Kynningarefni - haust 2020

Við erum að upplifa mjög sérstaka tíma og erum á því stigi sem kallast neyðarstig almannavarna þar sem við þurfum að huga mjög vel að sóttvörnum sem snúa fyrst og fremst að fullorðna fólkinu. Áhersla er lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum. Jafnframt þarf að takmarka komur gesta í skólann og virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi. Nemendur eru undanskildir þessum kvöðum en áhersla er lögð á að þeir temji sér hreinlæti og góða umgengni.

Munum L - M - N

Kynningarfundir í 2.- 10. bekk verða ekki þetta haustið en við munum tíunda það helsta í þessum pósti sem foreldrar þurfa að hafa í huga varðandi starfið þetta skólaár. Kynningarfundur verður fyrir foreldra nemenda í 1. bekk og verður hann auglýstur nánar þegar dagsetning liggur fyrir.

Miðvikudaginn 14. október er skipulagsdagur og frí hjá nemendum.

Föstudaginn 23. október er samstalsdagur og nemendur mæta ekki í skólann.

29. - 30. október er vetrarfrí.

Samtalsdagurinn

Við munum nýta okkur tæknina að þessu sinni og nota kerfi sem heitir Google Meet. Árskóli fór þessa leið nú í haust með góðum árangri. Hér eru leiðbeiningar fyrir foreldra https://docs.google.com/document/d/1XqKM0mccCeckgTPw5ifeE7GjIblBMiMO1_ndBZYZ2-Q/edit

Samtölin í ár munu fyrst og fremst ganga út á líðan og stöðu nemenda, jafnframt verður hæfnikort nemenda rætt.


Leiðsegjandi námsmat /hæfnikort

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er tilgangur námsmats að leiðbeina nemendum við námið, hvernig þeir geti náð markmiðum þess og í námsmati á að leggja mat á hæfni nemenda út frá hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í skólanámskrá. Í upphafi hvers skólaárs eiga þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar náminu að vera skráð í Mentor. Nemendur vinna að því að ná þessari hæfni og árangur þeirra er metinn jafnt og þétt. Niðurstöður þess mats eru síðan skráðar í kerfið og birtast þar á hæfnikorti nemanda. Nemendur og foreldrar geta fylgst með þróuninni á hæfnikorti nemandans í Mentor.

Inn á heimasíðu Hagaskóla eru mjög góðar leiðbeiningar um hæfnikort nemenda sem birtast inn á Mentor - sjá https://www.youtube.com/watch?v=vVcg_WtZRcI&feature=emb_logo


Mentor

Við notum mentor.is kerfið til að halda utan um upplýsingar varðandi nemendur og námsframvindu þeirra. Við hvetjum foreldra til að láta okkur vita ef upplýsingar eru ekki réttar og fylgjast með námsframvindu barna sinna á Mentor.

Leiðbeiningar um notkun er hægt að nálgast á þessari síðu - https://www.infomentor.is/adstod og hér er tengill inn á notendahandbók fyrir Mentor - https://www.infomentor.is/wp-content/uploads/sites/5/2020/09/handbok-fyrir-adstandendur-haust-2020.pdf


Skólareglur og ástundun

Sjá nánar á bls. 26 - 29 í skólanámskrá

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska, þar sem velferð nemenda er höfð að leiðarljósi.

Í skólareglum kemur fram að nemendur skuli sækja skóla nema veikindi eða aðrar ástæður liggi að baki. Forráðamenn skulu tilkynna forföll í upphafi skóladags eða eins fljótt og auðið er til skólaritara. Veikindi ber að tilkynna daglega. Leyfi í einn dag skal sækja um til umsjónarkennara eða skólaritara, en ef um er að ræða lengra leyfi skal sækja um það skriflega til skólastjórnenda (eyðublað á heimasíðunni www.gsnb.is og hjá skólaritara)

Forráðamenn hafa aðgang að skráningum barna sinna á Mentor og ber að fylgjast með stundvísi þeirra.

Komi nemandi í kennslustund eftir að kennari hefur kannað mætingu og starf er hafið fær hann seint merkt í Mentor og eitt fjarvistarstig ef innan við 20 mín.eru liðnar af tímanum.

Fyrir óheimila fjarvist fær nemandi tvö fjarvistarstig og merkta fjarvist í Mentor. Óheimil fjarvist telst ef nemandi mætir eftir að tími er hálfnaður eða mætir ekki, án leyfis.

Eftirfarandi reglur gilda varðandi farsíma:

Farsímar og snjallúr nemenda í 1.-7. bekk skulu vera í skólatöskum á skólatíma en notkun farsíma er leyfð í frímínútum og í eyðum nemenda í 8.-10. bekk. Farsímar eru ekki leyfðir í mötuneyti skólans á matmálstíma.


Stefnumarkandi plögg

Hver skóli skal birta stefnu sína með tvennum hætti. Annars vegar er almenn stefnumörkun birt í skólanámskrá og hins vegar eru upplýsingar, sem eru breytilegar frá ári til árs, birtar í árlegri starfsáætlun.

Bæði þessi plögg eru á heimasíðu skólans og viljum við hvetja foreldra til að kynna sér þau:


Innra mat

Tilgangurinn með sjálfsmati skóla er fyrst og fremst að vera umbótamiðað, þ.e. greina stöðuna, finna hvað vel er gert og hvað má betur fara, vinna áætlun um úrbætur og hrinda henni í framkvæmd. Skýrslu síðasta skólaárs er hægt að nálgast á þessum tengli - https://www.gsnb.is/sjalfsmat


Foreldrasamstarf

Grunnskóli Snæfellsbæjar leggur áherslu á samvinnu, samstarf og gagnkvæma virðingu milli heimila og skóla. Mikilvægt er að skólinn og heimilin séu samstíga og vinni saman með velferð nemenda að leiðarljósi.

Gagnkvæmt upplýsingastreymi er mikilvægt milli heimilis og skóla varðandi nám, kennslu og líðan nemenda.


Sjálfstæði -Metnaður - Samkennd