Tengjumst öll í gegnum leik er þróunarverkefni sem hófst á skólaárinu 2024-2025 í samstarfi við Frístundaheimilið Hvergiland, Félagsmiðstöðina Vígyn, leikskólana Hamra og Hulduheima, Borgarbókasafnið í Spöng og Þjóðminjasafnið með ráðgjöf frá Miðju máls og læsis. Áframhaldandi þróun verkefnisins verður á skólaárinu 2025-2026.
Í þróunarverkefninu er horft til farsældar barna og ungmenna í nærumhverfi Borgaskóla í Grafarvogi. Megin markmiðið með verkefninu er að auka tengsl barna og ungmenna við samfélag sitt og að það sé gert í gegnum leik með vaxandi hugarfar og skapandi hugsun að leiðarljósi, þannig að félagsfærni barna verði efld til muna. Horft er til fjölbreytts og fjöltyngds barnahóps og að öll börn á aldrinum 5-12 ára í nærumhverfi Borgaskóla verði þátttakendur í verkefninu.
Borgaskóli og frístundaheimilið Hvergiland eru réttindaskóli og réttindafrístund Unicef og hefð er fyrir barnalýðræði í daglegu starfi.
Fræðilegur bakgrunnur
Lagt er upp með að verkefnið teljist til verndandi þátta í lífi barna, með því að myndaður verði fjölbreyttur vettvangur til tengslamyndunar barna við samfélag sitt.
Niðurstöður rannsókna (t.d. Hirchi, 1969 og Jón Gunnar Bernburg, 2004) hafa leitt í ljós mikilvægi tengslamyndunar barna og að öll börn upplifi sig sem hluta af heild. Takist börnum að mynda tengsl við samfélag í barnæsku er líklegt að tengslin haldist fram á fullorðinsár. Tengsl við samfélag á fullorðinsárum eru mikilvæg, þar sem einstaklingur með rofin tengsl við samfélag er líklegri til að brjóta gegn lögum og reglum þess en einstaklingur sem hefur myndað tengsl við samfélag.
Tímalína
September-október 2024:
Tengslakönnun lögð fyrir í 1.-7. bekk Borgaskóla.
Skólavinir hefja göngu sína og hittast mánaðarlega fram í maí.
Október 2024-febrúar2025:
Samskiptasmiðjur og hópefli í 1.-4. bekk.
Febrúar- maí 2025:
Samskiptasmiðjur og hópefli í 5.-7. bekk.
Maí 2025:
Tengslakönnun lögð fyrir í 1.-7. bekk Borgaskóla.
September-október 2025:
Tengslakönnun lögð fyrir í 1.-7. bekk Borgaskóla.
Skólavinir hefja göngu sína og hittast mánaðarlega fram í maí.
Október 2024-apríl 2025:
Skipulagðar heimsóknir vinabekkja á Borgarbókasafn og Þjóðminjasafn.
Hópefli í öllum árgöngum.
Maí 2025:
Tengslakönnun lögð fyrir í 1.-7. bekk Borgaskóla.
Tengsl við Menntastefnu
Verkefnið tengist öllum stoðum Menntastefnu til 2030 á þann hátt að í verkefninu hverfist nærsamfélagið utan um stóran barnahóp þar sem horft er á verkefnið út frá styrkleikum allra barna og jöfnum tækifærum fyrir öll börn (stoð 1), fagmennsku og samstarfi fagstétta (stoð 5), verkefnið hafi forvarnargildi og leiðir af sér vellíðan fyrir börn (stoð 4). Skapandi hugsun er rauður þráður í verkefninu og á við stoðir 2 og 3. Sérstaklega verður horft til þess að öll börn séu þátttakendur og styrkleikar barnahópsins, með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, verði virkjaðir í gegnum leik. Lögð er áhersla á virka þátttöku og að raddir allra barna fái að heyrast.
Horft verður á dag barnanna sem eina heild, starfsfólk í þverfaglegri samvinnu vinnur saman á gólfi og í sitthvoru lagi með barnahópa. Unnið er eftir eftirfarandi markmiðum:
Efla tengsl barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn við samfélag sitt í gegnum nám og leik.
Auka þverfaglegt samstarf fagstétta börnum til heilla.
Nýta leik til þess að efla skapandi hugsun og félagsfærni
Auka þekkingu fagstétta og barna á menningarlæsi og menningarfærni
Skólavinir er samvinnuverkefni á milli Borgaskóla og leikskólanna tveggja í hverfinu, Hulduheima og Hamra.
Verkefnið felur í sér að styrkja tengsl á milli leik- og grunnskóla og þar eru í aðalhlutverki nemendur úr 5. bekk Borgaskóla og forskólabörn úr leikskólunum tveimur.
Þegar forskólabörnin koma í skipulagðar heimsóknir í skólann og það lendir nálægt frímínútum þá skipuleggja nemendur 5. bekkjar leiki fyrir forskólabörnin, þeir sem vilja ekki fara í leiki geta líka fengið leikfélaga á leikvellinum. Hluti fjármagns var nýttur til þess að kaupa útileikföng og útikennsluspil. Skólavinir hafa einnig hjálpað til í heimsóknum forskólabarnanna í sérgreinastofunum og íþróttasal.
Auk þess eru tvær heimsóknir þar sem skólavinir fara í leikskólann. Fyrst um haustið til að sýna krökkunum skólatöskurnar sínar og leika við krakkana og svo á Degi íslenskrar tungu þar sem skólavinir fara með kennurum sínum inn á báða leikskólana til að lesa fyrir börnin á leikskólanum.
Þessi vinskapur heldur áfram með skipulögðum samverustundum næstu tvö skólaár þar til skólavinirnir klára sína skólagöngu í Borgaskóla og forskólabörnin ljúka 2. bekk.
Leikskólanemendur koma í skipulagðar heimsóknir í kennslustundir í 1. bekk og í list-og verkgreinar. Í þessum heimsóknum eru leikskólanemendur virkir þátttakendur í kennslustundinni og hafa kynnst bæði kennurum og húsnæðinu áður en þeir hefja skólagöngu í 1. bekk. Skipulagðar eru heimsóknir fyrir allt skólaárið þannig að dagskráin er sýnileg fyrir leik- og grunnskóla.
Á skólaárinu 2024-2025 voru lagðar fyrir tengslakannanir tvisvar. Fyrri könnunin var lögð fyrir í september 2024 og sú seinni í maí 2025. Kannanir voru lagðar fyrir alla nemendur skólans og var þátttökuhlutfall í september 97,6% og í maí 92,7%. Fjölgun var í nemendahópum á tímabilinu. Við niðurstöður úr fyrri könnun var samtal á milli umsjónarkennara og skólafélagsráðgjafi og inngrip ákveðin í samræmi við niðurstöður. Í seinni könnum kom fram að 82% nemenda fengu tvær eða fleiri svaranir og verða lagðar fyrir tengslakannanir aftur á skólaárinu 2025-2026 og inngrip ákveðin í samræmi við niðurstöður. Niðurstöður verða bornar saman á milli ára.
Eftir að fyrri tenglsakönnunin var lögð fyrir hófst hópeflisvinna í samstarfi við frístundaheimilið Hvergiland (1.-4. bekkur) og félagsmiðstöðina Vígyn (5.-7. bekkur). Unnið var með hvern árgang fyrir sig. Á yngsta stigi hitti hver árgangur skólafélagsráðgjafa skólans ásamt fulltrúa frá frístund. Miðstigsnemendur hittu skólafélagsráðgjafa og fulltrúa frá félagsmiðstöð. Rætt var um jákvæð og neikvæð samskipti, mörk, bekkjarbrag og fleira. Í kjölfar þeirrar vinnu var farið með hópinn í hópeflisleiki og rætt í kjölfar um jákvæða og neikvæða leiðtoga.
Kennarar voru upplýstir um árangur þessarar vinnu og haldið var áfram með hópefli innan bekkjarins með umsjónakennurum. Ef þörf var talin á áframhaldandi vinnu með nemendahópana fór vinna af stað í samstarfi umsjónarkennara, skólafélagsráðgjafa, Austurmiðstöðvar og félagsmiðstöðvar.
Á skólaárinu 2025-2026 verður þróunarverkefnið víkkað út og vinabekkir fara í skipulagðar heimsóknir bæði á Borgarbókasafnið í Spönginni og á Þjóðminjasafnið. Á Þjóðminjasafninu verður lögð áhersla á leik og líf barna áður fyrr.
Miðja máls og læsis veitir ráðgjöf til verkefnisins í formi fræðslu til starfsfólks. Markmiðið er að starfsfólk fái verkfæri í hendur til þess að stuðla að inngildingu allra nemenda í skólahverfi Borgaskóla. Unnið verður að því að auka þekkingu starfsfólks á menningarlæsi og menningarfærni.