Í flestum hverfum, kaupstöðum og krummaskuðum er skólinn hjarta samfélagsins og tengir saman börn, foreldra og starfsfólk með hætti sem hvergi gerist annars staðar. Í kringum skólann er svo allt morandi í menningu, sögu, fólki og fyrirbærum sem næra samfélagið innan og utan skólans með margvíslegum hætti. Í þessum dagskrárlið ætlum við að fá að kynnast Hveragerði, menningarstofnunum bæjarins, sögu hans og mannauð og fá að heyra hvernig það tengist allt inn í skólann og skólastarfið.
Þátttakendur velja sér stað til að heimsækja og fá þar að sjá og heyra ýmislegt um lífið í Hveragerði og sækja sér innblástur og hugmyndir um hvernig hægt er að nýta nærumhverfi síns samfélags til að efla og auðga skólastarfið.
Listasafn Árnesinga
Listasafn Árnesinga var stofnað árið 1963 og hefur verið starfrækt í Hveragerði frá árinu 2001. Þar eru fjölbreyttar sýningar allan ársins hring og fara nemendur Grunnskólans í Hveragerði í reglulegar heimsóknir í safnið og lagt upp með að allir nemendur sjái allar sýningar sem þar eru haldnar.
Garðyrkjuskóli ríkisins (Íslands) - Reykjum Ölfusi
Hveragerði er þekkt fyrir gróðurhúsin sín og það er því viðeigandi að Garðyrkjuskóli Íslands sé starfræktur þar. Skólinn var stofnaður árið 1939 og hefur frá haustinu 2022 verið rekinn sem útibú frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Grunnskólinn í Hveragerði í reglulegu samstarfi við skólann og taka nemendur þátt í margvíslegu samkrulli við Garðyrkjuskólann.
Útikennslustofa Grunnskólans í Hveragerði
Grunnskólinn í Hveragerði hóf útikennslu í skógrækt bæjarins undir Hamrinum árið 2007 en útikennsla og regluleg útivist eru mikilvægir þættir í skólastarfinu. Með því að færa námið út fyrir veggi skólastofunnar skapast lifandi tengsl milli fræðilegs náms og raunveruleikans auk þess sem regluleg útivist og kennsla í nánasta umhverfi eflir umhverfisvitund, tengsl við náttúruna og skilning á sjálfbærni. Í útikennslustofunni fer fram fjölbreytt nám og kennsla fyrir alla árganga skólans og í tengslum við margvíslegar námsgreinar.
Söguganga
Saga Hveragerðis er forvitnileg og fjölbreytt og í sögugöngunni leiðir Njörður Sigurðsson sagnfræðingur þátttakendur í allan sannleika um það. Rölt verður nágrenni skólans að sögulegum kennileitum Hveragerðisbæjar. Sagt frá því hvernig og hvers vegna þessir staðir skipa sess í sögu bæjarins.
Blómaborg
Blómaborg er elsta gróðurhús Hveragerðis og varð landsrægt þegar tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni fiskuðu eftir smápeningum í gosbrunninum þar. Nýlega tóku hjónin Jónas Sigurðsson og Áslaug Baldursdóttir við rekstri þess. Þau hafa endurgert það að miklum myndarskap og halda þar nú reglulega margvíslega viðburði þar sem samfélaginu er boðið að horfa er inn á við og dvelja í núinu. Jónas býður nú þátttakendum Utís heim í Blómaborg til að taka þátt í einstakri upplifun þar sem við sögu mun koma hágæða kakó frá Perú, núvitund, trommur og góður fílingur.