Fréttabréf í ágúst

Nú er sumri tekið að halla, einn af haustboðunum er að skólarnir hefja störf. Skólinn okkar verður settur mánudaginn 22. ágúst. Skólasetningin fer fram í sölum starfstöðvanna og síðan hitta nemendur umsjónarkennara sína.

Nemendur mæta:

Kl. 10:00 í 6.-7. bekk í Ólafsvík (skólabíll fer frá Hellissandi kl 9:40).

Kl. 11:00 í 8.-10. bekk í Ólafsvík (skólabíll fer frá Hellissandi kl 10:40).

Kl. 12:00 í 2.-5. bekk á Hellissandi (skólabíll fer frá Ólafsvík i kl 11:40).

Skólabíll leggur af stað frá skóla að loknum skólasetningum.

Kl. 14:00 í 1.-10. bekk í Lýsudeild (þeir sem vilja nýta skólabíla hafi samband við skólabílstjóra).


Nemendur og forráðamenn 1. bekkjar verða boðaðir í viðtöl til umsjónarkennara, bréf þess efnis hafa verið send út.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 23. ágúst.

Nemendur og forráðamenn geta nálgast stundatöflur inni á Mentor.

Breytingar

Grunnskóli Snæfellsbæjar er lifandi stofnun sem tekur mið af aðstæðum hverju sinni og aðlagar starfsemi sína að þeim eins og kostur er. Þetta skólaár eru helstu breytingar á skipulagsmálum skólastarfsins þær að:

  • fækkað verður um einn í stjórnunarteymi skólans. Það voru átta stjórnendur en verða sjö við brotthvarf Elfu Ármannsdóttur aðstoðarskólastjóra. Vilborg Lilja Stefánsdóttir mun verða staðgengill skólastjóra (aðstoðarskólastjóri). Hilmar skólastjóri og Vilborg Lilja munu skipta með sér viðveru á starfstöðvunum norðan Heiðar. Jafnframt munu verkefnastjórar skólans vera með fasta viðveru á starfstöðvum skólans.

  • fimmta bekk verður kennt á Hellissandi, ekki í Ólafsvík eins og hefð er fyrir.

  • skóli mun hefjast kl. 8:30 á Hellissandi.

  • íþróttir hjá 1. - 5. bekk hefjast fyrr eða kl. 8:10.

  • skólabíll fer fyrr frá Hellissandi eða kl 7:55.

  • leiklist verður kennd í 6. og 7. bekk, í stað tónmenntar.

  • umsóknareyðublöð vegna mötuneytis og lengdrar viðveru (Skólabær), norðan Heiðar eru inn á heimasíðu skólans - https://www.gsnb.is/blank-20 Foreldrar eru beðnir um að skila umsóknum rafrænt til ritara á netfangið kiddy@gsnb.is

Skólinn verður áfram símalaus - tókst frábærlega síðasta skólaár

Viðhaldsmál

Nú í sumar hefur viðhaldi á skólabyggingum skólans verið vel sinnt, mörgu lokið, öðru frestað fram á haust og enn öðru fram á næsta ár. Það helsta er:

  • anddyri skólabyggingarinnar á Hellissandi hefur verið gjörbreytt, flái að útidyrahurð, ný útidyrahurð, hiti settur í gólf í anddyri, settir upp nýir snagar og gólfið flísalagt.

  • flái að útidyrahurð gamla skólans á Hellissandi.

  • pantaðir nýir gluggar í alla bygginguna á Hellissandi og fimm stofur í Ólafsvík. Skipt var um í þrem stofum á Sandi.

  • dúkur settur á gólf í einni stofu, á Hellissandi.

  • skipt um gólfefni í tveim stofum í Ólafsvík.

  • lýsing endurnýjuð í þrem stofum.

  • keyptar lausar kennslustofur sem verða settar upp við Lýsudeild skólans.

Eftir að skólastarf hefst þarf ljúka við að laga ytra byrði skólans á Hellissandi, múra og mála, halda áfram að skipta um glugga og laga þakkanta á Hellissandi.


Óskilamunir og ritföng

Eins og síðustu skólaár leggur skólinn nemendum til öll námsgögn nema ritföng. Nemendur þurfa að mæta með ritföng, s.s. blýanta, strokleður og yddara. Annað sér skólinn um, m.a. reglustikur, vasareikna, liti, skæri, stíla- og reikningsbækur.

Við hvetjum foreldra til að merkja föt barna sinna en á hverju skólaári er töluvert um óskilamuni sem ekki er hægt að koma til skila þar eigendur finnast ekki.



Mötuneyti

Í skólanum er hádegishlé og ráða forráðamenn hvort þeir kaupa mat fyrir börn sín alla daga vikunnar eða senda þau með nesti að heiman til að snæða í hádeginu. Ekki er hægt að kaupa einstaka máltíð eða hluta úr viku. Eingöngu er um mánaðaráskrift að ræða.

Umsóknareyðublöð vegna mötuneytis og lengdrar viðveru (Skólabær), norðan Heiðar eru inn á heimasíðu skólans - https://www.gsnb.is/blank-20 Foreldrar eru beðnir um að skila umsóknum rafrænt til ritara á netfangið kiddy@gsnb.is fyrir 27. ágúst.

Samningstímabilið er skólaárið 2022 – 2023. Hyggist forráðamaður segja upp áskrift á samningstímabili þarf skrifleg uppsögn að hafa borist skólaritara 20. virka dag fyrir þann mánuð sem uppsögn á að hefjast. Framreiðsla skólamáltíða hefst þriðjudaginn 24. ágúst.

Verð mánaðaráskriftar er jafnaðarverð, kr. 8.960 á mánuði. Fyrsti greiðsluseðill er með gjalddaga 2. sept. 2022 og sá síðasti 2. maí 2022. Greiða skal hvern mánuð fyrirfram með heimsendum greiðsluseðlum frá Snæfellsbæ. Eindagi greiðsluseðils er 10. hvers mánaðar. Ef greiðsla hefur ekki borist á eindaga, áskilur skólinn sér rétt til að hefja frekari innheimtuaðgerðir. Matseðill er birtur á heimasíðu Grunnskóla Snæfellsbæjar http://www.gsnb.is

Sumarlestur

Í sumarlestrinum fengu nemendur í hendur bæklinginn „Ævintýrin gerast enn árið 2022“ til að skrá framvindu lestursins. Lestrarkeppni er á milli bekkjanna, þ.e. hvaða bekkur nær að lesa flestar blaðsíður miðað við höfðatölu, og fær sá bekkur sérstaka viðurkenningu. Nemendur skila lestrarbæklingum föstudaginn 26. ágúst til umsjónarkennara og síðan er dregið um vinningshafa en í ár verða fleiri vinningar í boði á báðum stigum.

Við hvetjum foreldra til að styðja nemendur við að koma sér upp heilbrigðum og jákvæðum venjum sem taka mið af því að borða hollan mat, hreyfa sig daglega, koma sér upp góðum svefnvenjum, rækta vinskapinn við félagana, skammta sér skjátíma og síðast en ekki síst að lesa daglega! Slíkar venjur auka líkur á að nemendum líði betur og þeir séu betur undirbúnir til að takast á við krefjandi verkefni.


Kæru foreldrar, við væntum góðs samstarfs við ykkur á þessu skólaári og vonum að skólastarfið eigi eftir að verða okkur öllum farsælt.