Valgreinar 2022-23

Hópakerfi Garðaskóla

Í 9. og 10. bekk í Garðaskóla er hópakerfi sem byggt er upp á áþekkan máta og áfangakerfi fjölbrautaskóla. Nemendur raðast í val- og skyldunámsgreinar eftir námslegum þörfum og áhuga í námi og stundatafla hvers nemanda er sniðin að hans óskum og þörfum. Hver nemandi þarf að sækja 23-24 kennslustundir á viku auk yndislesturs og umsjónartíma (hver kennslustund er 55 mínútur) og allir taka a.m.k. eina list- eða verkgrein í vali á hvoru ári.

Ferðir í kjarnagreinum (dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði).

Í fjórum kjarnagreinum (dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði) er nemendum raðað í hópa eftir frammistöðu og námslegum þörfum. Þessir hópar eru kallaðir ferðir. Fagkennarar raða nemendum í ferðir í hverri grein í samráði við nemendur og foreldra. Tekið er mið af námsmati að vori. Innan hverrar greinar eru sett ákveðin viðmið um þá hæfni nemenda sem gert er ráð fyrir að vinna með í hverri ferð. Ferðakerfið gerir skólanum kleift að mæta þörfum allra nemenda á einstaklingsmiðaðan hátt. Nemandi getur verið í mismunandi ferðum óháð námsgreinum, allt eftir eigin getu og áhuga. Ferðakerfið er sveigjanlegt og nemendum gefst kostur á að flytjast milli ferða ef árangur þeirra breytist.


Skipt er í þrjár mismunandi ferðir en áherslumunur er á útfærslum eftir fagdeildum:

  • Hraðferðir miðast við nemendur sem hafa náð þeim hæfniviðmiðum sem tilgreind eru fyrir árganginn í skólanámskrá, eru sterkir námsmenn í viðkomandi fagi og hafa metnað til að vinna vel í námsgreininni. Hóparnir eru fjölmennir og gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð.

  • Miðferðir miðast við nemendur sem eru á réttu róli gagnvart hæfniviðmiðum árgangsins í viðkomandi námsgrein. Hóparnir eru mis stórir.

  • Hægferðir miðast við nemendur sem eiga nokkuð í land með að ná hæfniviðmiðum árgangsins í viðkomandi námsgrein. Farið er hægar yfir námsefni og meiri stýring er á vinnu nemenda. Hóparnir eru fámennir. Námsáætlun hægferðahópa gerir oft ráð fyrir því að nemendur séu með frávik frá almennum námsmarkmiðum árgangsins. Ákvarðanir um aðlagað námsefni og námsmat eru ávallt teknar í samráði við forráðamenn nemenda.



Fyrir afkastamikla nemendur sem sýna framúrskarandi hæfni er í boði:

  • Flugferðir í 9. bekk í ensku, íslensku og stærðfræði og miðast við duglega og afkastamikla nemendur sem sýna framúrskarandi hæfni. Í flugferðum ljúka þeir yfirferð um námsmarkmið 9. og 10. bekkjar í faginu. Þeir geta síðan sótt um nám í fjölbrautaáföngum í 10. bekk hafi þeir staðist kröfur um lágmarksárangur.

  • Fjölbrautaáfangar í 10. bekk samsvara áföngum á hæfniþrepi 2 í framhaldsskóla. Þá er hægt að stunda í ensku, íslensku, stærðfræði að afloknum flugferðum í 9. bekk. Nemendur sem ljúka þessum áföngum geta fengið nám sitt metið til eininga við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og jafnvel fleiri skóla. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að nemendur stundi fjarnám við framhaldsskóla hafi þeir lokið grunnskólaprófi í öðrum faggreinum.

Valgreinar

Í 9. og 10. bekk gefst nemendum kostur á að velja sér valgreinar. Tilgangurinn með auknu valfrelsi nemenda er að laga námið sem mest að þörfum einstaklingsins og miða við áhugasvið og framtíðaráform hans. Val nemenda fer fram í samvinnu við foreldra, kennara og námsráðgjafa.


Framboð valgreina er mismunandi á ári hverju. Nemendur velja þær greinar sem þeir hafa mestan áhuga á og síðan aðrar greinar til vara. Því miður er ekki hægt að verða við óskum allra en takmarkaður fjöldi kemst í hvern hóp. Mjög mikilvægt er að val nemenda sé vel ígrundað svo ekki þurfi að gera breytingar eftir að búið er að útbúa stundatöflu fyrir hvern og einn.


Nemendur og foreldrar eru hvattir til þess að lesa vel þennan bækling og kynna sér upplýsingar um námsbrautir og inntökuskilyrði í framhaldsskóla á Menntagáttinni


Námsráðgjafar veita ráðgjöf um námsval og einnig geta kennarar og stjórnendur aðstoðað nemendur og foreldra.

Leiðbeiningar fyrir Innu

Listi yfir valgreinar

Listi yfir Tvistin

Stjörnufræði


Goðafræði

Evrópskar kvikmyndir

Enskar bókmenntir


Förðun, föt og fínerí

Heilsuæði með heilsufæði


Kynfræðsla

Núvitund

Fimleikafjör

Sund-slökun

Píla-pool-borðtennis

Blak

Almenn Tölvufærni

Tölvuleikjarannsókn


Borðspil


Öku- og umferðafræðsla

Pólitík í Bandaríkjunum

Landkynningar

Hraðlestur

Undanþágur frá valgreinum

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er skólastjóra heimilt að meta þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám í valgreinum á unglingastigi.

Í Garðaskóla geta nemendur óskað eftir slíku svigrúmi.

  • TÓM3101 velja þeir sem æfa eina tómstund allt að 10 klst á viku og fá þá eina valstund á viku í afslátt af skólasókn.

  • TÓM3102 velja þeir sem eru í tveimur tómstundum (æfa t.d bæði fótbolta og körfubolta), þeir sem eru í tónlistarskóla eða á æfingum í einni íþróttagrein í meira en 10 klst. á viku og fá þá tvær stundir í afslátt.


Til staðfestingar þurfa nemendur að auki að skila inn umsóknareyðublaði sem nálgast má á heimasíðu skólans. Það þarf að berast skólanum fyrir mánudaginn 6. september 2021. Áður en umsóknareyðublaðinu er skilað til deildarstjóra í Garðaskóla er nauðsynlegt að starfsmaður viðkomandi félags kvitti á umsóknareyðublaðið fyrir því starfi sem unnið er og staðfesti þar með ábyrgð sína á því.