Fréttabréf

28. janúar 2022

Þessi fyrsti mánuður hefur gengið mjög vel. Við allt skipulag skólastarfsins höfum við haft sóttvarnarreglur að leiðarljósi. Enn hefur ekkert smit komið upp í skólanum, hvorki meðal starfsfólks né nemenda. Sjö starfsmenn og nemendur smituðust í haust en vel tókst að komast í veg fyrir frekari útbreiðslu. Starfsfólk skólans á stóran þátt í því með góðu skipulagi og ábyrgri hegðun. Takk fyrir það. Nú í byrjun árs, þann 4. janúar, voru flest smit í Snæfellsbæ eða 33 talsins Þriðjudaginn 25. janúar voru þau komin niður fjögur! Glæsilegt. Mér finnst, heilt yfir að íbúar séu ábyrgir, fari að fyrirmælum og gæti sóttvarna, höldum áfram á þeirri braut. Þessi samstaða íbúa hefur lagt grunninn að því hve vel okkur hefur gengið að halda faraldrinum í skefjum í Snæfellsbæ. Nú eru blikur á lofti og viðbúið að smitum og veikindum fari fjölgandi í skólanum, bæði hjá nemendum og starfsfólki. Við þurfum að halda áfram á braut samstöðu og ábyrgar hegðunar. Með því móti getum við dregið út smitum og flatt fjölda þeirra út.

Sóttkví og smitgát

Þriðjudaginn 25. janúar kynntu stjórnvöld breytingar á reglum um sóttkví og smitgát - https://www.stjornarradid.is/.../COVID-19-Slakad-a.../ Samkvæmt þeim á sóttkví nú aðeins við um einstaklinga sem útsettir eru fyrir smitum innan veggja heimilisins.

Reglugerð um takmarkanir á skólastarfi - https://island.is/reglugerdir/nr/0006-2022 er enn óbreytt og heldur hún gildi sínu. Nýjustu upplýsingar um skólastarf og COVID má finna á vef menntamálaráðuneytisins og þar má einnig finna svör við algengum spurningum.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis - https://www.stjornarradid.is/.../Minnisblad-s%c3%b3ttkv... kemur fram að þótt þessar breytingar muni létta álagi af starfsfólki skólanna vegna smitrakningar og tíðra forfalla vegna sóttkvíar sé fyrirsjáanlegt að smitum muni halda áfram að fjölga í umhverfi skólanna. Kennurum, sér í lagi þeim sem ekki eru varðir með örvunarskammti og/eða fyrri covid-sýkingu, er ráðlagt að fara fram með sérstakri gát.

Við ætlum að fresta árshátíð miðstigs til 31. mars og til 10. maí til vara. Árshátíðir Lýsudeildar (1. apríl) og yngsta stigsins (7. apríl) verða á tilsettum tíma, höfum 5. maí til vara ef 7. apríl gengur ekki upp.

Samtalsdagurinn

Samtalsdagurinn verður þriðjudaginn 15. febrúar. Við hvetjum til þess að samtölin séu tekin á Google Meet en ef umsjónarkennarar og foreldrar telja árangursríkara að hittast á staðfundi þá verði það þannig en við gætum allra sóttvarna.

Við höfum farið þessa leið áður með góðum árangri en gott er að styðjast við leiðbeiningar Árskóla til foreldra. Þær er hægt að nálgast á þessum tengli https://docs.google.com/document/d/1XqKM0mccCeckgTPw5ifeE7GjIblBMiMO1_ndBZYZ2-Q/edit


Síðasta haust hófu grunn- og leikskólinn ásamt fulltrúum foreldra vinnu við að semja málstefnu fyrir skólana og hugsanlega fyrir samfélagið allt. Starfshópur var skipaður með fulltrúum frá fjórum hópum, þ.e. frá starfsfólki leik- og grunnskóla og fulltrúum frá foreldrum nemenda leik- og grunnskólans. Starfshópurinn hefur fundað einu sinni og skipti með sér verkefnum. Stefnt er að því að fyrstu drög líti dagsins ljós á vordögum.

Sjálfsmat

Sjálfmatsskýrsla skólans fyrir síðasta skólaár er komin á heimasíðu skólans, sjá https://www.gsnb.is/sjalfsmat

Tilgangurinn með sjálfsmati skóla er fyrst og fremst vera umbótamiðað, þ.e. greina stöðuna, finna hvað vel er gert og hvað má betur fara, vinna áætlun um úrbætur og hrinda henni í framkvæmd.

Niðurstöður matsins um gæði skólastarfsins eru jákvæðar fyrir skólann. Af sex þáttum sem metnir voru um gæði skólastarfs komu tveir þættir mjög vel út, þar sem meðaltalið var yfir fjórum, og flestir eða allir undirþættir þeirra þátta voru sterkir. Telst það mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu á gæðastarfi. Hinir fjórir þættirnir hafa fleiri styrkleika en veikleika. Það telst gott verklag og flestir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi.

Niðurstöður lesfimiprófa, samræmdra prófa og Milli mála ll gefa sterkar vísbendingar um að hluti nemenda nái ekki viðunandi árangri miðað við þau viðmið sem stuðst er við á landsvísu. Mikilvægt er að huga að því að nemendur hafi námsefni við hæfi, sýni framfarir og líði vel. Niðurstöður Olweusarkönnunar segja okkur að stórum hluta nemenda líði mjög vel eða vel í skólanum sem telst mjög jákvætt.

Niðurstöðurnar eru um margt jákvæðar fyrir skólann en niðurstöður prófanna eru ögrandi verkefni fyrir skólann að takast á við. Fyrsta skref sem lagt er til í þeirri vegferð er að semja málstefnu fyrir skólasamfélagið þar sem m.a. verða skilgreind hlutverk skóla og heimilis í námi og málþroska nemenda. Við sjáum fyrir okkur að þetta verkefni muni standa yfir í langan tíma, jafnvel 2 - 3 skólaár, en stefnan er að hefjast handa og komast sem lengst áleiðis á þessu skólaári.