Kennsluhættir Læsi fyrir lífið falla vel að áherslum leiðsagnarnáms. Atriði sem m.a. er lögð áhersla á í Læsi fyrir lífið eru: skýr fyrirmæli og leiðbeiningar í verkefnavinnu, verkefni nemenda sýnileg á veggum skólanna, nemendur geti valið um að nota mismunandi aðferðir við útfærslu verkefna, leiðsögn skýr og áhersla á endurgjöf til nemenda sem er upplýsandi og tengt framförum nemandans sjálfs (Anderman o.fl., 2021, bls. 10-31).
Leiðsagnarnám (formative assessment). Í leiðsagnarnámi felst sjálfskoðun bæði kennara og nemenda og hvatning til að velta fyrir sér náms- og kennsluháttum með gagnkvæmri endurgjöf. Leiðsagnarnám eflir námsvitund nemenda og eykur skilning þeirra á því hvað og hvernig þeir læra og hvernig þeir geta hagað námi sínu til að ná sem bestum árangri. Í aðalnámskrá segir m.a. að leggja skuli áherslu á leiðsagnarnám sem byggist á því að börn og unglingar ígrundi nám sitt með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða næstu skref. Leiðsagnarnám miðar að því fylgjast með og sjá stöðuna meðan á námi stendur í námsferlinu sjálfu og nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á náms- og kennsluháttum. Námsmenning sem byggir á leiðsagnarnámi þjónar áherslum aðalnámskrár, tekur til grunnþátta menntunar, lykilhæfniþátta og áhersluþátta laga. Leiðsagnarnám byggir á þátttöku allra aðila sem að koma að því.
Helstu einkenni leiðsagnarnáms eru námsmenning þar sem nemendur og kennarar m.a. þróa með sér hugarfar vaxtar, hæfni til að greina eigin námsvitund, trú á sjálfum sér og líta svo á að allir geti tekið framförum.
Skipulag starfs í skólum sem fylgja leiðsagnarnámi einkennist af því að eitt byggir á öðru. Samfella er í námi nemenda alla skólagönguna og samræmi í orðræðu og skilaboðum kennara og annarra starfsmanna. Framkvæmd leiðsagnarnáms krefst þar af leiðandi mikils samstarfs og samvinnu á milli kennara. Stöðug ígrundun, söfnun gagna um nám nemenda. Einnig er safnað sýnishornum og góðum verkefnum nemenda sem sett eru í sameiginlegan verkefnabanka.
Námsmarkmið, árangursviðmið, áhugi og fyrirmyndir, áætlanir eru skýr og kennari deilir þeim með nemendum, viðmið um árangur eru ákveðin í samráði við nemendur og fyrirmyndarverkefni eru rædd og greind áður en nemendur vinna sín eigin verkefni. Með leiðsagnarnámi fá nemendur leiðsögn reglulega yfir tímabilið sem þeir eru að læra ákveðna þætti sem hjálpar þeim að ná námsmarkmiðum sínum og byggja ofan á þá þekkingu sem nemendur búa þegar yfir.
Spurningatækni og samræður eru nýtt markvisst í kennslunni. Kennari beitir spurningatækni þar sem hann nýtir m.a. opnar spurningar þar sem nemendur fá tækifæri til þess að tjá sig um námsefnið. Til að virkja nemendur í samræður þá nýtir kennarinn m.a. námsfélaga. Áherslan í vinnu námsfélaga er á vel skilgreinda samræðu, þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna með námsfélaga til að ræða viðfangsefni kennslunnar.
Endurgjöf og sjálfsmat, leiðsagnarnám þarf ekki eingöngu að vera frá kennara, sjálfsmat og jafningjamat getur líka verið hluti af leiðsagnarnámi. Í leiðsagnarnámi eru námsmatsgögn notuð sem grundvöllur til að bæta nám og kennslu. Hafa þarf í huga að einblína ekki eingöngu á gögnin. Aðaláherslan á að vera á ákvarðanatöku þ.e. hvað ætlar kennarinn að gera í framhaldinu af niðurstöðunum. Kjarninn í leiðsagnarnámi er að nemandinn fær reglulega endurgjöf og ábendingar um það sem hann getur bætt í sínu námi. Mikilvægt er að nemandi hafi skýra sýn á markmiðum sem ætlast er til að hann nái í námi sínu.
Aðalnámskrá grunnskóla 2011. Almennur hluti /2011.
Anderman, E. M. og Anderman, L. H. (2021). Classroom Motivation: Linking reasearch to teacher practice (3. útgáfa). (bls. 10-31). Taylor and Francis Group.
Nanna Kristín Cristiansen. (2021). Leiðsagnarnám Hvers vegna, hvernig, hvað? Nanna Kristín Christiansen.
Wiliam, D. og Leahy, S. (2015). Embedding formative assessment. Learning Sciences International