Athugið að málstofurnar (kynningar og umræður) verða teknar upp og stefnt er að því að þær verði aðgengilegar í 72 klst í gegnum tengla á vefsíðu Höfuð í bleyti. Upptökurnar verða geymdar inn á Microsoft Stream og Google Drive og eytt eftir 72 klukkutíma. Þátttakendum er í sjálfvald sett hvort þeir hafi kveikt á vefmyndavélum og/eða taki þátt í umræðum í gegnum spjallglugga eða með því að kveikja á hljóðnema.
Betra líf í Bústöðum er verkefni sem leggur áherslu á aukið heilbrigði barna og unglinga í Bústaðahverfi. Ákveðið var að fara í samstillt forvarnarátak allra þeirra sem koma að vinnu með börnum og unglingum í hverfinu ásamt foreldrafélögum skólanna, í samstarfi við Landlæknisembættið og HR. Markmið verkefnisins var að bæta svefn hjá börnum og unglingum í hverfinu, þ.e. að þau næðu viðmiði um nægan svefn ásamt því að minnka neyslu á orkudrykkjum og rafsígarettum.
Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri í frístundamiðstöðinni Kringlumýri
Sagt verður frá verkefninu SjálVið sem er sértækt hópastarf þar sem megináherslan var lögð á að líta inn á við og vinna með innra sjálfið. Markmið verkefnisins var að sameina hóp af ungmennum og efla hjá þeim félagsfærni og auka hjá þeim vellíðan ásamt því að styrkja sjálfsmyndina með verkfærum núvitundarinnar. Unnið var með ýmsar núvitundaræfingar sem og verkefni sem efla jákvæða leiðtogahæfni og styrkja sjálfsmyndina.
Alexía Rut og Magnea Gná, starfsmenn í félagsmiðstöðinni Þróttheimum.
Markmið með verkefninu er að kenna börnunum heilbrigðan lífstíll. Efla samvinnu barnanna með því að leysa ákveðin verkefni saman eins og t.d. tjalda, týna sprek fyrir útieldun og að kenna börnunum að umgangast náttúruna af virðingu. Þá verður kynnt samflotsverkefni sem hefur verið í gangi á frístundaheimilum í Breiðholti þar sem markmiðið er að minnka áreiti og auka núvitund barna. Farið yfir undirbúning verkefnisins, aðbúnað, framkvæmd og hvernig hefur gengið að ná markmiðunum.
Árbjörg Ólafsdóttir, forstöðumaður í frístundaheimilinu Hraunheimum, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, forstöðumaður í frístundaheimilinu Álfheimum og Magnús Loftsson, forstöðumaður í frístundaheimilinu Vinaseli.
Þeir Valgeir Þór Jakobsson og Vilhjálmur Snær Ólason hafa verið með klúbbastarf í kring um spunaspilið D&D í Miðbergi síðastliðin tvö ár. Það er ýmis ávinningur af spunaspilum í félagsmiðstöðvum og munu þeir Valli og Villi segja frá því hver ávinningurinn er og hvernig útfærslan á klúbbunum fór fram.
Vilhjálmur Snær Ólason, frístundaráðgjafi í félagsmiðstöðinni 111 og Valgeir Þór Jakobsson, frístundaráðgjafi í félagsmiðstöðinni Hólmaseli.
Fjallað verður um þróun rafíþróttastarfs í Tíunni, félagsmiðstöð í Árseli. Aðaláhersla verður á stigakerfi sem var þróað með það markmið að bæta samskipti og samvinnugetu þátttakanda, þar sem lokamarkmiðið er að starfið getur verið sjálfbært í höndum barnanna.
Hans Hektor Hannesson, frístundarráðgjafi í félagsmiðstöðinni Tíunni.