Fréttabréf frá Grunnskólanum á Ísafirði

Ágætu foreldrar

Nú er veturinn í hámarki hjá okkur og margt í skólanum ber keim af því. Veðrið hefur verið rysjótt og stundum höfum við þurft að bjóða nemendum að vera inni í frímínútum vegna þess. Þá bjóðum við upp á bíósýningu í dansstofunni til tilbreytingar. En veturinn og snjórinn hafa líka margt skemmtilegt í för með sér. Við höfum fjárfest í fullt af skóflum sem eru heppilegar til að leika sér með í snjó og eru þær yfirleitt allar í notkun í frímínútum og vekja mikla gleði.

Nokkrar af þeim skóflum sem keyptar hafa verið og vekja mikla gleði.

Við höfum fengið marga góða gesti og margskonar viðburðir verið á dagskrá undanfarið. Þar má nefna sinfóníutónleika, fyrirlestur frá Pálmari Ragnarssyni og leikritið um Gísla Súrsson í flutningi Elfars Loga Hannessonar.

Pálmar Ragnarsson körfuboltaþjálfari með meiru spjallaði við nemendur 5. - 7. bekkjar um jákvæð samskipti, liðsheild og markmiðssetningu.

Elfar Logi Hannesson flutti Gísla sögu Súrssonar fyrir 10. bekk.

Hvað get ég gert?

Þann 29. nóvember sl. voru fyrirlestrar í Grunnskólanum á Ísafirði um bókaröðina Hvað get ég gert.

Árný Ingvarsdóttir kom og fór í gegnum hluta af bókaröðinni. Fyrst byrjaði hún á fyrirlestri um hvað væri hægt að gera við of miklum áhyggjum og síðar um kvöldið var fyrirlestur um hvað hægt væri að gera þegar reiðin tekur völdin.

Góðmennt var á fyrirlestrunum en ágætar umræður og spurningar sem Árný svaraði vel. Hægt var að kaupa bækurnar á afsláttarverði að loknum fyrirlestrum.

Fram kom í fyrirlestrunum að bækurnar eru einskonar leiðbeiningar fyrir foreldra og börn um hvernig megi aðlaga sig að aðstæðum sem barnið á ekki gott með. Raunar má færa rök fyrir því að margt sem fram kemur í bókunum eigi almennt vel við fullorðna líka. Bækurnar eru góðar fyrir foreldra og börn til að vinna saman að breyttu hegðunarmynstri en fyrirlestrar Árnýjar voru afskaplega góðir til að dýpka þekkinguna og vekja meiri áhuga á efninu en bækurnar eru byggðar á hugrænni atferlismeðferð. Bækurnar eru mjög líflegar, með mikið af teikningum og verkefnum sem gerir þær tilvaldar fyrir foreldra og börn til að vinna saman.

Það var gott framtak hjá skólanum að fá Árný til að halda fyrirlestrana og vonandi að fleiri svona fyrirlestrar geti fylgt á næstu skólamisserum. Þetta nýttist mér og vonandi fleirum.

Bragi R. Axelsson

Varnaðarorð

Af og til koma upp tilvik þar sem við fréttum af því að nemendur séu að horfa á klám. Flest börn eru með snjalltæki og aðgengi að slíku efni er auðvelt ef ekki eru góðar netsíur til varna. Við höfum ítrekað orðið vör við umræðu um þetta á undanförnum dögum. Umræðan hefur verið mest áberandi í 5. og 6. bekk og efnið sem um ræðir er mjög brenglað og auðvitað á ekkert barn að horfa á slíkt efni þar sem það er nánast alltaf ofbeldistengt. Allir fullorðnir vita að klám á ekkert skylt við venjulegt kynlíf og gefur því börnum algjörlega brenglaða mynd af samskiptum einstaklinga. Við hvetjum ykkur til að skoða, með reglubundnum hætti, leitarsögu í þeim tækjum sem börnin ykkar hafa aðgang að og ræða þessi mál opinskátt við þau. Krakkar hafa ekkert að gera eftirlitslausir í netheimum frekar en annars staðar.

Árshátíð

Það styttist í árshátíðina hjá okkur. Þema þessa árs var valið þannig að allir voru hvattir til að koma með hugmyndir og setja í kassa. Tillögur úr kassanum voru svo flokkaðar og nemendaráð af mið- og unglingastigi kusu síðan á milli þeirra atriða. Tvær umferðir þurfti til að ná fram niðurstöðu og að lokum varð þemað ,,Internetið“ fyrir valinu. Eins og áður munum við leita til ykkar með aðstoð við búninga og sitthvað fleira. Sýningar verða dagana 21. og 22. mars og verða nánar auglýstar þegar nær dregur.

Myndir frá árshátíð skólans vorið 2011.

Fjölgun nemenda

Í vetur hefur verið nokkuð um nýskráningar nemenda í skólann og eru nemendur nú orðnir 360 talsins, 180 stúlkur og 180 drengir, skemmtileg tilviljun það. Stærsti árgangurinn er í 1. bekk, alls 50 nemendur og fæstir í 8. bekk, 25 nemendur.

Nemendum í skólanum hefur nú fjölgað um 19 frá síðasta vetri og samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, virðist botninum hafa verið náð árin 2014-2016 þegar nemendafjöldi fór niður í 327. En nú liggur leiðin upp á við eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og vonumst við til að sú þróun haldi áfram.

5. bekkur

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvað 5. bekkingum kemur fyrst í hug þegar talað er um skólann, en þetta voru þau atriði sem oftast voru nefnd.

Aðalfundur foreldrafélags G.Í. verður haldinn í dansstofu skólans fimmtudaginn 8. mars kl. 20:00. Á fundinum verða almenn aðalfundarstörf, auk fyrirlesturs um ADHD. Við hvetjum alla foreldra til að sýna samstöðu og mæta.