Við lok 46. viku

Skólar eru að bregðast á mjög mismunandi hátt við kröfum um sóttvarnir. Það fer eftir húsnæði og aðstöðu hvers skóla. Þær reglur sem nú gilda og við vinnum eftir eru ekki þær sömu og í vor, töluverður munur þar á. Við höfum leitað aðstoðar og ráðlegginga hjá formanni Skólastjórafélags Íslands og lögfræðingum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt verið í góðu sambandi við stjórnendur Seljaskóla og Grunnskólans í Borgarnesi – en báðir þessir skólar hafa þurft að senda nemendur og starfsfólk í einangrun, og/eða sóttkví, og í kjölfarið unnið vel með rakningarteyminu. Þessi samtöl voru mjög gagnleg þar sem við bárum m.a. saman sóttvarnaráætlanir okkar. Við endurskoðum áætlun okkar reglulega og hugum að því hvað við getum gert betur. Það er m.a. markmið Google Meet fundanna okkar sem eru reglulega. Eins er ykkur velkomið að senda fyrirspurnir og ábendingar til okkar stjórnenda.

Það er okkar mat að áætlun okkar sé góð og við séum að gera hlutina eins vel og hægt er miðað við okkar aðstæður en alltaf má gera betur. Í þessari viku bættum við sóttvarnir í skólanum, settum upp fjóra vaska í unglingadeildinni í Ólafsvík og færðum kennslu í myndmennt hjá nemendum í 5.-10. bekk í gamla skólann á Hellissandi (textílmenntarstofu).

Starfsfólk þarf að vera með grímur allan daginn. Því er farið að líða illa undan grímunni, finnur fyrir þurrki og höfuðverkjum. Því höfum við brugðið á það ráð að útvega starfsfólki margnota grímur sem draga úr líkum á þessum kvillum. Engir nemendur þurfa að bera grímur hjá okkur allan daginn, þeir eru lausir við þær í bóklegum tímum en á sama tíma er grímuskylda hjá starfsfólki. Nemendum stendur til boða að fá fjölnota grímur eftir sem áður. Við hvetjum kennara og starfsfólk til að reyna að halda tveggja metra fjarlægð við nemendur og sín á milli þó allir séu með grímur.

Þar sem ekki hefur mátt kenna íþróttir og sund hafa íþróttakennarar verið duglegir að fara með nemendur í útivist. Þegar veður hefur hamlað för í útiveru hafa kennarar farið með nemendur í jóga, slökun, teygjur og núvitund. Arna Tómasdóttir, jógakennari, hefur liðsinnt okkur með þennan þátt með góðum árangri.


Minnum á að föstudagurinn 20.11. er skipulagsdagur í skólanum og er þá frí hjá nemendum.


Orðsending frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Embætti landlæknis:


Samkomutakmarkanir og börn

Skólar og íþróttafélög skipuleggja sitt fyrirkomulag til að fara eftir fyrirmælum yfirvalda um takmarkanir á skólastarfi og samkomum, þ.m.t. fjöldatakmörkunum, rýmum og grímunotkun. Það er mikilvægt að forráðamenn barna dragi á sama tíma úr fjölda einstaklinga í tengslaneti barna sinna utan skólatíma til að vinna ekki gegn þessum ráðstöfunum. Gott er að hafa eftirfarandi í huga:

• Skólafélagar sem ekki eru í sama hópi í skólastarfinu ættu ekki að vera í návígi utan skóla.

• Hafi börnin þroska til að fara eftir leiðbeiningum sem snúa að minni snertingu við vini er ekki útilokað að þau geti hist í leikjum. Leikirnir mega ekki fela í sér beina snertingu, notkun á sameiginlegum leikföngum eða búnaði sem snertur er með berum höndum.

• Börn og ungmenni ættu ávallt að þvo sér vel um hendur bæði áður en þau hitta félaga sína og eftir að þau koma heim.

• Fjölskyldur ættu að hafa í huga að ef börnin umgangast mikið vini eða frændsystkini úr öðrum skólum eða skólahópum þá verður til tenging milli hópa sem annars væru aðskildir. Slíkt ætti að forðast eins og kostur er.

• Fjölskyldur eru hvattar til að nýta sér tæknina til að halda góðum tengslum við ástvini sem eru í áhættuhópum vegna COVID-19 sýkinga, eldra fólk og fólk með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.

• Einnig væri hægt að nota tækifærið að kenna börnunum að skrifa sendibréf og æfa í leiðinni skrift, stafsetningu, virkja ímyndunaraflið og hugsa í lausnum þegar kemur að samskiptum við ástvini okkar.


Orðsendingin á ensku:

„Upplifum ævintýrin saman“

Barnaheill standa fyrir símalausum sunnudegi næsta sunnudag 15. nóvember.

Yfirskrift átaksins er: „Upplifum ævintýrin saman“. Markmiðið er að vekja foreldra og annað fullorðið fólk til umhugsunar um áhrif snjalltækja á samveru og nánd innan fjölskyldna.

Snjallsímar og önnur snjalltæki eru skemmtileg og gagnleg tæki sem hafa umbylt því hvernig við eigum í samskiptum, nálgumst upplýsingar og verjum tíma okkar. Í mörgum tilvikum eru áhrif tækninnar jákvæð og sniðug en einnig hefur verið bent á skuggahliðar hennar. Óhófleg notkun á snjalltækjum getur meðal annars haft áhrif á samskipti innan fjölskyldunnar - samskiptin og nándin minnka því það er eitthvað annað sem stelur athyglinni.

Sunnudaginn 15. nóvember hvetja Barnaheill landsmenn til að leggja frá sér símann og önnur snjalltæki í 12 klukkustundir (klukkan 9-21). Með uppátækinu viljum við vekja foreldra og annað fullorðið fólk til umhugsunar um snjalltækjanotkun innan heimilisins og þau áhrif sem tækin geta haft á samverustundir fjölskyldunnar.

Hægt er að skrá sig til leiks á www.simalaus.is og taka áskorun Barnaheilla. Allir þátttakendur eiga möguleika á að vinna fjölbreytta og fjölskylduvæna útdráttarvinninga og fá auk þess nokkur góð ráð send laugardaginn 14. nóvember.