Textar eru settir fram í ákveðnu félagslegu samhengi og hafa ákveðinn tilgang. Markmið höfundar með skrifunum hefur áhrif á hvaða textategund hann skrifar og formið sem hann velur að birta textann á. Hver textategund hefur ákveðna byggingu og skipulag en þar sem málið er lifandi og margrætt þá skarast oft textategundir eða renna saman. Markmið með skrifum getur t.d. verið að lýsa, segja frá, fræða, skemmta, útskýra o.fl. og birtingarformið getur verið æði fjölbreytt, á pappír eða rafrænt. Má þar m.a. nefna ritgerðir, tölvupósta, dagblöð, skýrslur, fræðigreinar o.s.frv.
Markmiðið er að nemendur verði læsir á allar gerðir texta og geti skrifað málið í raunverulegum aðstæðum.
Áður fyrr voru nemendur meira að skrifa sögur og ritgerðir en miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugina og eðlilega hefur kennsla þróast og breyst. Í dag eru nemendur að vinna með fjölbreytta textategundir. Ritunarrammar hafa reynst gagnlegir til að létta nemendum og kennurum að halda utan um ólíka texta. Ritunarrammar eru ákveðin form eða fyrirmyndir af ýmsu tagi. Römmunum er ætlað að vera stuðningur við uppkast á þeim texta sem nemendur eru að vinna í það skiptið. Hér verða kynntir þrír rammar. Rammarnir eru settir upp með atriðum sem huga þarf að í textavinnu. Útfærsla á blaði/tölvu getur verið alls konar eftir því sem hentar nemendum eða viðfangsefninu sem þeir eru að fjalla um (Rósa Eggertsdóttir, 2019, bls. 205).
Nauðsynlegt er að kennarar sýni nemendum og ræði notkun ritunarramma áður en þeir eru teknir í notkun. Nota þarf stigskiptan stuðning, hafa sýnikennslu og vinna með nemendum að gerð rammans áður en nemendur fara í sjálfstæða vinnu. Sá þáttur kennslunnar, þegar kennari talar sig í gegn um verkefnið og notar orðaforða sem einkennir textategundina, er mikilvægur bæði vegna þess að þá kynnast nemendur þeim orðaforða sem einkennir textategundina og þeir sjá hvernig hvernig textinn flæðir eðlilega, hvaða tengingar og orðalag er notað til búa til ákveðin áhrif eða koma ákveðnum atriðum til skila. Það er milli munur á orðavali eftir því hvort nemandi er að skrifa skýrslu í eðlisfræði eða ritgerð í íslenskum bókmenntum.
Það hefur reynst vel að útbúa stóra útgáfu af rammanum og nota í sýnikennslu og samvinnu kennara og nemenda. Stóru rammana má nota fyrir sameiginlega ritun. Það er mikilvægt að kennarar og nemendur geri sér ljóst að römmunum er ætlað að vera stuðningur við uppkast fyrir ritun og að það sé í lagi að strika út orð eða breyta orðum. Bæta má við setningum eða taka setningar út. Rammana skal nota sem sveigjanlegt hjálpartæki en ekki heftandi form.
Hér í þessari umfjöllun um ritunarramma er stuðst við bókina Beinagrindur. Það skal þó tekið fram að þessi umfjöllun er engan veginn tæmandi og kennurum bent á að kynna sér bókina.
Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi, handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa Eggertsdóttir.
Sue Palmer. (2006). The complete skeleton book form non - fiction text types.
Íslensk þýðing á bókinni
Beinagrindur - Handbók um ritun. (2011). Þýðendur Hrefna Birna Björnsdóttir og Sigríður Nanna Heimisdóttir. Námsgagnastofnun.