Það getur verið flókið að átta sig á því hvort allir nemendur hafi skilið viðfangsefni sem unnið er með í kennslustund. Exit-miðar er góð aðferð til að kanna það þar sem kennari getur safnað gögnum með einföldum hætti og er fljótur að fara yfir gögnin. Miðarnir eru notaðir í lok kennslustundar. Niðurstöður úr þeim eru nýttar til að ákveða næstu skref. Ef allir nemendur sýna í svörum sínum að þeir skilji viðfangsefnið getur kennari haldið áfram með viðfangsefni. Ef hluti nemenda hefur ekki náð tökum á eða skilið viðfangsefnið getur kennari valið tvo miða, annan með réttu svari og hinn með röngu svari. Í næstu kennslustund bera nemendur svörin saman og velta fyrir sér hvort er rétt og af hverju. Svarið sem er ekki rétt gefur mjög gott tækifæri til að vinna með misskilning sem einhverjir nemendur kunna að hafa. Nemendur þurfa ekki að merkja miðana þegar kennari notar þessa aðferð.
Kennari getur einnig beðið nemendur um að merkja miðana og raðað þeim í hópa í næsta tíma. Ef fáir nemendur svara rangt getur kennari myndað lítinn hóp sem hann vinnur með í kennslustundinni. Aðrir nemendur vinna sjálfstætt í námsefninu og þarf því að skipuleggja tímann fyrir sjálfstæð vinnubrögð. Annar möguleiki væri að para nemendur saman. Nemandi sem svarar rétt er þá paraður við nemanda sem svarar rangt. Þeir ræða svör sín og komast að niðurstöðu um rétt svar. Sá sem er með rétta svarið fær hér líka tækifæri á að kenna og útskýra svar sitt fyrir öðrum. Sá sem svaraði rangt er ekki sá eini sem græðir heldur dýpktar þekkingin hjá þeim sem svaraði rétt. Það fer eftir fjölda réttra/rangra svara hvaða leiðir kennari velur. Þessi aðferð tryggir að allir nemendur haldi í við viðfangsefnið og sumir nemendur dragist ekki aftur úr. Hún stuðlar einnig að því að byggja grunnþekkingu á viðfangsefninu hjá öllum nemendum.
Hér eru tilbúnar spurningar fyrir Exit-miða sem hægt er að nota í lok tíma. Þær eru misþungar og verða þyngri eftir því sem lengra er haldið. Aðeins er ein spurning spurð þannig að kennari er fljótur að fara yfir svörin. Hægt er að klippa niður hvít blöð og kennari skrifar spurningu upp á töflu.
Exit-miðar (útgöngumiðar) sem henta til að ljúka kennslustund um orku,
Hvað lærðir þú nýtt um orku í dag?
Hvaða hugtak fannst þér flókið og af hverju?
Hvernig tengist þetta efni því sem við ræddum í síðasta tíma?
Nefndu eitt dæmi um stöðuorku eða hreyfiorku sem við skoðuðum í dag.
Hvað getur orka gert samkvæmt því sem þú lærðir í dag?
Útskýrðu hvernig stöðuorka og hreyfiorka tengjast.
Útskýrðu lögmálið um varðveislu orkunnar.
Lýstu dæmi þar sem orka breytist úr einu formi í annað.
Hvað segir það okkur um orku ef hlutur hættir að hreyfast?
Hvernig gætir þú notað hugmyndina um orku í annarri námsgrein eða utan skóla?
Hvaða leið væri góð til að kenna yngri nemanda um orku?
Hvernig getur hugtakið orka hjálpað okkur að skilja náttúruna betur?
Aðrir möguleikar að spurningum
· Í dag lærði ég…
· Ég skildi ekki…
· Viltu útskýra betur…
· Ég myndi útskýra þetta svona fyrir vini mínum…
Það má einnig nota einhverjar af þessar spurningar í miðri kennslustund og biðja nemendur um að skrifa svör á litlar tússtöflur. Kennari skannar yfir svörin til að sjá hverjir eru með rétt svar og hverjir rangt. Velja þarf spurningar sem gefa stutt svör svo kennari eigi auðvelt með að greina svörin. Kennari getur einnig notað íspinna með nöfnum nemenda og dregið nafn nemanda sem þarf að svara einni eða fleiri spurningum. Hér er hægt að biðja nemendur að ræða spurningu í hálfa til eina mínútu og spyrja nokkra eða draga einn nemanda og spyrja hann nokkurra spurninga (sú aðferð gerir kröfu um að fara meira á dýptina) og í framhaldi af því draga nöfn annarra nemendur og spyrja þá út í það sem nemandinn var að segja (gerir kröfu á að allir fylgist með þegar einn nemandi er dreginn og þarf að svara).
Hinge-spurningar eru spurningar sem kennari spyr inn í miðri kennslu til að kanna hvort nemendur skilji það sem þeir eru að læra. Þær taka mjög stutta stund og eiga því ekki að trufla flæði kennslustundarinnar. Þær gefa kennara upplýsingar svo hann geti tekið ákvörðun um að halda áfram eða staldra við ákveðið atriði eftir því hvort nemendur hafi náð því eða ekki. Spurningarnar eiga að vera þess eðlis að þær sýni fram á raunverulegan skilning en ekki að nemendur eigi auðvelt með að giska á rétta svarið. Nemendur eru með svarspjöld sem þeir nota til að sýna sitt svar (líka hægt að nota þumalputta; upp – niður – eða á hlið til að sýna svar). Nemendur setja svörin upp að bringu svo þeir hermi ekki hver eftir öðrum. Þessar spurningar greina líka hversdagshugmyndir nemenda. Efst á síðunni eru ABCD svarspjöld sem hægt er að prenta og klippa út.
1. Hvað á best við um stöðuorku?
A. Hún er meiri þegar hlutur liggur á jörðinni
B. Hún eykst þegar hlutur er dreginn upp í hæð
C. Hún hverfur þegar hlutur stöðvast í miðri hreyfingu
D. Hún kemur fram þegar hlutur snýst um sjálfan sig
Rétt svar: B
2. Hvenær hefur hlutur hreyfiorku?
A. Þegar hann rúllar áfram eftir jörðinni
B. Þegar hann er stilltur upp á háum stað
C. Þegar hann er mjög þungur og kyrr
D. Þegar hann hefur enga hreyfingu yfirhöfuð
Rétt svar: A
3. Hvað verður orkuna þegar bolti fellur og lendir í jörðinni?
A. Hún hverfur þegar boltinn hættir að hreyfast
B. Hún breytist í hljóð og hita við höggið
C. Hún breytist í stöðuorku þegar boltinn snertir jörðina
D. Hún eykst því boltinn er nú kyrr og þungur
Rétt svar: B
4. Hvaða fullyrðing lýsir best eiginleikum orku?
A. Hún getur horfið ef hlutur hættir að hreyfast
B. Hún breytist oft úr einu formi í annað í kerfum
C. Hún er aðeins til í hlutum sem nota rafmagn
D. Hún er alltaf sú sama í öllum hlutum sem hreyfast
Rétt svar: B
5. Hvað verður um orkuna þegar bolti rúllar eftir jörðinni og hægir smám saman á sér þar til hann stöðvast?
A. Hreyfiorkan hverfur þegar boltinn stöðvast
B. Hreyfiorkan umbreytist í stöðuorku vegna þyngdarkrafts
C. Hreyfiorkan umbreytist í varmaorku vegna núnings við yfirborðið
D. Orkan fer aftur í þann sem ýtti boltanum af stað
Rétt svar: C
6. Hvaða tegund orku er geymd í gormi sem hefur verið spenntur?
A. Hreyfiorka
B. Stöðuorka
C. Efnaorka
D. Varmaorka
Rétt svar: B
7. Hvað verður um orkuna þegar þú sleppir spenntum gormi og hann fer aftur í upprunalega stöðu?
A. Orkan hverfur úr gorminum þegar spennan losnar
B. Orkan flyst yfir í annan hlut og verður að stöðuorku
C. Stöðuorka breytist í hreyfiorku og hluti hennar í varmaorku vegna núnings
D. Orkan í gorminum eykst við að spennan losnar
Rétt svar: C
8. Hvað gerist við orkuna þegar kúla fellur úr hæð og lendir á jörðinni?
A. Stöðuorkan hverfur þegar kúlunni er sleppt og engin orka er eftir
B. Hreyfiorka verður til úr engu og hverfur aftur þegar hún lendir
C. Stöðuorkan breytist í hreyfiorku sem breytist síðan að hluta í hljóð og varma
D. Orkan eykst vegna hraðans og breytist svo aftur í stöðuorku við lendingu
Rétt svar: C
Spurningar byggðar á algengum hversdagshugmyndum um orku
9. Hvaða fullyrðing er mest í samræmi við skilning á orku?
A. Hlutur sem hreyfist hefur orku, en hún hverfur þegar hann stöðvast
B. Hlutur hefur orku ef hann er þungur, jafnvel þó hann hreyfist ekki
C. Orka hverfur stundum alveg þegar hlutir stoppa
D. Orka hverfur ekki heldur breytist í annað form, eins og varma eða hljóð
Rétt svar: D
Hversdagsleg hugmynd: Orka hverfur þegar hlutur stöðvast
10. Tveir boltar eru jafn stórir, en annar er úr stáli og hinn úr plasti. Báðir eru látnir falla úr sömu hæð. Hver hefur meiri hreyfiorku þegar þeir lenda?
A. Sá sem er léttari því hann hreyfist hraðar
B. Sá sem er þyngri því hann hefur meiri massa
C. Báðir hafa sömu hreyfiorku því þeir hreyfast jafnt
D. Hvorugur hefur hreyfiorku því þeir eru ekki með rafmagn
Rétt svar: B
Hversdagshugmynd: Hraðinn skiptir öllu máli eða þyngd skiptir engu máli
11. Hlutur liggur kyrr á hillu. Hver eftirfarandi fullyrðing er réttust?
A. Hluturinn hefur enga orku því hann er ekki að hreyfast
B. Hluturinn hefur stöðuorku því hann gæti fallið niður
C. Hluturinn hefur hreyfiorku sem er falin þar til hann hreyfist
D. Hluturinn hefur aðeins orku ef hann verður fyrir rafstraumi
Rétt svar: B
Hversdagshugmynd: Aðeins hlutir sem hreyfast búa yfir orka
Ég skil hvað orka er og hvar hún birtist
Ég get nefnt dæmi um orku í daglegu lífi.
Ég þekki muninn á hreyfiorku og stöðuorku.
Ég get sagt frá því að orka hverfur ekki heldur breytist.
Ég get útskýrt hugtök og hugmyndir um orku
Ég get útskýrt með orðum eða myndum hvernig orka breytist (t.d. stöðuorka verður hreyfiorka).
Ég get sagt frá því hvernig hlutur sem er þungur og hraður hefur meiri hreyfiorku.
Ég get sagt frá því hvernig orka getur valdið breytingum t.d. að hlutir hitna eða kólna.
Ég get unnið með öðrum
Ég get hlustað á hugmyndir samnemenda minna
Ég tek þátt í umræðum og segi frá hugmyndum mínum.
Ég hjálpa öðrum þegar við vinnum saman í verkefni.
Ég get lesið og notað leiðbeiningar
Ég get fylgt leiðbeiningum í verkefni.
Ég kann að spyrja ef ég skil ekki hvað ég á að gera.
Ég reyni að klára verkefni sem ég byrja á.
Ég get sagt frá niðurstöðum og útskýrt hvað ég lærði
Ég get sýnt eða sagt frá niðurstöðum í tilraun eða verkefni.
Ég get notað orð eins og hraðari/hægar, hreyfiorka/stöðuorka.
Ég reyni að tengja saman hugmyndir og útskýra með einföldum orðum.
Ég skoða það sem ég sé og heyri vel áður en ég dreg ályktun
Ég athuga hvað gerist, án þess að reyna strax að útskýra það með vísindalegum hugmyndum.
Ég get lýst því sem ég sé eða heyri með eigin orðum.
Ég tek eftir breytingum, eins og hreyfingu, hraða, hljóði eða hita.
Ég spyr spurninga og ígrunda áður en ég finn skýringar
Ég get spurt spurninga eins og: „Hvað veldur því að þetta gerist?“
Ég velti upp fleiri en einni mögulegri skýringu.
Ég geri ráð fyrir að ég þurfi að prófa og athuga áður en ég trúi einhverju.
Ég skrái athuganir og prófa hugmyndir mínar
Ég teikna eða skrifa niður hvað ég sé og held utan um hugmyndir mínar.
Ég prófa mismunandi aðferðir eða aðstæður til að sjá hvað breytist.
Ég læri af því þegar eitthvað kemur öðruvísi út en ég bjóst við.
Ég deili hugmyndum mínum og hlusta á hugmyndir annarra
Ég get sagt frá því sem ég sá eða prófaði jafnvel þó ég sé ekki viss um niðurstöðuna.
Ég hlusta á hugmyndir annarra og get bætt við eigin hugmyndir.
Ég þori að viðurkenna þegar ég þarf að breyta skoðun minni eða þegar ég lærði eitthvað nýtt.
Nemendur eru ekki að læra rétta svarið heldur hvernig þeir finna út úr hlutunum sjálfir.
Get ég sagt frá dæmi þar sem orka breytist?
Get ég sagt frá því hvað ég lærði í verkefninu?
Gat ég unnið með öðrum og tekið þátt í samtali?