Í skólanum er leitast við að mæta þörfum allra nemenda í námi. Kennarinn stendur frammi fyrir því vandasama verkefni að skipuleggja nám þannig að einstaklingsþörfum nemenda sé mætt innan námshópsins. Til þess að það sé mögulegt verður hann þekkja nemendur sína vel og lesa í þarfir þeirra út frá daglegri vinnu í námshópnum.
Í Læsi fyrir lífið er gengið út frá því að námsaðlögun sé félagslegs eðlis og nemendur fái áskoranir og nám við hæfi í hópi samnemenda. Nemendur eru eins ólíkir og þeir eru margir, stór hópur þeirra hefur til dæmis annað móðurmál en íslensku og lærir íslensku sem annað mál. Stigskiptur stuðningur, markviss og fjölbreytt vinna með orðaforða , tjáningu og skilning þar sem áhersla er lögð á samvinnu og jafningjastuðning, líkt og gert er í Læsi fyrir lífið, kemur öllum nemendum vel.
Við undirbúning kennslu þarf að huga að námsmarkmiðum sem geta verið víð eða þröng innan sama viðfangefnis og svo þeim margbreytilegu leiðum sem stuðla að því að markmið allra nemenda náist. Mikilvægt er að nemendur taki þátt í að setja markmiðin og ræði hvaða leiðir er hægt að fara til að ná þeim. Áhersla á fjölbreyttar leiðir til sköpunar og tjáningar, nýting tæknilausna sem auðvelda nemendum að tileinka sér efni og koma frá sér þekkingu á fjölbreyttan og skapandi hátt er mikilvægur þáttur í Læsi fyrir lífið og er mikilvæg leið til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda.
Í Læsi fyrir lífið er lögð áhersla á samvinnu kennara og annarra fagaðila sem koma að námi nemenda. Slík samvinna kemur nemendum sem þurfa sérstaka aðstoð í námi vel og eykur samfellu og samræmi í námi þeirra. Sameiginleg sýn og jákvæðar væntingar um að allir nemendur geti náð góðum árangri og settum markmiðum fjarlægir oft hindranir sem gætu hamlað námi einstakra nemenda.
Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi. Rósa Eggertsdóttir.