Síðasta fréttabréf á þessu ári

Þá eru hátíðirnar að ganga í garð og þetta ár að renna sitt skeið. Við munum minnast þessa árs vegna Covid faraldursins og alls þess sem honum hefur tilheyrt. Það hefur komið mér á óvart hvað við sem samfélag höfum staðið okkur vel við að halda sjúkdómnum niðri, bæði á landsvísu og svo hér heima í Snæfellsbæ. Það er margt sem við getum lært og sett í reynslubankann. Tvennt finnst mér standa upp úr en það er samstaðan og hvað okkur tókst vel að fara eftir fyrirmælum. Til fyrirmyndar. Minnumst samt þess að faraldurinn er ekki búinn og mikilvægt að við stöndum saman við að kveða hann niður nú þegar hillir undir að við sjáum fyrir endalok hans. Þetta er ekki búið.


Síðasti skóladagur á þesssu ári er á morgun, föstudaginn 18. desember. Skóli hefst samkvæmt stundaskrá að loknu jólafríi þriðjudaginn 5. janúar



Jólaútvarp GSnb

Jólaútvarp GSnb er búið að vera í loftinu þessa vikuna, nemendur og starfsmenn hafa sýnt mikinn metnað við undirbúning þess. Útvarpið gefur okkur tækifæri til að vera með uppbrot á hefðbundinni kennslu þar sem áherslan er á semja fjölbreytta texta og þjálfa framsögn nemenda. Það er búið að vera mjög ánægjulegt að hlusta og njóta í ár. Þetta er í fimmta skiptið sem við erum í loftinu og okkur er alltaf að fara fram. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð víða að og fólk er hlusta um allan heim. Almennt finnst hlustendum útvarpið vera að batna með hverju árinu, það sé hlustendavænna og renni betur en oft áður. Við viljum þakka nemendum fyrir að leggja sig fram um þáttagerðina, foreldrum fyrir að hjálpa börnum sínum við undirbúninginn, styrktaraðilum fyrir þeirra hlut, starfsfólki og stjórnendum fyrir góðan undirbúning og framkvæmd og síðast en ekki síst Hullu, verkefnastjóra í UT, fyrir að stýra þessu verkefni eins vel og raun ber vitni. Kærar þakkir öll. Við erum mjög stolt og ánægð með útvarpið okkar en alltaf má gera betur og næst förum við í að rýna í það sem vel var gert og hvað má betur fara með það að markmiði að gera enn betur á næsta ári.

Gjaldskrá í Grunnskóla Snæfellsbæjar 2021

Skólabær

Boðið er upp á vistun fyrir börn í 1. – 4. bekk á Hellissandi eftir að skóla lýkur kl. 13:40. til kl. 16:00. Börn eru skráð inn í Skólabæ og eru þar í umsjón starfsfólks uns þau eru skráð út við brottför.

Skólabær er opinn alla daga sem grunnskólinn starfar skv. skóladagatali. Hann er ekki opinn í vetrarfríum. Starfsemin hefst á skólasetningardegi og lýkur á skólaslitadegi.

Grunngjald fyrir hverja klukkustund er kr. 310.- (3% hækkun milli ára)

Greitt er fyrir hverjar byrjaðar 30 mínútur og greitt er fyrir alla tíma skv. gjaldskrá. Greitt er fyrirfram fyrir hvern mánuð og er greiðslan innheimt með greiðsluseðli. Ekki er endurgreitt vegna fjarvista eða veikinda nema þau vari lengur en eina viku samfellt. Ekki er veittur afsláttur þó nemendur fari t.d. í íþróttatíma eða tónlistartíma á dvalartíma Skólabæjar.

Afsláttur af dvalargjaldi:

Einstæðir foreldrar 40%

Systkinaafsláttur, 2. barn 50%

Systkinaafsláttur, 3. barn 100 %

Öllum börnum í Skólabæ er boðið upp á síðdegishressingu gegn greiðslu.

Gjald fyrir síðdegishressingu í Skólabæ er kr. 155.- (hækkun um 3% milli ára)


Matur í mötuneyti

Heitur matur er í boði, gegn greiðslu, frá mötuneyti Grunnskóla Snæfellsbæjar alla skóladaga skv. skóladagatali. Ekki er í boði að kaupa stakar máltíðir heldur skrá foreldrar börn sín í áskrift í byrjun skólaárs.

Mánaðaráskrift fyrir hádegisverð er kr. 8.700.- (hækkun um 3% milli ára)

Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjöldum.

Ef foreldrar óska eftir að segja upp mataráskrift barna sinna, þá skal gera það skriflega fyrir 20. hvers mánaðar. Ef uppsögn hefur ekki borist fyrir þann 20. þá er litið svo á að barnið sé í áskrift mánuðinn á eftir.


Gleðileg jól