Að lesa og skilja náttúrufræðitexta með nemendum
Það er mikilvægt að hafa í huga að unglingar eru misjafnlega stakk búnir til að lesa og skilja fræðilegan texta. Margir nemendur í 8. bekk hafa ekki enn þróað nægilega færni í að takast á við texta sem inniheldur sértæk hugtök og orðalag sem er ekki hluti af þeirra daglega tungumáli. Þetta á ekki síst við um texta þar sem blandað er saman náttúrufræðihugtökum og orðum sem sjaldan koma fyrir í daglegu tali unglinga.
Texti sem virkar einfaldur og skýr fyrir þann sem hefur góðan lesskilning og er vanur hugtökum úr náttúrufræði getur verið mjög flókinn og óljós fyrir aðra. Því getur reynst erfitt að átta sig á hversu mikla túlkun, orðskýringar eða stuðning nemendur þurfa nema meðvitað sé farið yfir textann með þeim.
Þess vegna getur verið gagnlegt að lesa texta með nemendum og greina saman hvað gæti valdið misskilningi. Slík greining hjálpar kennaranum að setja sig í spor þeirra nemenda sem eiga erfitt með að skilja textann og búa til samtal um tungumálið í textanum, hugtökin og samhengi þeirra. Þetta styður við bæði faglega læsi og uppbyggingu orðaforða.
Markmiðið er ekki að einfalda textann um of, heldur að styðja nemendur til að ná dýpri skilningi, sjá samhengi og læra að takast á við fræðilega texta á eigin forsendum.
Gefið aðferðum tíma til að festa rætur: Hafið í huga að nemendur þurfa endurtekna þjálfun og tækifæri til að tileinka sér þessar lestraraðferðir. Þær skila ekki árangri strax við fyrstu tilraun. Þolinmæði, stöðug endurgjöf og reglubundin æfing yfir lengri tíma er nauðsynleg til að nemendur nái tökum á aðferðunum og geti beitt þeim sjálfstætt. Það er eðlilegt að nemendur þurfi nokkrar vikur eða jafnvel mánuði til að ná fullum tökum á þessari nálgun við lestur fræðitexta.
Kennari les texta með nemendum sínum. Textanum er varpað upp á tjald. Kennari og nemendur greina bæði náttúrufræðihugtök og önnur orð í textanum sem eru ekki í daglegu tali nemenda.
Í textanum til vinstri hefur verið merkt við þau orð í texta um orku sem koma til greina.
Í myndbandinu sem fylgir hér með má sjá kennara fara í gegnum merkingu orða með nemendum í 2. bekk. Myndbandið sýnir mjög vandlega hvernig hægt er að vinna með merkingu orða. Þessa aðferð má nota á öllum skólastigum þó aðferðin sé sýnd hér með 2. bekk. Takið sérstaklega eftir þegar börnin endurtaka orðið. Þau eru þjálfuð í að fylgjast vel með kennaranum. Aðferðin tilheyrir beinni kennslu (e. Explicit Instruction) þar sem nemendur fá skilgreiningar og útskýringar á einkennum og merkingu orða og gaumgæfa samsetningar og samhengi orða. Í verkefninu hér er unnið út frá "Ég geri - við gerum - þið gerið". Nánari leiðbeiningar má finna hér undir lið 2 Við gerum.
Aðferðin 4-2-1 felur í sér að nemendur lesa textann (eða hlusta/skoða efni). Hver og einn skrifar niður fjórar hugmyndir sem hann telur mikilvægastar úr efninu. Nemendur mynda pör (tveir og tveir). Þeir bera saman listana sína og velja saman tvær mikilvægustu hugmyndirnar sem þeir eru sammála um. Tveir og tveir para saman (tvö pör = fjórir saman í hóp). Hópurinn ræður ráðum sínum og velur eina hugmynd sem allir eru sammála um að sé sú allra mikilvægasta. Hóparnir kynna niðurstöðurnar sínar fyrir bekknum. Kennari getur tekið saman niðurstöðurnar og leiðbeint umræðu um hvers vegna hóparnir völdu það sem þeir völdu. Markmiðið með aðferðinni er að efla gagnrýna hugsun, samræðu og hæfni til að draga fram aðalatriði. Stuðla að virkri hlustun og samvinnu og hjálpa nemendum að taka afstöðu og rökstyðja hana.
Aðferðin byggir á PALS (Peer-Assisted Learning Strategies) en hægt er að nota hana með hvaða texta sem er og fyrir hvaða aldurshóp sem er. Tveir nemendur vinna saman að því að dýpka skilning sinn á texta með því að skiptast á að lesa, fylgjast með og veita hvor öðrum leiðsögn. Þeir rifja upp innihald textans, draga fram það mikilvægasta og spá fyrir um framhald. Aðferðin stuðlar að virkum lestri, samræðu og auknum skilningi og hentar kennurum sem vilja vinna markvisst með texta í sinni námsgrein. Kennari velur hverjir vinna saman í pörum þannig að sterkari lesari vinni með slakari lesara. Nemendur sem eru að læra íslensku og eru stutt á veg komnir í tungumálinu eru paraðir við þolinmóðan og skilningsríkan félaga sem getur stutt þá í gegnum textann með því að útskýra, hvetja og gefa svigrúm til að skilja og tjá sig. Smelltu á myndina til að opna spjöld fyrir paralestur. Nánari upplýsingar má finna á Pals-vefnum.
Einnig er bent á möguleikann að nota Aðgengilegt lestrarumhverfi (e. Immersive Reader). Það er að finna í Microsoft Word eða Powerpoint, Nearpod og Helparbird. Textinn er þá afritaður í eitt af þessum forritum og deilt á nemendur. Þetta hentar vel fyrir nemendur sem glíma við lestrarerfiðileika og fyrir nemendur af erlendum uppruna sem hafa ekki náð tökum á íslensku. Á myndina má sjá íslenskan texta sem hefur verið þýddur yfir á arabísku með einni aðgerð. Athugið þó að hafa í huga að erlendir nemendur eru að læra íslensku og þetta er hjálpartæki og á ekki að taka yfir heldur styðja við nám. Erlendir nemendur vinna því verkefnin sín á íslensku. Mælt er með því að bjóða öllum nemendum sem kjósa að nota þennan möguleika en ekki eingöngu þeim sem eru lesblindir eða af erlendum uppruna og fellur það undir altæka hönnun náms (UDL).
Frayer líkanið er gagnlegt verkfæri til að dýpka skilning nemenda á lykilhugtökum í náttúrufræði, til dæmis hugtakinu orka. Nemendur vinna markvisst með valið hugtak, skilgreina það, skoða hvað það þýðir ekki, nefna dæmi og nota það í samhengi. Með þessari nálgun byggja nemendur upp dýpri merkingu hugtaksins, sem eykur færni þeirra til að beita því í daglegri notkun, útskýringum og við lausn verkefna.
Hér eru fleiri útgáfur af líkaninu, meðal annars fyrir erlenda nemendur sem geta þýtt skilgreininguna yfir á sitt heimamál. https://laesisvefurinn.is/wp-content/uploads/2020/01/frayer_lik_2020.pdf
Hér er önnur gerð af hugarkorti.
Dæmi um notkun.
Hvað er þetta? Orka
Orka er getan til að valda breytingu eða hreyfingu. Hún getur breyst úr einu formi í annað en hverfur aldrei.
Hvernig er þetta?
Stöðuorka – hlutur er hátt uppi og getur fallið
Hreyfiorka – þegar hlutur er á hreyfingu
Varmaorka – eykst þegar efni hitnar.
Hljóðorka – þegar titringur myndar hljóð
Hvernig eru dæmi um þetta?
Bolti efst í rennibraut (mikil stöðuorka)
Bolti á hreyfingu niður rennibraut (hreyfiorka eykst)
Teygja sem er sleppt (stöðuorka → hreyfiorka)