Fréttabréf Grunnskólans á Ísafirði

desember 2018

Ágætu lesendur!

Nú kemur annað fréttabréf skólaársins út þar sem farið er yfir það helsta sem verið hefur á dagskrá hjá okkur undanfarið. Fréttabréf þetta er gefið út á tveggja mánaða fresti og kemur því næst út í febrúar.

Myndlistarkonurnar Maria og Natalia Petschatnikov buðu unglingastiginu upp á fræðslu 20.sept. s.l.

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur hélt fyrirlestra fyrir nemendur 6. - 10. bekkjar varðandi skapandi skrif o.fl. 24. sept. s.l.

Nemendur 1. - 4. bekkjar sáu barnaóperuna um Gilitrutt í boði verkefnisins List fyrir alla 2. okt. s.l.

Bryndís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla fræddi nemendur 5. - 7. bekkjar um netöryggi 23. okt. s.l.

Rithöfundarnir Kjartan Y. Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson fræddu nemendur 8. - 10. bekkjar um starf höfunda 24. okt. s.l.Íþróttahátíðin í Bolungarvík fór fram 25. okt. s.l. þar sem nemendur 8. - 10. bekkja á norðanverðum Vestfjörðum öttu kappi í ýmsum íþróttagreinum og skemmtu sér saman.Sigga Dögg, kynfræðingur var með fræðslu fyrir nemendur 6. - 10. bekkjar 11. okt. s.l.

Bókmenntaspurningakeppnin Snillingarnir fór fram í byrjun desember, þar sem nemendur 4. - 7. bekkjar kepptu.

Nemendur og starfsmenn tóku höndum saman á táknrænan hátt í baráttunni gegn einelti.

Leiklistarval skólans setti upp verkið ,,Tjaldið" eftir Hallgrím Helgason og var það sýnt 30. nóvember s.l.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Hið árlega Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram 26. september s.l. og gátu nemendur valið á milli þriggja vegalengda, þ.e. 2,5 km., 5 km., eða 10 km.

Eftir hlaupið fengum við þau skemmtilegu tíðindi að G.Í. var einn þriggja skóla sem var dreginn út sem vinningshafi þetta árið, en 66 skólar voru í pottinum að þessu sinni sem er met. Í verðlaun hlaut skólinn inneign að upphæð kr. 100.000 í Altis og voru keyptir boltar, snú-snúbönd o.fl. til útileikja fyrir þá fjárhæð.

Skólastefna Ísafjarðarbæjar

Skólastjóri átti fund með ungmennaráði skólans, skipað fulltrúum nemenda í 5.-10.bekk, þann 12. desember. Á fundinum voru drög að nýrri skólastefnu Ísafjarðarbæjar kynnt og leitað var eftir áilti nemenda. Nemendum leist vel á drögin og í lokin urðu góðar umræður, meðal annars um einstaklingsmiðað nám, samskiptafærni, gagnrýna hugsun og mötuneyti. Til stendur að ungmennaráðið mæti svo á stóran umræðufund í janúar næstkomandi með ýmsum aðilum skólasamfélagsins í bæjarfélaginu þar sem lokahönd verður lögð á nýja skólastefnu.

Áhugaverðir tenglar

Hér að neðan eru nokkrir fyrirlestrar sem við viljum benda foreldrum á, en þeir snúa að vellíðan og velferð barna og unglinga.


Er þetta ekki bara frekja? - Urður Njarðvík dósent við sálfræðideild H.Í. fjallar um samspil kvíða og hegðunarvanda barna.

Ræðum í stað þess að rífast - Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor við Uppeldis- og menntunarfræðideild og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessor við sömu deild, fjalla hér um uppeldishætti og hvernig stuðla má að góðum samskiptum foreldra og barna.

Börn og unglingar á yfirsnúningi - Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands og Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor ræða um mikilvægi næringar og svefns fyrir unga Íslendinga.

Læsi í krafti foreldra - Menntamálastofnun hefur nú gefið út myndband þar sem finna má skilaboð til foreldra og verður myndbandið textað á ensku og pólsku.

Jólakveðja frá nemendum

Litlu jólin eru einn af skemmtilegustu dögum skólaársins. Þann dag mætum við í fínum fötum með smákökur í nesti og sparidrykk. Venjan hefur verið að skiptast á litlum jólapökkum þar sem hver pakki má ekki kosta meira en 1.000 kr. og við syngjum, förum í hópeflisleiki og spilum. Samkvæmt venju er jólaball þar sem sungið er og dansað í kringum jólatréð og svo kíkja jólasveinarnir við.

Ein af okkar uppáhalds minningum sem ungir grunnskólakrakkar hér á Ísafirði, eru jólasögurnar sem kennarinn samdi. Í þeirri sögu komu allir nemendur fram og höfðu hlutverk. Þá var hlegið mjög mikið. Við erum einnig sammála um það að bingó hafi verið svolítið í uppáhaldi.

Skemmtilegt að sjá hvað litlu jólin sameina nemendur bekkjarins og það er svo notalegt og hlý stemning. Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla,

Katla María Sæmundsdóttir og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir, nemendur í 10. bekk.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öðrum velunnurum gleðlilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða.

Kennsla hefst að nýju eftir jólaleyfi föstudaginn 4. janúar 2019.