Endurskoðun aðalskipulags Reykhólahrepps

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur hafið endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins en gildandi aðalskipulag var staðfest árið 2009 og skipulagstímabil þess nær til ársins 2018. Verkefnislýsing fyrir endurskoðunina liggur nú frammi til kynningar á skrifstofu og vef Reykhólahrepps og á kynningarvef verkefnisins en þar er hægt að kynna sér helstu forsendur og áherslur endurskoðunar, sem og ferli vinnunnar.

Reykhólahreppur leitar nú hugmynda og sjónarmiða íbúa og annarra hagaðila um stöðu og framtíðarþróun sveitarfélagsins og ábendinga um umhverfis- og skipulagsmál sem talið er að þurfi að sinna í sveitarfélaginu. Þær upplýsingar verða ræddar í sveitarstjórn og skipulags-, bygginga- og hafnarnefnd og skoðaðar í samhengi við ýmis önnur gögn og forsendur í skipulagsgerðinni. Hægt er að fylgjast með framgangi vinnunnar á kynningarvef.

Íbúar og aðrir hagaðilar eru hvattir til að taka þátt.