Fréttabréf í október

Skólastarfið er að færast, hægt en örugglega, til fyrra horfs. Við vorum með stífa túlkun og útfærslu á sóttvarnareglum í upphafi skólaárs en höfum slakað hægt og gætilega á okkar útfærslu á þeim en aldrei hvikað frá þeirri meginlínu sem sóttvarnalæknir lagði í sinni reglugerð.

Sóttvarnareglur, sem hafa verið í gildi nú í september, voru framlengdar fram í miðjan október. Það helsta sem snýr að skólastarfinu er að:

Grímuskylda er innandyra þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum, einnig á viðburðum þar sem gestir sitja í bókuðum sætum. Nálægðarmörk og grímuskylda á ekki við um börn fædd 2006 eða síðar.

Kennurum og nemendum fæddum 2005 og fyrr er heimilt í skólum að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofu.


Samtalsdagur miðvikudaginn 20. október

Samtalsdagurinn verður með blönduðu sniði í ár, þ.e. að umsjónarkennarar og foreldrar komi sér saman um fyrirkomulag fundanna, hvort þeir eru stað- eða fjarfundir. Staðfundir eru alltaf árangursríkastir en við ætlum að bjóða upp á val í þetta skiptið.

Opnað verður fyrir skráningar í samtölin á mentor.is, í hádeginu, miðvikudaginn 13. október.

Nýjar skólareglur og jákvæður skólabragur

Síðustu tvö ár höfum við verið að endurskoða skólareglur skólans og ferli til að leysa úr málum sem upp koma í skólastarfinu. Myndaður var starfshópur fulltrúa allra úr skólasamfélaginu og héldum við úti heimasíðu um þá vinnu - sjá https://sites.google.com/gsnbskoli.is/gsnb/home

Skólareglurnar voru kynntar og samþykktar á fundum starfsmanna, skólaráðs og fræðsluráðs, eins og lög gera ráð fyrir. Jafnframt voru þær kynntar á kynningarfundum fyrir foreldra nú í haust. Hægt er að kynna sér skólareglurnar á þessum tengli - https://sites.google.com/gsnbskoli.is/skolareglurgsnb/home

Skólareglurnar eiga að vera lifandi og í sífelldri endurskoðun og því gott að fá umæður um þær og ábendingar. Meðan starfshópurinn var að störfum kom fram að skólinn ætti að mynda sér stefnu um hvernig hann hygðist skapa og viðhalda jákvæðum skólabrag. Vinnuhópurinn tók að sér semja slíka stefnu og hægt er að nálgast stefnuna hér https://sites.google.com/gsnbskoli.is/skolabragur/home


Samstarf við Miðju máls og læsis

Skólinn er kominn í samstarf við Miðju máls og læsis (sjá https://mml.reykjavik.is/) með það að markmiði að efla íslenskunám nemenda af erlendum uppruna (oft nefndir ÍSAT nemendur). Mánudaginn 1. nóvember verður fræðsla fyrir starfsfólk leik- og grunnskólanna um kennslu og nám ÍSAT nemenda. Þennan dag verður foreldrum boðið upp á fræðslu og samræður um ýmislegt sem viðkemur fjölmenningu og hindrunum sem minnihlutahópar standa frammi fyrir. Rætt um leiðir til að auðvelda tengslamyndun og aðlögun að íslensku samfélagi og hvert hlutverk foreldra er í því sambandi. Mikilvægt er að foreldrar mæti á fundinn, boðið verður upp á veitingar og gæslu fyrir börn á meðan fundurinn stendur yfir.

Albína lætur af störfum

Í haust lét Albína Gunnarsdóttir af störfum við skólann. Hún kom fyrst til starfa við Grunnskóla Ólafsvíkur árið 1976, eða fyrir 45 árum, en starfsaldur hennar við grunnskóla í Snæfellsbæ er orðinn 32 ár. Á þessum tíma hefur hún gegnt mörgum störfum við skólann, m.a. verið skólaliði, stuðningfulltrúi og kennari. Leyst öll sín verkefni með bros á vör.

Þess má geta að Albína er ekki búin að slíta öll tengsl við skólann, hún mun sinna afleysingum þegar hún hefur tök á.

Við þessi tímamót viljum við þakka Albínu fyrir farsæl störf við skólann, ánægjuleg kynni og samstarfið á liðnum árum. Óskum við henni alls hins besta í framtíðinni.


Vitundarvakning um mikilvægi svefns

Vitundarvakningu um mikilvægi svefns til þess að stuðla að bættum svefni Íslendinga var hleypt af stokkunum 1. október, sjá nánar - https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item47578/Vitundarvakningu-um-mikilvaegi-svefns-hleypt-af-stokkunum

Í september stóð skólinn, í samstarfi við fleiri stofnanir í sveitarfélaginu, fyrir fjarfundi með Erlu Björnsdóttur um mikilvægi góðs svefns og svefnvenja. Svefninn er nauðsynlegur til að endurnæra okkur og gefa líkamanum hvíld. Góður svefn er öllum nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Svefn hefur meðal annars jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, á námsgetu og einbeitingu, hjálpar heilanum að festa upplýsingar í minni og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna.

Of lítill svefn getur valdið almennri vanlíðan, þreytu og streitu, hefur áhrif á einbeitingu, minni og rökhugsun. Í svefni tökum við út þroska okkar og rannsóknir hafa sýnt fram á að of lítill svefn hefur slæm áhrif á kvíða og á einstaklinga sem eru að glíma við ADHD. Mikilvægi svefns verður seint ofmælt eða ítrekað að við fáum fullan svefn miðað við aldur (sjá mynd). Þeir sem tileinka sér góðar svefnvenjur eru m.a. hamingjusamari, hæfari til að takast á við streitu og kvíða og eiga auðveldara með að takast á við daglegt líf.

Útivistartími

Nú þegar haustið er komið og sólin farin að lækka á lofti þarf að huga að breyttum útivistartíma barnanna en frá og með 1. september mega börn 12 ára og yngri vera úti til kl. 20:00 og 13 – 16 ára til kl. 22:00 á kvöldin.

Foreldrar og forráðamenn mega auðvitað setja styttri viðmið sem sín eigin og eru foreldrar hvattir til að ræða slíkt sín á milli því samtarf um t.d. útivistartímann einfaldar foreldum að fylgja þessum reglum eftir.

Í 90. gr. barnaverndarlaga 80/2002 segir:

„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“

Einstaka viðburðir á vegum skóla, félagsmiðstöðva og frístundastarfs geta farið fram yfir útivistartímann og þá er gengið út frá því að börn, ein á ferð, fari beint heim eftir viðburðinn eða séu sótt á vegum foreldra.

Úr sameiginlegum tíma allra bekkja í dansi