Eins og ávallt í kennslu er mikilvægt að vera með stigskiptan stuðning þegar verið er að kenna nemendum nýjar leiðir í námi.
Gagnvirkur lestur gengur út á ákveðna verkferla sem styðja við nemendur í þeirra námi það er þessir verkferlar hjálpa þeim við að skilja og greina námsefnið sem þeir eru að vinna með.
Að spá fyrir /forspá
Hér fer kennari með nemendum í gegnum það hvernig við byrjum á að spá fyrir um efnið áður en við förum að lesa eða vinna aðra vinnu. Dæmi: Hvað gæti textinn fjallað um sem þú ert að fara að lesa? Ef þú skoðar þessa mynd vel hvað er hún að sýna okkur? Gæti myndin gefið einhverjar upplýsingar um hvað textinn gæti fjallað um? Ef þú skoðar feitletruðu orðin í textanum gætu þau gefið okkur upplýsingar um hvað eru aðaltriðin í þessum texta. Hér er dæmi um mynd og hvernig kennari getur verið að nota forspá út frá henni.
Að útskýra/kanna og kryfja
Hér fer kennari meira á dýptina en í forspánni með að leita skýringa á því sem kemur fyrir í námsefninu. Kennari fer vel yfir með nemendum hvernig hann getur t.d. brotið upp löng orð til að átta sig betur á samhengi þeirra .
Dæmi orðið myndvarpi ef við tökum það í sundur þá er það mynd - varpi, eitthvað sem varpar mynd.
Að spyrja spurninga
Hér fer kennari að einhverju leyti í hlutverk fréttamannsins og kennir nemendum hvernig við búum til góðar spurningar sem fær okkur til að kryfja efnið meira niður. Gott er að hafa í huga að þó mikil áhersla sé á að vinna með opnar spurningar sem ýta undir samræður nemenda þá eiga lokaðar spurningar svo sannarlega áfram rétt á sér. Opnu spurningarnar eru það sem nemendur eiga oft í erfiðleikum með og það þarf að æfa þær aftur og aftur. Hér er dæmi um hvernig hægt er að vinna með spurningar í tímum.
Að draga saman aðalatriðin
Hér fer kennari yfir með nemendum hvernig við drögum aðalatriðin út úr textanum sem við erum að vinna með. Þetta getur líka verið t.d. að draga út aðalatriði úr vettvangsferð eða bíómynd o.s.frv.
Í Svíþjóð hófst þróunarverkefnið En lasenda klass árið 2014 en verkefninu var ætlað að efla lesskilning nemenda. Til að auðvelda nemendum að vinna með gagnvirkan lestur voru búnar til myndir/hlutverk sem voru byggð á hugmyndum um gagnvirkan lestur. MSHA fékk leyfi hjá Svíum að nota þessar myndir hér á landi.
Upphaflega voru hlutverkin fjögur, spákonan, spæjarinn, fréttamaðurinn og kúrekinn, Svíar bættu við fimmta hlutverkinu sem er listamaðurinn. Listamaðurinn býr til myndir og upplifanir út frá því sem hann sér, heyrir og finnur (Cronqvist, C. 2014. En lasande klass – Stjarnlasaren).
Á yngsta stigi nota kennarar gjarnan myndirnar en þegar nemendur eru komnir á mið- og unglingastig ættu þeir að geta nýtt verkfæri gagnvirks lesturs án þess að vera með myndir.
Spáir fyrir um innihald texta
Finnur orð og orðasambönd og útskýrir hvað þau þýða
Býr til upplifanir út frá texta
Dregur saman aðalatriðin
Spyr spurninga
Mismunandi lestrarhegðun
hægja á lestrinum eða auka hraðann,
endurlesa mikilvæga kafla,
fara fram fyrir í texta til að fá vísbendingar,
staldra við og spyrja sig spurninga, t.d. álykta um framhald,
túlka og taka saman meginatriði.
Samspil /gagnvirkni er á milli lesanda og efnis
tengja efni textans við fyrri þekkingu,
leita útskýringa þegar merking er óljós.
Tækni og skilningur
hafa leikni í umskráningu, góðan leshraði búa yfir góðum orðaforða og skilning.
Anna Guðmundsdóttir. (2007). Lesið til skilnings; kennarahandbók í gagnvirkum lestri. https://vefir.mms.is/lesid_til_skilnings/lesidtilskilnings_klb.pdf
Cronqvist, C. (2014). En lasande klass – Stjarnlasaren.
Rósa Eggertsdóttir. (2019). Hið ljúfa læsi, handbók um læsiskennslu fyrir kennara og kennaranema. Rósa Eggertsdóttir.