Fréttabréf

Grunnskólans á Ísafirði

Október 2018

Ágætu lesendur!

Nú kemur fyrsta fréttabréfið út þetta skólaárið. Það hefur verið í mörgu að snúast það sem af er hausti en við stefnum ótrauð áfram að útgáfu þess annan hvern mánuð.

Ný persónuverndarlög

Að undanförnu hefur grunnskólinn unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Einn liður í því krefst þátttöku foreldra sem tekin var fyrir í fyrstu foreldraviðtölum skólaársins, en þar leitaði skólinn samþykkis hjá foreldrum fyrir myndatöku af börnum þeirra og birtingu myndefnis. Til að tryggja ytra öryggi persónuupplýsinga nemenda var jafnframt leitast eftir því að fá foreldra til að undirrita trúnaðaryfirlýsingu um þau atriði skólastarfs og einstaka nemendur sem þeir kunna að fá vitneskju um í heimsóknum sínum í grunnskólanum. Sérstök athygli er vakin á því að þessar ráðstafanir eru gerðar með hagsmuni nemenda og vernd persónuupplýsinga þeirra að leiðarljósi.

Enn eiga einhverjir foreldrar eftir að undirrita slíkar yfirlýsingar og næst vonandi að klára það í foreldraviðtölunum í næstu viku.

Danskur farkennari

Þessar vikurnar er hér danskur farkennari, Annemette Erichsen, á vegum verkefnis dansk-íslensku samstarfsnefndarinnar. Markmiðið með því verkefni er að efla dönskukennslu hérlendis og þá sérstaklega kennslu í munnlegri tjáningu í samstarfi við dönskukennara skólanna. Farkennari fitjar upp á nýjungum í samstarfi við kennara á staðnum og aðstoðar þá sem þess óska við að hefja þróunarstarf.

Enn fjölgar nemendum

Nemendur skólans 1. október s.l. voru 369 talsins og hefur fjölgað um 3 frá því í fyrra, sem er heldur minni fjölgun en árið þar á undan. Við vonum svo sannarlega að línuritið haldi áfram að stíga næstu árin.

Hnetulaus skóli

Í Grunnskólanum á Ísafirði eru nokkur börn með bráðaofnæmi fyrir hnetum og því mikilvægt að taka tillit til þeirra þar sem hnetur geta valdið mjög slæmum og hættulegum ofnæmisviðbrögðum.

Skólinn er því hnetulaus sem þýðir að hvorki börn né starfsmenn koma með hnetur inn í skólann. Við viljum biðja foreldra að gæta þess að börnin komi ekki með nesti sem inniheldur hnetur. Dæmi um slíkt er: hnetujógúrt, abt mjólk með hnetumúsli, brauð með hnetusmjöri, hnetur í poka, alls kyns orkustykki, sumar brauðtegundir, morgunkorn og fleira.

Samræmd könnunarpróf

Í lok september tóku 4. og 7. bekkur samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði. Fyrirlögnin gekk vel ef frá er talið innanhússvandamál með tölvur í fyrsta prófinu, en því var bjargað eins og best var á kosið og gekk allt eins og smurt eftir það. Nemendur voru einstaklega einbeittir og gerðu allir sitt besta.

Dagana 11. - 13. mars n.k. verða svo lögð próf fyrir 9. bekk í íslensku, stærðfræði og ensku.

Það er leikur að læra

Það er margt hægt að gera til að brjóta upp hefðbundið nám. Í myndmennt hjá 3. bekk voru nemendur t.d. að forrita Róbótinn Mars (Micro bit smátölvu) til að teikna fyrir sig. Árangurinn lét ekki á sér standa og kom þetta líka glæsilega listaverk út úr því eins og sjá má hér til hliðar.

Lesfimi eykst

Lesfimi íslenskra skólabarna jókst marktækt milli ára, samkvæmt lesfimiprófi Menntamálastofnunar sem lagt var fyrir nemendur í öllum bekkjum grunnskóla í september s.l. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að aðgerðir til að auka lestrarfærni og áhuga barna skili árangri, bæði með markvissri vinnu skóla, kennara, foreldra og ekki síst nemendanna sjálfra. Sú jákvæðni og samhugur sem einkennt hefur lestrarkennslu í skólum landsins er mikilvægt skref á þeirri löngu vegferð, að auka lestraráhuga og læsi til lengri tíma. Síðast en ekki síst skilar aukinn lestur heima fyrir sér nær undantekningalaust í bættum árangri nemenda.

Grunnskólinn á Ísafirði kemur nokkuð vel út úr þessu fyrsta prófi skólaársins og er við eða yfir landsmeðaltali í flestum árgöngum.

Erasmus+

Fyrr á þessu ári úthlutaði Rannís Grunnskólanum á Ísafirði styrk vegna evrópska samstarfsverkefnisins Living in a challenging world en það er í flokki verkefna undir íslenskri verkefnastjórn. Auk G.Í. taka skólar frá Grikklandi, Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu þátt í verkefninu sem snýst um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Í þessari viku komu 9 kennarar frá viðkomandi þjóðum í heimsókn hingað til okkar og lögðu línurnar með þeim Jónu Benediktsdóttur og Bergljótu Halldórsdóttur, sem halda utan um verkefnið fyrir okkar hönd. Hópurinn skoðaði skólann hér og á Suðureyri, fór í söguskoðun og fleira og nutu dvalarinnar.

Jóna Benediktsdóttir og Bergljót Halldórsdóttir ásamt Andrési Péturssyni verkefnisstjóra og Ágústi Hirti Ingþórssyni, forstöðumanni Erasmus á Íslandi. (Mynd: erasmusplus.is)

Foreldradagur og haustfrí

Miðvikudaginn 17. október eru foreldraviðtöl. Hægt er að bóka viðtöl frá og með mánudagsmorgninum 15. október.

Fimmtudaginn 18. október og föstudaginn 19. október er svo haustfrí/vetrarfrí og engin kennsla.

Dægradvöl er lokuð þessa 3 daga.