Upplýsinga- og miðlalæsi skal þjálfa hjá hverjum nemanda alla skólagönguna (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011). Í tæknivæddum heimi þar sem aðgengi að upplýsingum er svo handhægt, fjölbreytt og í raun engum takmörkunum háð þá er mikilvægt að efla upplýsinga- og miðlalæsi markvisst hjá nemendum. Skilgreining á upplýsinga- og miðlalæsi er getan„ til að greina hvaða upplýsinga er þörf, leita af þeim, leggja á þær gagnrýnið mat, og auka þannig þekkingu sína og nýta með ýmsum miðlum til að ná tilteknu markmiði (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2011, bls. 224). Þá telst einnig til miðlalæsis „getan til að búa til og miðla efni með margvíslegum aðferðum, jafnt í formi prentmáls sem og annarra tjáningarmiðla“ (Stefán Jökulsson, 2012, bls. 50)
Það er mikilvægt að hugsa upplýsinga- og miðlalæsi sem þverfaglegt viðfangsefni þar sem það snertir allar námsgreinar á einn eða annan hátt í sífellt meira tæknivæddum skólum. Upplýsinga- og miðlalæsi skal því fléttað saman við önnur markmið í kennslu og það er mikilvægt fyrir alla kennara, óháð því sem þeir kenna, að vera meðvitaða um hlutverk þeirra í að efla og styrkja þennan mikilvæga þátt í námi nemenda.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013: Höfundur
Stefán Jökulsson. (2012). Læsi: Grunnþáttur menntunar. Mennta- og menningarmálaráðuneyti.