Fréttabréf

26. ágúst 2021

Skólastarfið fer mjög vel af stað og lofar góðu fyrir það sem koma skal. Starfsfólk og nemendur komu vel stemmd til starfa og einkenndist vikan af vinnusemi, samvinnu, jákvæðni, gleði og hjálpsemi. Okkur finnst við vera vel mönnuð fyrir komandi skólaár, með gott og metnaðarfullt starfsfólk sem vill gera sitt besta.

Í skólann eru skráðir 216 nemendur í 16 bekkjardeildum og á þrem starfsstöðvum. Af þessum 216 nemendum eru 120 nemendur skráðir á starfstöðina okkar í Ólafsvík, 73 á Hellissandi og 23 nemendur í Lýsudeild skólans, þar af eru sex börn í leikskólaselinu okkar. Við erum vel mönnuð með gott starfsfólk en starfsmenn skólans eru 66 í mun færri stöðugildum.

Líkt og fyrir ári þá setjum við skólann við afar sérstakar aðstæður. Við erum á því stigi sem skilgreint er sem hættustig almannavarna og við þurfum að huga mjög vel að sóttvörnum þar sem áhersla er lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum sem við þekkjum svo vel. Jafnframt þurfum við að takmarka komur gesta í skólann og virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi. Við höfum staðið okkur frábærlega við þessar síbreytilegu aðstæður, ég held að það sé búið að breyta sóttvarnareglum 19 sinnum frá því að faraldurinn hófst. Við sem samfélag höfum tekist á við faraldurinn með mikilli stillingu, samstöðu, jákvæðni og þrautseigju. Sýnt okkar bestu hliðar, farið eftir reglum og þeim leiðbeiningum sem beint hefur verið til okkar. Erum orðin góð í því að standa í röðum, gæta hreinlætis og ég er ekki frá því að tillitssemi hafi aukist í faraldrinum. Það er mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut og stöndum saman í að kveða veiruna í kútinn en það gerum við best með því að fara að þeim fyrirmælum með sóttvarnayfirvöld beina til okkar hverju sinni. Neðst á þessari síðu eru þær sóttvarnareglur sem við vinnum eftir og það eru tvær reglur sem við óskum eftir að foreldrar hjálpi börnum sínum við að framfylgja:

1. Nemendur komi með vatn á vatnsbrúsum - vatnsvélar og mjólkurvélar verða lokaðar – til að fækka snertismitum.

2. Nemendur komi ekki of snemma í skólann, helst ekki fyrr en 10 mínútum áður en skóli hefst – vont að nemendur séu að blandast mikið fyrir skóla.


Góðar venjur gera kraftaverk

Við hvetjum nemendur til að koma sér upp heilbrigðum og jákvæðum lífsvenjum sem taka mið af því að borða hollan mat, hreyfa sig daglega, koma sér upp góðum svefnvenjum, rækta vinskapinn við félagana, skammta sér skjátíma og síðast en ekki síst að lesa daglega! Slíkar venjur auka líkur á að nemendum líði betur og þeir séu betur undirbúnir til að takast á við krefjandi verkefni dagsins. Ég vil vekja sérstaklega athygli á mikilvægi góðs svefns og að koma sér upp góðum svefnvenjum. Svefninn er nauðsynlegur til að endurnæra okkur og gefa líkamanum hvíld. Of lítill svefn getur valdið almennri vanlíðan, þreytu og streitu og hefur áhrif á einbeitingu, minni og rökhugsun. Í svefni tökum við út þroska okkar og rannsóknir hafa sýnt fram á að of lítill svefn hefur slæm áhrif á kvíða og einstaklinga sem eru að glíma við ADHD. Hugið vel að heilsu ykkar og góðum venjum, litlar breytingar geta gert kraftaverk.

Sóttvarnareglur GSnb

Gildir alltaf

  • Góð loftræsting, hafa opna glugga og hurðir eins og kostur er.

  • Nemendur eigi föst sæti, í stofum (í öllum tímum) og matsal.

  • Fækka sameiginlegum snertiflötum eins og kostur er.

  • Eins metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks. Nota grímur í mötuneyti og skólabíl.

  • Notum ekki handklæði - heldur bréfþurrkur.

  • Nemendur komi með vatn á vatnsbrúsum - vatnsvélar og mjólkurvélar verða lokaðar.


Í upphafi dags

  • Nemendur komi ekki of snemma í skólann, helst ekki fyrr en 10 mínútum áður en skóli hefst.


Mötuneyti

  • Nemendur þvo sér um hendur fyrir máltíð.

  • Nemendum skammtað á diska.

  • Hver nemandi á sitt sæti í matsal, sem minnst blöndun milli bekkja á borðum.


Skólastofur

  • Hver nemandi hefur sitt skólaborð.

  • Nemendur með sín ritföng

  • Ef kennari er í mikilli nánd við nemanda í meira en 5 mínútur skal hann hafa grímu.


Salerni

  • Á Hellissandi hefur hver bekkur merkt salerni og vask.

Sóttvarnir – starfstöðinni í Ólafsvík


Í upphafi skóladags fara nemendur 8.-10. bekkjar inn í sínar kennslustofur/upp á aðra hæð, blandist miðstiginu sem minnst.


WC-ferðir nemenda verða með skipulögðum hætti.

Fyrir hádegi:

9:20 – 5. bekkur

9:30 – 6. bekkur

9:40 – 7. bekkur


Eftir hádegi:

12:50 – 5. bekkur

13:00 – 6. bekkur

13:10 – 7. bekkur

8.-10. bekkur noti WC í frímínútum og hádegishléi.

Þrif á salernum á milli hópa.


Hádegismatur/vera í matsal

Bekkir á miðstigi sem mæta í mat kl. 11:25

Mánud: 5. bekkur

Þriðjud: 5. bekkur

Miðvikud: 6. bekkur

Fimmtud: 7. bekkur

Föstud: 6. bekkur