Fréttabréf í desember

Jólin nálgast og þessum tíma fylgir gjarnan mikil spenna og eftirvænting. Mörgu þarf að ljúka áður en hátíðin gengur í garð. Við skulum reyna að lækka spennustigið eins og hægt er og njóta augnabliksins með okkar nánustu. Höfum það í huga af hverju við erum að halda jól. Lestur góðra bóka dreifir huganum og styrkir þroska hvers og eins.

Það er viðbúið að í jólafríinu sé fólk á ferðinni jafnt innanlands sem utan og hvetjum við alla til að huga vel að persónulegum sóttvörnum. Þegar skóli hefst á ný eftir áramót þurfum við að huga sérstaklega vel að sóttvörnum og fara eftir þeim reglum sem verða þá í gildi.

Dagskráin síðustu daga er nokkuð hefðbundin en tekur mið af þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi, sjá https://www.covid.is/undirflokkar/gildandi-takmarkanir, þá sérstaklega reglan að „Í skólastarfi gilda almennar reglur um 50 manna fjöldatakmörk nema börn fædd 2016 og síðar eru undanskilin. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.“

Hver starfstöð mun senda til foreldra nánara yfirlit um skipulag þessara daga.


Ný gjaldskrá fyrir skólamáltíðir og heilsdagsskóla mun taka gildi frá og með fyrsta janúar 2021 - sjá nánar á heimasíðu -https://www.gsnb.is/_files/ugd/78b0ab_849a1c5d34dc43d784e13bc6498cef92.pdf


Jólaútvarp

Í þessari viku er jólaútvarp GSnb í loftinu. Það er sent út á fm 103,5 í Ólafsvík og 106,5 á Hellissandi og Rifi, einnig verður sent út á netinu á slóðinni www.spilarinn.is. Hægt verður að nálgast dagskrána á gsnb.is og á facebooksíðu skólans.

Ávinningurinn fyrir nemendur af því að standa í útvarpsrekstri er margvíslegur, hæfileikar sem öllu jafna eru ekki þjálfaðir fá notið sín s.s. munnleg framsögn, samning handrita og tæknimenn fá tækifæri til að læra á nýja tækni. Kærar þakkir til allra sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessa viðburðar í skólastarfinu - undir styrkri stjórn nemendaráðsins og Hullu sem hefur stýrt þessu verkefni af mikilli alúð og fagmennsku.

Hvetjum alla til að lesa opið bréf Sálstofunnar til jólasveinanna sem birtist á visir.is þann 11. desember, þörf og góð lesning - https://www.visir.is/g/20171460383d


Breyting á skóladagatali

Á því skóladagatali sem var samþykkt síðasta vor voru fyrirhugaðir þrír samliggjandi starfsdagar, settir í janúar, 19., 20. og 21. Voru þeir hugsaðir til endurmenntunar fyrir starfsfólk, að fara á ráðstefnu í London og/eða skólaheimsóknir. Nú er ljóst að ekki eru forsendur fyrir námsferð af því tagi. Því höfum við ákveðið að breyta skóladagatalinu á þann veg að skipulagsdagurinn 19. janúar heldur sér og hinir tveir dagarnir færast yfir á 25. febrúar og 21. mars. Þessi ósk um breytingu verður kynnt fyrir skólaráði og fræðslunefnd í vikunni og þarf að fá samþykki til að öðlast gildi.

Skólli hefst að nýju mánudaginn 3. janúar 2022, samkvæmt stundaskrá.

Viðurkenning

Miðvikudaginn 6. október 2021 var Forvarnardagurinn haldinn í grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendum voru kynntar nýjustu niðurstöður rannsókna á þeirra aldurshóp varðandi helstu þætti sem hafa áhrif á góða heilsu og þroska. Þau ræddu hugmyndir sínar um samveru í frítíma, íþrótta- og tómstundastarf og leiðir til að leyfa heilanum að þroskast ásamt því hvaða áhrif þessir verndandi þættir hafa á líf þeirra.

Þegar þessari vinnu lauk gafst nemendum kostur á að taka þátt í spurningaleik sem tengdist efni Forvarnardagsins og þáttum sem dregið geta úr áhættuhegðun. Nemendur sendu síðan inn lausnir sínar og voru dregnir út 3 heppnir nemendur sem tóku við verðlaunum sínum laugardaginn 11. desember úr hendi forseta Íslands á Bessastöðum. Einn af vinningshöfum var nemandi skólans, Bryndís Brá Guðbjörnsdóttir í 9.bekk. Óskum við henni til hamingju með viðurkenninguna.

Að lokum

Tíminn sem nú fer í hönd er tími þar sem fjölskyldur og vinir koma saman, gera sér dagamun í mat og drykk, gefa gjafir og njóta samvista, hver með sínum hætti. Rétt er að hafa þá í huga sem minna mega sín eða eiga um sárt að binda, lítum til með þeim. Bros, heimsóknir og styrkir af ýmsu tagi geta haft mikil áhrif til hins betra.

Gleðileg jól