Hægt er að setja íslenskan texta með því að fara í þýða sjálfvirkt (e. Auto-translate). Kennari þarf að meta hvort þýðing sé góð en sjálfvirk þýðing er alltaf að verða betri og betri. Góð þýðing er t.d. á textanum í myndböndunum hér.
Stöðuorka tengist ávallt verkun krafta á milli hluta og myndast þegar ytri orka er notuð til að breyta fyrirkomulagi þeirra. Þyngdarstöðuorka eykst þegar orka er notuð til að vinna gegn þyngdarkrafti, eins og þegar einstaklingur klifrar upp á borð eða hlut er lyft. Þessi orka geymist sem stöðuorka og umbreytist aftur í hreyfiorku við fall. Á sama hátt þarf að beita ytri orku til að mynda stöðuorku í fjaðrandi hlutum, eins og þegar við teygjum á gúmmíbandi eða þjöppum saman fjöður. Útskýra má efnaorku með svipuðum hætti. Við efnahvörf breytist fyrirkomulag frumeinda og sameinda. Það krefst t.d. orku til að rjúfa sameindir í sundur. Nýju sameindirnar sem myndast búa þá annað hvort yfir meiri eða minni orku, mismunandi eftir efnahvörfum, en hluti orkunnar breytist í varmaorku eða aðra orkumynd við efnahvörf.
Hugmyndin um orkusvið hjálpar okkur að tengja saman hugtökin kraft og orku. Orkusvið geta geymt orku sem stöðuorku eða flutt orku milli kerfa. Þar sem sérhver stöðuorka tengist krafti, getum við litið á stöðuorku sem orku sem geymist í orkusviðinu milli hluta sem hafa kraftverkun sín á milli. Stöðuorka geymist þannig í þyngdarorkusviðinu milli hluta en efnaorka geymist í raforkusviðinu milli hlaðinna agna í frumeindum og sameindum.
Samkvæmt hefðbundinni nálgun eðlisfræðinnar er orkan geymd í staðsetningu hluta hvers miðað við annan, t.d. bolta og jarðarinnar. En nútímaskilningur eðlisfræðinnar, sérstaklega eftir tilkomu afstæðiskenningarinnar, bendir til þess að orkan geymist í sjálfu þyngdarorkusviðinu sem er hugtak sem lýsir því hvernig massi, eins og jörðin, hefur áhrif á rýmið í kringum sig. Þannig mætti segja að það séu tvö sjónarhorn á sama fyrirbærið, í daglegu tali tölum við um að hluturinn hafi stöðuorku en frá eðlisfræðilegu sjónarhorni er nákvæmara að segja að orkan sé geymd í orkusviðinu milli hlutarins og jarðar (Nordine, 2016)