Grunnskólinn á Ísafirði október 2017

Ágætu lesendur

Fyrsta fréttabréf þessa hausts lítur nú dagsins ljós nokkru seinna en vænta mátti. Til þessa höfum við gert þau með forritinu tackk en þegar við ætluðum að byrja að vinna fyrsta fréttabréfið brá svo við að síðan hafði verið lögð niður og ekki lengur hægt að komast í nein gögn sem vistuð voru þar. Þetta sló okkur aðeins út af laginu en nú höfum við náð vopnum okkar og leggjum af stað aftur og treystum nú á google með von um betri endingu.


Keypt voru ný húsgögn fyrir 1.bekk.

Megintilgangur skólastarfs á 21.öld

Á hverjum degi þurfum við að velta fyrir okkur hverju skólagangan á að skila nemendum. Megintilgangur skólastarfs er að mennta nemendur og veita þeim tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttu lýðræðislegu samstarfi. Við vitum ekki hvers konar samfélag mun bíða þeirra nemenda sem nú ganga í grunnskóla þegar þeir verða fullorðnir og það eina sem er öruggt er að það verður öðruvísi en það sem við þekkjum núna. Því er nauðsynlegt að nemendur læri að leita sér þekkingar og nýta hana við fjölbreyttar aðstæður. Þá er einnig mikilvægt að efla samskiptafærni þeirra því góð samskiptafærni hjálpar til í margskonar samhengi í lífinu seinna meir. Nemendur þurfa að vera færir um að þekkja eigin þarfir og kunna leiðir til að uppfylla þær án þess að takmarka möguleika annarra til þess hins sama. Mikilvægasta verkefni skólastarfs í grunnskóla er að vinna með foreldrum að því að ungt fólk fari út í lífið með þau verkfæri sem eru því nauðsynleg til að geta tekist á við heiminn og umhverfi sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Starfið í skólanum okkar litast af þessum meginmarkmiðum, þau eru ekki mælanleg á þeim mælikvörðum sem við höfum aðgengilega um þessar mundir en mun vonandi skila sér í víðsýnum samfélagslega ábyrgum borgurum framtíðarinnar. Við leggjum að sjálfsögðu líka áherslu á hinar hefðbundnu námsgreinar, þar má ekki heldur láta deigan síga. Við hvetjum ykkur til að standa sérstakan vörð um lesturinn, 15 mínútur af heimalestri á dag geta skipt sköpum varðandi framfarir í lestrarnáminu.

Hikið ekki við að hafa samband við okkur ef áhyggjur vakna vegna náms eða annarra verkefna er varða börnin ykkar og skólinn getur unnið að.

Við erum hér fyrir nemendur og foreldra.

Kveðja

Jóna


Nemendaþing

Þriðja nemendaþingið okkar var haldið núna í október og nú buðum við nágrannaskólum okkar úr Ísafjarðarbæ með okkur í þessa vinnu. Að þessu sinni fjölluðu nemendur um samfélagsmiðla. Spurningarnar sem lagt var upp með voru þrjár. Hvaða samfélagsmiðla þekkir þú, hvernig má hafa gagn af þeim og hvað ber að varast við notkun þeirra. Vinnan á þinginu gekk mjög vel, nemendur voru virkir og komu með margar frábærar ábendingar. Nemendaráð skólans er nú að vinna áfram með niðurstöðurnar og vonandi getum við birt þær fljótlega. Skólinn okkar hefur skapað sér ákveðið orðspor með vinnu af þessu tagi og við höfum verið með kynningar víða um land á því hvernig við byggjum þetta upp og hvaða fræðilegu forsendur við styðjumst við. Núna fengum við gesti frá Vogaskóla í Reykjavík sem voru að fylgjast með framkvæmdinni. Ríkisútvarpið heimsótti okkur líka og tók viðtöl við bæði starfsfólk og börn sem birtust svo í kvöldfréttum sjónvarps, upptöku af því má sjá hér að neðan.


Fjölbreytt vinnubrögð

Við erum ákaflega stolt af því hversu vel hefur tekist til með tæknivæðingu í skólanum þó að við vitum líka fullvel að endapunkti verður aldrei náð í því fremur en öðru sem snýr að skólastarfi. Krakkarnir okkar fá allt í senn, góða leiðsögn, aðgang að öflugum tækjum og möguleika til að þróa kunnáttu sína með sjálfstæðum hætti þegar þeir eru að útfæra ýmis verkefni í skólastarfinu. Margir foreldrar eiga minningar frá tungumálanámi sem fyrst og fremst fól í sér málfræðiæfingar og þýðingar á textum. Þetta er gjörbreytt í dag, nú er lögð rík áhersla á að nemendur geti skilið talað mál og jafnframt tjáð sig um efni sem þeim sjálfum þykir áhugavert. Hér að neðan er dæmi um slíkt tungumálaverkefni. Nemendur áttu að velja sér íslenskan íþróttamann og kynna hann á dönsku. Verkefnið sem hér er birt, með leyfi nemanda, sýnir mjög góða færni í dönsku, ensku og upplýsingatækni og síðast en ekki síst metnað og þrautseigju til að gera vel. Við fáum sem betur fer oft svona flott verkefni en það er ekki hægt að birta þau öll, við verðum að láta sýnishorn duga.

Af skipulagsmálum í skólanum

Í skólanum okkar eru núna 356 nemendur og hefur þeim fjölgað nokkuð milli ára. Bæði eru yngri árgangarnir okkar fjölmennari en þeir eldri og svo hafa flutt hingað fjölskyldur með börn í flesta árganga í haust. Þetta er ákaflega ánægjuleg þróun og við brosum út að eyrum yfir þessari fjölgun. Hún kallar að sjálfsögðu á ýmsar skipulagsbreytingar og sumt verður ekki séð fyrir. Bekkjarstærðir í skólanum eru fremur óhagstæðar hvað fjölda varðar þar sem margir árgangar eru of litlir til að þeim verði skipt í tvennt en um leið of stórir fyrir einn bekk. Þetta kostar það að við erum með tvo kennara inni í flestum tímum í þessum árgöngum og því kemur skólinn fremur illa út í samanburði á kostnaði við kennslu. Eins og áður sagði hefur yngstu nemendunum fjölgað mest og það veldur álagi á skólalóðinni og í mötuneytinu en við erum að velta fyrir okkur hvernig hægt er að skipuleggja skóladag þeirra þannig að draga megi úr álaginu sem fjöldinn skapar, því næsta ár fjölgar enn á yngsta stig. Eitt af því sem við erum að ræða er að breyta stundatöflunni hjá unglingunum líka þannig að elstu og yngstu börnin borði saman í hádeginu. Við erum líka að velta upp möguleikum í Frístundinni því með vaxandi fjölda á yngsta stigi eykst álagið þar líka. Þetta er allt í skoðun og ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir. Allar hugmyndir eru vel þegnar og við hvetjum ykkur til að hafa samband og ræða málin við okkur.

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa skólans er opin frá 7:45 - 14:30, mikilvægt er að tilkynna veikindi barna strax að morgni í gegnum síma 458-8300 eða www.mentor.is

Leyfisbeiðnir

Ef foreldrar þurfa að fá leyfi fyrir börn sín í einn til tvo daga eru þeir beðnir að snúa sér til umsjónarkennara. Ef um lengra leyfi er að ræða þarf að fylla út eyðublað þar sem fram kemur að foreldrar ábyrgjast að barnið vinni upp það sem það missir úr skólagöngunni vegna leyfisdaga. Eyðublaðið er á heimasíðu skólans en búast má við breytingum á því á næstu dögum.

Foreldrafélagið

Það líður senn að aðalfundi foreldrafélagsins og verður hann auglýstur á allra næstu dögum. Skólaganga barna er samvinnuverkefni heimila og skóla og því er mikilvægt að samstarf milli þessara aðila sé gott. Foreldrar geta haft mjög mikið að segja um hvernig andi byggist upp í bekk þó að þeir séu ekki í skólanum dags daglega. Bekkjarskemmtanir þar sem foreldrar og börn leika sér saman byggja upp tengsl sem auðvelda öll samskipti milli nemenda. Heimsóknir í skólann eru alltaf sjálfsagðar og á næstunni munu margir bekkir bjóða foreldrum í heimsókn á kynningar eða aðra viðburði. Allir bekkir eiga að hafa tengiliði og við hvetjum þá til að virkja aðra foreldra með sér í að skapa öflugt foreldrasamstarf í árgöngum barna sinna. Það er ekki fókið að vera tengiliður, en mikilvægt, og líkt og starfið í foreldrafélaginu þarf það alls ekki að taka mikinn tíma en er mjög nauðsynlegt.