Áhugahvöt er drifkraftur í námi sem og öðru sem fengist er við í daglegu lífi. Orðið áhugahvöt er dregið af latneska orðinu movere sem merkir það sem fær hluti til að hreyfast. Orðið áhugi nær ekki þeirri merkingu því það er hægt að hafa áhuga á ýmsu en gera svo ekki meira með það. Með áhugahvöt er átt við að einstaklingur framkvæmir það sem áhugi hans stendur til. Talað er um innri áhugahvöt þegar þátttaka nemenda hefur gildi í sjálfu sér, hann langar sjálfan að taka þátt og ná árangir. Ytri áhugahvöt er hins vegar þegar þátttaka nemenda er háð einhvers konar ytri umbun eða til að forðast refsingu.
Í gegnum samskipti við nemendur hafa kennarar mikil áhrif á áhugahvöt nemenda sinna. Námsmenning skólans, þau viðhorf og gildi sem eru ríkjandi í námsaðstæðum, skipta máli varðandi áhughvöt nemenda. Viðhorf kennara til sjálfs sín sem fagmanns, sýn hans og gildi, hvernig hann talar við nemendur um námið og kennsluna getur stutt við að byggja upp eldmóð og áhuga hjá nemendum. Kennarinn veit að hann þarf ekki að hafa öll svörin. Hann er eins og nemandinn, fróðleiksfús og viljugur að læra nýja hluti í starfi eins og samfélagið á hverjum tíma gerir kröfu um (Anderman og Anderman, 2021 og Claxton, 2018).
Margir hafa rannsakað og sett fram kenningar um áhugahvöt. Sú kenning sem hvað mest hefur verið horft til á undanförnum árum varðandi nám og kennslu er sjálfsákvörðunarkenningin (e. self-determination theory; Deci,1980 ). Samkvæmt kenningunni eru lykilþættir við að efla áhugahvöt sjálfræði, hæfni og tengsl. Í sjálfræði felst að nemandi finni að hann hafi val, t.d. á milli viðfangsefna, námsefnis eða námsaðferða. Einnig að hann finni að þátttaka hans sé af fúsum og frjálsum vilja. Í hæfninni felst að nemandinn fái hæfilega krefjandi viðfagsefni og fókusinn er settur á framfarir hans. Nemandinn þarf að finna að hann nær árangri og vinnur að settum markmiðum. Með tengslum er átt við þörfina fyrir að tilheyra og tengjast öðrum í námshópnum. Þetta má til dæmis rækta í gegnum góð og uppbyggileg samskipti, nýta samræður og samvinnunám í kennslustundum (Anderman og Anderman, 2021).
Önnur kenning sem sett hefur verið fram um áhugahvöt er tileinkunarkenningin (e. attribution theory; Weiner, 1992). Þessi kenning fjallar meðal annars um að fólk sé knúið áfram af innri tilfinningu sem hjálpar því að túlka hver stjórni eða beri ábyrgð á persónulegri velgengni eða mistökum. Þeir sem ná góðum árangri, vinna vel og telja sig færa um hlutina eru knúnir áfram af innri stjórnrót. Aðrir eru knúnir áfram af ytri stjórnrót, þeir færa ábyrgðina á eigin frammistöðu yfir á aðra. Þeir telja það t.d. heppni eða góðum kennara að þakka ef vel gengur en þeir hafi ekki vald yfir eigin árangri eða mistökum. Kenningin gengur þannig út á spurninguna um hverju nemendur eigna árangur sinn. Af hverju gengur þeim vel eða illa í námi? Gengur mér alltaf illa óháð aðstæðum? Get ég gert eitthvað í orsökunum? Svörin við þessum spurningum eru líkleg til að hafa áhrif á áhugahvöt viðkomandi til náms (Anderman og Anderman, 2021).
Kenningin um væntingar og gildi (e. expectancy -value theory; Eccles, 1983) fjallar um væntingar nemenda til eigin getu. Ef nemandi hefur hefur litla trú á eigin getu þá eru minni líkur á að hann leggi sig fram ef hann telur viðfangsefnið of erfitt. Nemendur velta einnig fyrir sér gildi þess að leggja sig fram við viðfangsefni. Þeir spyrja sig, af hverju ætti ég að vinna þetta verkefni? Hvaða ánægju hef ég af því? Hverju breytir það fyrir mig? Hvernig nýtist þetta mér? Er þetta þess virði ef tekið er tillit til þess sem út úr verkefninu fæst, fer of mikill tími í verkefnið eða gæti ég verið að gera eitthvað annað sem nýtist mér betur t.d. spila með vinum mínum? (Anderman og Anderman, 2021).
Kenningar um áhugahvöt geta nýst kennurum við skipulagningu kennslu. Mikilvægt er að velta fyrir sér hvernig hægt er að koma sem best til móts við nemendur og ýta undir innri áhugahvöt þeirra. Mikilvægast er að nemendur finni að þeir ráði við verkefnin, fái hvatningu og fullvissu um að þeir séu að gera vel og að vinna þeirra skili árangri. Út frá kenningunum sem nefndar voru hér hafa sérfræðingar tekið saman lista yfir atriði sem huga þarf að í kennslunni:
Að nemendur séu meðvitaðir um markmið og tilgang með námsvinnunni
Verkefni sem nemendum er ætlað að vinna þurfa að vera samsvarandi þroska þeirra
Nemendum sé ætlað að afla upplýsinga og vinna úr þeim
Að verkefni reyni á skilning, ályktunarhæfni, samanburð, greiningu og mat
Bjóða nemendum upp á val. Þó svo það sé bara á milli tveggja verkefna eða aðferða við vinnuna
Hafa verkefni nemenda sýnileg á veggjum skólans, verkefni nemenda geta verið innblástur og fyrirmyndir fyrir vinnu annarra nemenda.
Leggðu áherslur á framfarir nemandans en ekki samanburð við aðra nemendur
Hafa skýr fyrirmæli og leiðbeiningar í verkefnavinnu
Byggðu verkefnavinnu á áhugasviði nemenda og fáðu þá til að tengja við persónulega reynslu
Hrós og leiðsögn þarf að vera skýr og snúast um verkefnið sjálft og hvernig nemandanum hefur farið fram í ákveðnum atriðum (Anderman, og Anderman, 2021).
Eftirfarandi töflu má nýta við skipulagningu kennslu. Einnig má nota hana sem tékklista þegar kennsluáætlun er yfirfarin. Sé tekið mið af þessum þáttum í kennslu ætti það að hafa jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda.
Anderman, E. M., Anderman, L. H. (2021). Classroom Motivation: Linking reasearch to teacher practice (3. útgáfa). Routledge.
Claxton, G. (2018). The learning power approach: Teaching learners to teach themselves. SAGE.