þess hvernig kennsla fer fram með skipulegum hætti þegar nemendur er leiddir í gegn um námsferli frá sýnikennslu kennara til sjálfstæðis. Þegar kenna á nýtt atriði er fyrsta stigið sýnikennsla kennara. Hann framkvæmir og nemandi fylgist með, næsta stig er að kennari framkvæmir og nemandinn aðstoðar, á þriðja stigi framkvæmir nemandinn og kennari aðstoðar. Á fjórða stiginu er nemandinn búinn að ná þeirri leikni að geta framkvæmt sjálfur og kennarinn fylgist með. Þegar nemandinn hefur náð þessu stigi getur hann farið að deila með öðrum því sem hann hefur lært t.d. samnemendum sínum. Með þessum stigskipta stuðningi öðlast nemandinn smátt og smátt færni til að leysa viðfangsefni.
Viðfangsefnin sem nemandinn fær eru þess eðlis að þau gera honum kleift að að byggja ofan á þann grunn sem hann hefur á svæði hins raunverulega þroska, með stuðningi kennara og getumeiri nemenda leysir hann ögrandi verkefni þar sem hann er að vinna að einhverju leyti upp fyrir sig en fær stuðning. Í upphafi kennslustundar leiðir kennarinn kennsluna með sýnikennslu og umræðum á því sem nemandinn á að vinna og síðan vinnur nemandinn verkefnið, smátt og smátt öðlast hann öryggi til að vinna sambærileg verkefni án leiðsagnar. Mikilvægt er að nemandinn fái uppbyggilega leiðsögn og endurgjöf sem hjálpar honum til að skilja og framkvæma það sem hann hefði hugsanlega ekki getað gert upp á eigin spýtur (Rúnar Sigþórsson og Halldóra Haraldsdóttir, 2017 og Wood, Bruner og Ross, 2006).
Það sem við höfum hér nefnt stigskiptan stuðning hefur oft verið nefnt vinnupallafyrirkomulag. Talað er um vinnupalla sem byggðir eru í kringum nám nemandans. Hann getur stutt sig við þessa vinnupalla meðan hann þarf á því að halda, svo þegar hann hefur náð tökum á viðfangsefninu þá getur hann tekið þessa vinnupalla niður (Hyland, 2007, bls. 148–164).
Menntamálastofnun. (2022). Ritun. https://laesisvefurinn.is/wp-content/uploads/2020/01/stig_stud_inng_2020.pdf
Rúnar Sigþórsson og Halldóra Haraldsdóttir. (2017). Byrjendalæsi. Í Rúnar Sigþórsson og Gretar L. Marinósson (ritstjórar), Byrjendalæsi Rannsókn á innleiðingu og aðferð (bls. 29–61). Háskólinn á Akureyri. Háskólaútgáfan.
Wood, D., Bruner, J. S. og Ross, G. (2006). The role of tutoring in problem solving. Journal of Child Psychology and Psychiatry, 17,(2), 89–100. https://www.researchgate.net/publication/228039919_The_Role_of_Tutoring_in_Problem_Solving