Þessi vefur var unninn vorið 2021 sem lokaverkefni í áfanganum Hönnun stafræns námsefnis og miðlun frá Háskóla Íslands.
Ástæðan fyrir efnisvalinu var sú að höfundur hafði um nokkurt skeið sinnt kennslu í Fablab smiðju Hornafjarðar fyrir Grunnskóla Hornafjarðar. Þar eru þegar þetta er ritað fjórir þrívíddarprentarar og eru margir nemendur sem sækja smiðjuna áhugasamir um að læra þrívíddarhönnun og prentun.
Á fyrri helmingi ársins 2020 fékk forritið sem Fablab smiðjan notar við hönnun (Fusion 360) andlitslyftingu og breyttust skipanir, hegðun þeirra og uppröðun innan forritsins. Þetta gerði það að verkum að það litla námsefni sem var til staðar á íslensku úreltist að nokkru leyti. Því ákvað höfundur að reyna að útbúa efni í formi vendikennslu fyrir flestar af grunnskipunum forritsins.
Höfundur vonar að þessi vefur eigi eftir að nýtast bæði nemendum sínum, öðrum kennurum og nemendum í íslenskum skólum og áhugasömum einstaklingum um efnið.
Með tímanum mætti svo bæta við myndskeiðum á vefinn og jafnvel taka inn efni sem snýr að fleiri tækjum og forritum sem aðgengileg eru í Fablab smiðjum landsins. Höfundur tekur þó fram að hann er ekki starfsmaður Fablab, einungis grunnskólakennari með aðgang að frábærri Fablab smiðju sem kennslustofu, hér á Hornafirði.
Höfundur vill að lokum þakka Vilhjálmi Magnússyni, verkefnastjóra Fablab á Hornafirði, kærlega fyrir að kenna sér á tæki og forrit og gefa sér góð ráð við námsefnisgerðina.