Fréttabréf í ágúst

Það er von okkar að þið hafið átt gott og gefandi sumarfrí, nemendur hafi notið sín í leik og starfi. Skólabyrjun er með líku sniði og síðasta skólaár, í skugga heimsfaraldurs sem setur okkur ákveðnar skorður í samskiptum. Við höfum staðið okkur vel fram til þessa við að aðlaga okkur að þeim reglum sem hafa gilt hverju sinni, þannig mun það vera áfram.

Í þessu fréttabréfi er farið yfir þær sóttvarnareglur sem eru í gildi, skólasetningu, kaup á ritföngum, mötuneytismál og að lokum minnt á sumarlesturinn.

Skólasetning

Grunnskóli Snæfellsbæjar verður settur mánudaginn 23. ágúst. Skólasetningin fer fram í sölum starfstöðvanna og síðan hitta nemendur umsjónarkennara sína.

Vegna Covid-19 ráðstafana er ekki æskilegt foreldrar fylgi börnum sínum á skólasetninguna.

Nemendur mæta:

Kl. 10:00 í 5.-7. bekk í Ólafsvík (skólabíll fer frá Hellissandi kl 9:40).

Kl 11:00 í 8.-10. bekk í Ólafsvík (skólabíll fer frá Hellissandi kl 10:40).

Kl. 12:00 í 2.-4. bekk á Hellissandi (skólabíll fer frá Ólafsvík i kl 11:40).

Skólabíll leggur af stað frá skóla að loknum skólasetningum.

Kl 14:00 í 1.-10. bekk í Lýsudeild (þeir sem vilja nýta skólabíla hafi samband við skólabílstjóra).

Nemendur og forráðamenn 1. bekkjar verða boðaðir í viðtöl til umsjónarkennara, bréf þess efnis hafa verið send út.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 24. ágúst.

Nemendur og forráðamenn geta nálgast stundatöflur inn á Mentor.


Sóttvarnareglur

Eins og flestum er kunnugt hafa verið gefnar út leiðbeiningar um sóttvarnir í skólastarfi haustið 2021, í samræmi við núgildandi sóttvarnareglur í samfélaginu. Þær helstu eru:

  • Grunnskólabörn eru undanskilin 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu, en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.

  • Samanlagður hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í rými er 200.

  • Þegar starfsfólk nær ekki að viðhafa nálægðarmörk (1 m) sín á milli ber að nota andlitsgrímu.

  • Blöndun hópa er heimil, hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk.

  • Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar og gæta að sóttvörnum. Hvatt er til grímunotkunar gesta í skólabyggingum en skólum er jafnframt heimilt að takmarka enn frekar komu gesta í skólabyggingar.

  • Um viðburði á vegum grunnskóla gilda sömu sóttvarnaráðstafanir og 200 manna fjöldatakmörkun fullorðinna.

Mikilvægt er að huga vel að persónulegum sóttvörnum, þ.e. að nota grímur þegar við á, virða 1 m regluna og þvo okkur um hendur og spritta. VIÐ ERUM ÖLL ALMANNAVARNIR


Ritföng

Skólinn hefur um nokkurt skeið útvegað nemendum öll námsgögn. Í heildina séð hefur það komið vel út og almenn ánægja með framtakið. Reynslan sýnir okkur hins vegar að umgengni um dagleg ritföng hefur verið ábótavant þó við höfum ítrekað rætt við nemendur um mikilvægi góðrar umgengni og að bera virðingu fyrir eigum skólans.

Þetta skólaár þurfa nemendur því að kaupa ritföng í pennaveskið sitt, s.s blýanta, strokleður og yddara. Annað sér skólinn um, m.a. reglustrikur, vasareikna, liti, skæri, stíla- og reikningsbækur.


Mötuneyti

Í skólanum er hádegishlé og ráða forráðamenn hvort þeir kaupa heitan mat fyrir börn sín alla daga vikunnar eða senda þau með nesti að heiman til að snæða í hádeginu. Ekki er hægt að kaupa einstaka máltíð eða hluta úr viku. Eingöngu er um mánaðaráskrift að ræða. Áskriftarsamningnum þarf að skila undirrituðum af forráðamanni nemanda til umsjónakennara 27. ágúst.

Samningstímabilið er skólaárið 2021 – 2022. Hyggist forráðamaður segja upp áskrift á samningstímabili þarf skrifleg uppsögn að hafa borist skólaritara 20. virka dag fyrir þann mánuð sem uppsögn á að hefjast. Framreiðsla skólamáltíða hefst þriðjudaginn 24. ágúst.

Verð mánaðaráskriftar er jafnaðarverð, kr. 8.700 á mánuði. Fyrsti greiðsluseðill er með gjalddaga 2. sept. 2021 og sá síðasti 2. maí 2022. Greiða skal hvern mánuð fyrirfram með heimsendum greiðsluseðlum frá Snæfellsbæ. Eindagi greiðsluseðils er 10. hvers mánaðar. Ef greiðsla hefur ekki borist á eindaga, áskilur skólinn sér rétt til að hefja frekari innheimtuaðgerðir. Matseðill er birtur á heimasíðu Grunnskóla Snæfellsbæjar http://www.gsnb.is og eyðublöðin eru á heimasíðu skólans https://www.gsnb.is/blank-20


Sumarlestur

Í sumarlestrinum fengu nemendur í hendur bæklinginn "Æfingin skapar meistarann" þar sem skráðu framvindu lestursins. Lestrarkeppni er á milli bekkjanna, þ.e. hvaða bekkur nær að lesa flestar blaðsíður miðað við höfðatölu, og fær sá bekkur sérstaka viðurkenningu. Nemendur skila lestrarbæklingum föstudaginn 27. ágúst til umsjónarkennara og síðan er dregið um vinningshafa en í ár verða fleiri vinningar í boði á báðum stigum.

Við sem í skólanum störfum hlökkum til komandi skólaárs og bíðum með eftirvæntingu eftir að hitta nemendur að loknu sumarfríi.

Við hvetjum foreldra til að styðja nemendur við að koma sér upp heilbrigðum og jákvæðum venjum sem taka mið af því að borða hollan mat, hreyfa sig daglega, koma sér upp góðum svefnvenjum, rækta vinskapinn við félagana, skammta sér skjátíma og síðast en ekki síst að lesa daglega! Slíkar venjur auka líkur á að nemendum líði betur og þeir séu betur undirbúnir til að takast á við krefjandi verkefni.

Kæru foreldrar, við væntum góðs samstarfs við ykkur á þessu skólaári og vonum að skólastarfið eigi eftir að verða okkur öllum farsælt.