Verkfærakista - UT og tungumál

Verkfærakista

Forrit og vefsíður sem nýtast í dönsku- og enskukennslu 

Innleiðing á tækni í kennslu er mikilvægur þáttur í því gríðarstóra verkefni að undirbúa nemendur fyrir framtíðina og það gjörbreytta landslag sem fylgir 21. öldinni. Það er mjög mikilvægt að kennarar skilji notkun tækninnar en það er einnig grundvallaratriði fyrir árangursríkt nám og kennslu að kennarar skilji hvernig best sé að samþætta notkun tækninnar til að ná kennslumarkmiðum

Við val á verkefni fannst okkur tilvalið að beina sjónum okkar að notkun upplýsingatækni í tungumálakennslu og tungumálanámi þar sem við kennum dönsku og ensku og erum sífellt að leita að góðum forritum og vefsíðum til að nota í skólastarfi. Í upphafi leituðum við til kennara sem eru í Facebookhópnum Upplýsingatækni í skólastarfi. Við spurðum hvort kennarar gætu bent okkur á forrit eða vefsíður sem gagnast þeim í dönsku- og enskukennslu. Við fengum mikil viðbrögð og var margt af því sem nefnt var verkfæri sem við erum nú þegar að nota en einnig komu ábendingar um ýmislegt annað. Við lögðumst í mikla vinnu við að skoða forritin og vefsíðurnar, finna myndbönd, útbúa myndbönd og skrifa texta til kynningar á verkfærunum. Við þessa vinnu höfum við eflt þekkingu okkar á forritum og vefsíðum og öðlast meiri færni í notkun tækni í skólastarfi. Við vonumst til þess að okkar vinna verði til þess að kennarar sem eru að stíga sín fyrstu skref eða að leita að fjölbreyttum hugmyndum geti nýtt sér það sem hér er til umfjöllunar.

Hér fyrir neðan gefur að líta forrit og vefsíður sem við teljum gagnast kennurum við tungumálakennslu og nemendum við tungumálanám. Við flokkum efnið ekki eftir aldri eða þemum því kennarar geta auðveldlega aðlagað notkun forrita og vefsíðna eftir aldri og viðfangsefnum hverju sinni. 

Við búum svo einstaklega vel í okkar skóla, Giljaskóla, að nemendur hafa allir Google netfang og auðveldar það til muna innskráningu inn á vefsíður og forrit. Auk þess sem það gerir nemendum kleift að nýta heima margt af því sem notað er í skólanum.

Anders And

Viðfangsefni: lestur, orðaforði og ritun

Tungumál: danska (og enska)

Hinn sígildi og sívinsæli Anders And er á netinu og þar kennir ýmissa grasa. Ásamt því að láta nemendur lesa brandara, gátur, myndasögur eða fara í spurningaleiki getur kennari látið nemendur útbúa sína eigin myndasögu á vefnum. Síðan býður upp á fjölbreytt úrval af leikjum, ýmsan fróðleik um félagana úr Andabæ; "Duckipedia", mataruppskriftir ásamt öðru skemmtilegu sem hægt er að nýta í dönskukennslu. Gestir síðunnar eru hvattir til að skilja eftir brandara fyrir aðra lesendur og vera virkir í að taka þátt í ýmsum þrautum. Öll útgefnu Andrésar andar myndasögublöðin eru á vefnum en til þess að fá aðgang að þeim þarf að kaupa áskrift.

Síðan býður upp á að vera þýdd yfir á ensku með Google translate fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með dönsku eða eru ekki byrjaðir að læra tungumálið en langar að fylgjast með þessum skemmtilegu persónum.

Anglomaniacy

Viðfangsefni: lestur, hlustun, ritun og fleira

Tungumál: enska

Anglomaniacy er gagnleg síða á netinu í enskukennslu og hentar vel nemendum á yngsta stigi grunnskólans. Á síðunni má finna fjölbreytta og gagnvirka leiki, söngva, ýmsan fróðleik og  verkefni sem nýtast nemendum í enskunámi. Einnig er hægt er að prenta út af síðunni fjölda skemmtilegra verkefnablaða sem eru þematengd og fjölbreytt eins og t.d. orðaleit, krossgátur, spil, þrautir og fleira. 

Atlantbib - kynning.MP4

Atlantbib

Viðfangsefni: lestur og hlustun

Tungumál: danska, íslenska og fleiri 

Atlantbib er bókaverkefni þar sem nemendur og kennarar skrifa ókeypis fagbækur til afnota í öllum skólum. Bækurnar eru rafbækur með áherslu á það sem er ólíkt og líkt á Norðurlöndunum og Baltísku löndunum í sambandi við sögu, landafræði, tungumál og menningu. 

Ef kennarar vilja gera meira en að láta nemendur skoða, lesa og hlusta á bækur þá er hægt að taka þátt í bókaverkefninu.

Nemendur taka þátt í að rannsaka, skrifa, þýða og talsetja bækurnar áður en þær eru gefnar út. Verkefnið er opið öllum, svo allir skólar geta skrifað og þýtt bækur. 

Bingo Baker

Viðfangsefni: bingó

Bingo Baker gerir þér kleift að nota þúsundir bingó spjalda eða búa til þín eigin. Það er bæði hægt að nota orð og myndir. Kennari getur prentað út bingóspjöld eða spilað bingó rafrænt með nemendum.

Það er boðið upp á að nota vefsíðuna frítt eða kaupa aðgang sem gildir endalaust og þá getur þú geymt spjöldin sem þú býrð til.

Uppsetning spjalds getur verið 3x3, 4x4, 5x5 auk þess sem hægt er að bæta við línu.

Book Creator

Viðfangsefni: bókagerð

Book Creator er einfalt tæki þar sem nemandi skapar verkefnið sitt í bókarformi. Bækurnar geta verið einstaklingsverkefni eða samvinnuverkefni en hægt er að sameina bækur nemenda eða leyfa mörgum að vinna í einni bók. Hægt er að skrifa, hlaða inn myndum eða myndböndum sem nemandi tekur sjálfur eða nær í af netinu. Nemandi getur teiknað myndir og búið til teiknimyndasögu og einnig er hægt með einföldum hætti að gera hljóðupptöku. Nemandi getur valið fjölbreytta bakgrunna og þemu á blaðsíðurnar sínar og skreytt og skapað að vild.  

Ef skóli kaupir aðgang fást t.d. 1.000 bækur og möguleiki að búa til 10 bókasöfn, t.d. 1. bekkur, 2. bekkur, 3. bekkur o.s.frv. Kennari getur valið hvort nemendur sjá sína bók eða bók allra í bókasafninu. 

Hér má finna myndband sem leiðir þig áfram í að búa til bók í Book Creator.

RecordIt-931147D9-3A46-44FF-94FB-634CBB4A6124.MP4

Classkick

Viðfangsefni: margs konar

Tungumál: danska, enska og fleiri

Classkick er ókeypis forrit  sem gerir kennurum kleift að útbúa kennslustundir og margs konar verkefni sem nemendur vinna á eigin hraða í snjalltækjum. Auk þess að fá hjálp frá kennara gerir Classkick nemendum kleift að hjálp frá samnemendum sínum. Kennari velur þetta í stillingum en það fer alveg eftir verkefnum hvort þetta er gagnlegt nemendum.

Kennari deilir verkefnum á glærum með nemendum og getur fylgst með vinnu þeirra á skjáborðinu sínu auk þess sem hann getur gefið nemendum endurgjöf á verkefninu um hæl. 

Í Classkick er verkefnabanki með fjölbreyttum verkefnum sem kennari getur afritað, breytt eftir þörfum og aðlagað að sinni kennslu.

Á skjánum er hægt að hafa klukku, margskiptan tímavaka og varpa upp fyrirmælum að verkefnum. Hægt er að teikna skýringamyndir, setja upp QR kóða að síðum sem nemedur þurfa að nota hverju sinni, hafa hljóðmæli ef spjall nemenda fer úr böndunum og fleira.  Í lok dags er hægt að varpa upp “poll” og láta nemendur svara með brosköllum hvernig þeim leið í dag eða hvernig þeim fannst skóladagurinn ganga.

Í boði er að velja margvíslegan bakgrunn og hægt er að hafa síðuna á mörgum tungumálum.

ClassroomScreen

Viðfangsefni: skipulagsforrit

ClassroomScreen er afar gagnlegt forrit fyrir skipulag kennslustunda. Hægt er að varpa dagskrá dagsins á skjá auk margs annars búnaðar sem hjálpar nemendum að einbeita sér meira að vinnunni sinni. 

Duolingo - kynning.MP4

Duolingo

Viðfangsefni: hlustun, lestur, málfræði, orðaforði og stafsetning

Tungumál: danska, enska og fleiri

Duolingo er ókeypis forrit. Nemendum gefst kostur á að læra tvö tungumál á sama tíma. Hægt er að læra tungumál frá grunni eða vinna með ákveðin þemu. Á myndbandinu má sjá hvernig forritið lítur út hjá nemendum og einnig hvað er gott fyrir kennara að hafa í huga.

Duolingo for schools er síða fyrir kennara en þar er m.a. hægt að stofna bekki, fylgjast með stöðu nemenda og leggja fyrir ákveðin viðfangsefni.  

Það kemur sér vel að vera með sameiginlegan kennaraaðgang til að teymiskennarar geti unnið saman í forritinu.

Flipgrid

Viðfangsefni: margs konar

Flipgrid er forrit á netinu sem gerir kennurum kleift að búa til umræðusvæði fyrir nemendur. Umræðurnar fara í gegnum stutt myndbönd sem hver notandi tekur upp og setur á umræðusvæði sem sitt innlegg í umræðuna. Kennarar geta sett fram spurningar til hópsins og nemendur senda þá inn svör við spurningunni í formi stutts myndbands. Flipgrid getur hjálpað nemendum að æfa sig við að útskýra það sem þeir lærðu, sagt hvernig það tengist fyrri reynslu sinni og beðið um nánari útskýringar á viðfangsefninu. Nemendur geta skoðað innlegg annarra nemenda í hópnum. 

Flippity

Viðfangsefni: margs konar

Flippity er skemmtilegt og skapandi verkfæri sem býður upp á margs konar leiki og verkefni. Kennari fær sniðmáta að verkefni í Google töflureikninum þar sem hann setur inn þau atriði sem hann ætlar að vinna með að hverju sinni. Með auðveldum hætti er hægt að útbúa bingó, krossgátur, leifturspjöld, spurningaleiki, sögur auk fjölda annarra skemmtilegra verkefna og leikja sem nýta má í tungumálakennslu sem og annarri kennslu. 

Í Flippity er einnig gott verkfæri sem hægt er að nota til að skipta nemendum í hópa fyrir verkefnavinnu. Það er mjög einfalt í notkun og skemmtilegt fyrir nemendur að fylgjast með hvernig hópurinn raðast.

Freerice

Viðfangsefni: málfræði og orðaforði

Tungumál: enska

Freerice er ókeypis leikur á netinu og í formi spurningaleikja þar sem unnið er með orðaforða og málfræði. Hægt er að velja alls kyns flokka af spurningum til að vinna með t.d. málfræði, bókmenntir, fána veraldar, lönd, fræga listmálara og fleira. Einnig er hægt að velja þyngdarstig.

Leikurinn hefur góðan boðskap en fyrir hvert rétt svar í leiknum fer andvirði tíu hrísgrjóna til "World Food Programme" sem notuð eru til að bjarga og bæta líf margra. Nemandi getur fylgst með hve mörgum hrísgjónum hann safnar fyrir verkefnið sem ætti að vera talsverð hvatning til að gera sitt besta í leiknum.

Viðfangsefni: lesskilningur, lestur, málfræði, orðaforði, ritun

Það er hentugt að nota fréttir heims til að fylgjast með nýjustu tíðundum og vinna með texta á fjölbreyttan hátt.

Games to learn English

Viðfangsefni: leikur

Tungumál: enska

Games to learn English er einfaldur og gagnlegur leikur á netinu til að læra og þjálfa enskt tungumál. Viðfangsefni leiksins eru fjölbreytt og nær yfir málfræði, ritun, stafsetningu, orðaforða, hlustun og framburð. Leikurinn er ætlaður til að hjálpa nemendum að muna merkingu erfiðra orða og styrkja málfræði með aðstoð góðra mynda og endurtekninga. Hægt er að hlaða niður lista yfir allan orðaforðann sem notað er í leiknum. 

Helena Sigurðardóttir útbjó kennslumyndband fyrir Gboard á vef sínum Snjallvefjan og gaf okkur leyfi til að deila því.

Gboard

Viðfangsefni: lyklaborð

Gboard er Google lyklaborð sem gefur þeim sem notar það ýmsa möguleika. Forritið hentar mjög vel þeim sem glíma við námsörðugleika t.d. með því að skrifa eftir tali, stinga upp á orðum eftir því hvað byrjað er að skrifa og með því að þýða yfir á annað tungumál við innslátt.

Bendingainnsláttur (Glide Typing): Skrifaðu hraðar með því að renna fingrinum frá einum staf til annars.

Google Translate: Skrifaðu á einu tungumáli og forritið þýðir um leið og þú slærð á lyklaborðið yfir á annað tungumál. 

Innsláttur á mörgum tungumálum (Multilingual typing): skrifaðu og forritið finnur út hvaða tungumál er notað af þeim tungumálum sem þú hefur gert virk og leiðréttir sjálfkrafa.

Raddinnsláttur (Voice typing): Lestu upp texta og forritið skrifar.

Kahoot

Viðfangsefni: spurningaleikur

Kahoot er spurningaleikur á netinu sem hentar vel í skólastofunni eða í heimanámi. Leikinn er auðvelt að búa til, spila og deila. Á vefnum er hægt að finna þúsundir tilbúinna spurningaleikja sem fólk víðsvegar að úr heiminum hefur búið til. 

Þátttakendur fara inn á kahoot.it til að taka þátt eða nota smáforritið. Bæði er hægt að spila leikinn “live” þar sem leiknum er varpað upp á stóran skjá og nemendur svara í sínum tækjum eða hver og einn svarar í sínu tæki á þeim hraða sem þeim hentar. Hægt er að hafa leikinn bæði fyrir einstaklinga eða lið. Eftir hvern spurningaleik fær kennarinn senda skýrslu með niðurstöðum þar hann getur metið árangur nemenda sinna og séð hvaða atriðum þeir hafa náð og hvaða atriði þarf að þjálfa betur.  

Hver skóli getur stofnað aðgang og búið til sameiginlegan leikjabanka með þeim spurningaleikjum sem kennarar skólans hafa útbúið.

Leg med dansk

Viðfangsefni: hlustun, lestur, orðaforði og statsetning

Leg med dansk er leikur þar sem unnið er með margvíslegan orðaforða eftir þemum. Nemendur geta m.a. skoðað hvernig orðin eru skrifuð, hlustað á framburð þeirra og tengt saman orð og myndir.

Play With English 

Viðfangsefni: hlustun, lestur, orðaforði og statsetning

Play With English er leikur þar sem unnið er með margvíslegan orðaforða eftir þemum. Nemendur geta m.a. skoðað hvernig orðin eru skrifuð, hlustað á framburð þeirra og tengt saman orð og myndir.

Leikur að íslenskum orðum

Viðfangsefni: hlustun, lestur, orðaforði og statsetning

Leikur að íslenskum orðum er leikur þar sem unnið er með margvíslegan orðaforða eftir þemum. Nemendur geta m.a. skoðað hvernig orðin eru skrifuð, hlustað á framburð þeirra og tengt saman orð og myndir.

LiteracyPlanet.MP4

Literacy Planet

Viðfangsefni: læsi, lesskilningur, ritun, málfræði og orðaforði

Tungumál: enska

LiteracyPlanet er skemmtilegt, fjölbreytt og gagnvirkt námsefni í ensku sem hentar nemendum frá 3 - 16 ára. Þúsundir æfinga sem ná yfir flest kunnáttusvið enskrar tungu. LiteracyPlanet styður nemendur í náminu sínu með því að gera þeim kleift að vinna eftir eigin forsendum og á þeim hraða sem hentar þeim. Leikir og vandaðar æfingar hvetja nemendur til að gera sitt besta.

LiteracyPlanet kennarasíðan gerir kennurum kleift að setja nemendum fyrir verkefni og fylgjast með hvar hver nemandi er staddur og hvernig honum gengur að vinna verkefnin. 

LiteracyPlanet - Word Mania

Viðfangsefni: málfræði, orðaforði og stafsetning

Tungumál: enska

WordMania.MP4

Word Mania er hluti af LiteracyPlanet efninu. Word Mania er einn stærsti og skemmtilegasti orðaleikur á netinu þar sem nemendur eiga að búa til eins mörg möguleg orð úr 15 bókstöfum á aðeins þremur mínútum. Einu sinni á ári er alheimskeppni í leiknum sem hvetur nemendur áfram í að vera virkir þátttakendur og gera sitt til að safna stigum fyrir skólann sinn. 

LyricsTraining

Viðfangsefni: hlustun, málfræði, orðaforði og stafsetning

Tungumál: enska og fleiri

LyricsTraining gerir nemendum kleift að þjálfa hlustun og bæta orðaforða og stafsetningu með því að hlusta á lög. Nemandi velur lag til að vinna með, þyngdarstig (þ.e. hvað þeir vilja vinna með mörg orð í texta), hlustar og fyllir inn í eyður. 

Nemendur geta skráð sig inn á síðuna og fylgst með framvindu sinni.

Madmagz

Viðfangsefni: tímaritagerð

Madmagz er vefsíða sem gerir nemendum kleift að útbúa tímarit en það er í anda skapandi skila. Það er í boði ókeypis form auk þess sem hægt er að kaupa margvísleg form (template). Vefsíðan er afar einföld í notkun.


Margrét Þóra Einarsdóttir útbjó tímaritið Danska í skóla og daglegu lífi í kennslu sinni við Brekkuskóla haustið 2017 og gaf okkur leyfi til að deila því fyrir aðra til að fá hugmyndir.

Mary Glasgow

Viðfangsefni: hlustun, lesskilningur, lestur, málfræði, orðaforði og ritun

Tungumál: enska

Mary Glasgow er tímarit sem hentar mið- og unglingastigi. Með áskrift er hægt að fá tímarit á mismunandi getustigum. Auk þess fylgir aðgangur að Language Lab en þar eru gagnvirkar æfingar tengdar blöðunum. 

Chatter er spjall þar sem nemendur á aldrinum 11-18 ára geta talað við bekkjarfélaga, nemendur víðs vegar um heiminn eða enskumælandi kennara. Einungis nemendur með áskrift hafa aðgang að spjallinu. Nemendur fara inn á mismunandi spjallþræði eftir getustigi.

Mentimeter

Viðfangsefni: spurningaforrit og svörun

Mentimeter er vefsíða þar sem auðvelt er að varpa fram spurningum, spyrja um skoðun á einhverju eða biðja fólk að skrifa orð. Niðurstöður er hægt að birta t.d. í súluriti eða fá orðaský.

Þátttakendur fara inn á menti.com og slá inn kóða til að svara könnun sem lögð hefur verið fyrir.

Nearpod

Viðfangsefni: glærur 

Nearpod gerir kennurum kleift að útbúa glærur með afar fjölbreyttu innihaldi til að auka fjölbreytni í kennslu, efla sjálfstæði nemenda og minnka kennarastýringu. Kennarar geta valið að stýra yfirferð glæra (Live Lesson) eða leyfa nemendum að fara yfir þær á sínum eigin hraða (Student-Paced).

Student-Paced valmöguleikinn er ekki í boði í ókeypis útgáfunni.

Kennari getur valið að vera með sinn eigin aðgang og þá safnast hans verkefni í My Library. 

Það sem er enn betra og hentar nútíma teymiskennslu er að vera með sameiginlegan aðgang kennara, þ.e. netfang sem allir deila, því þá geta samstarfskennarar unnið saman í verkefnum. Þegar þessi háttur er hafður á þá hafa kennarar alltaf nýjustu útgáfu hvers verkefnis, þ.e. ef kennari A breytir verkefni þá er kennari B með þá útgáfu um leið og A vistar breytingar.

Á Snjallkennsluvefnum eru mjög góð og fræðandi kennslumyndbönd. Þau sýna vel fyrstu skref við notkun forritsins svo og helstu notkunarmöguleika. Við þökkum Bergmanni Guðmundssyni og Hans Rúnari Snorrasyni fyrir að leyfa okkur að nota myndböndin. 

Hér má sjá glærur um skólann í dönsku hjá 7. bekk.

Norræna skólaspjallið er skemmtileg leið fyrir nemendur á Norðurlöndum til að kynnast hver öðrum. Skólaspjallið er rúllandi spjall, sem gefur nemendum tækifæri til að ræða við jafnaldra sína á Norðurlöndum í handahófskenndri röð. Á skjánum birtast tveir spjallgluggar – sér maður sjálfan sig í öðrum og norrænan nemanda, valinn af handahófi, í hinum. Allir nemendur á Norðurlöndum geta tekið þátt – frítt! 

Skólaspjallið er haldið á fyrirfram ákveðnum dagsetningum, svo það er um að gera að fylgjast með á vefsíðunni.

Norden i Skolen

Norden i Skolen  er frír kennsluvefur þar sem kennurum og nemendum á Norðurlöndum gefst einstakt tækifæri til að vinna með fræðasviðin ’Mál og menning’, ’Saga og samfélag’ og ’Loftslag og náttúra’ frá norrænu sjónarhorni. Öll fræðasviðin samanstanda af miklu úrvali spennandi námsefnis s.s. bókmenntatextar, stuttmyndir og tónlist. Tilheyrandi verkefni fylgja en þau eru unnin samkvæmt faglegum markmiðum, sem eru sameiginleg norrænum námsskrám. 


Opgaveskyen

Viðfangsefni: bókstafir, lestur, málfræði, orðaforði og ritun

Tungumál: danska og enska

Opgaveskyen er vefsíða dansks kennara sem útbýr mikið af verkefnum fyrir nemendur sína og vantaði stað til að geyma þetta á hagnýtan hátt til þess að  gera öðrum kennurum kleift að nota verkefnin.

Verkefnin tengjast m.a. bókstöfum, dönsku, ensku, náttúrufræði og sögu.

Orðabækur

ISLEX er margmála orðabók á vefnum. Grunnmálið er íslenska og markmálin eru danska, sænska, norskt bókmál, nýnorska, færeyska og finnska. 

Snara býður upp á tugi orðabóka og uppflettirita.  Þar geta kennarar og nemendur flett upp á nokkrum tungumálum.

Osmo

Viðfangsefni: orðaforði og stafsetning

Osmo er margverðlaunað leikja- og kennslutæki fyrir iPad og iPhone. Til að geta notað Osmo þarf að kaupa stand (base) fyrir iPad eða iPhone og honum fylgir lítill spegill sem settur er yfir myndavélina. Forritin sem fylgja tækinu eru ókeypis og þau er hægt að sækja á App Store. Flesta leikjanna er einungis hægt að spila með því að kaupa pakka með aukahlutum. 

Unnur Valgeirsdóttir útbjó Osmo síðu sem inniheldur margvíslegar leiðbeiningar fyrir kennara, s.s. hvernig best er að stofna aðgang og síðan að  stofna nemendur, hvaða leikir eru í boði, leiðbeiningar varðandi Words verkefni og ýmis PDF sem gott er að hafa við frágang.

Osmo Words hentar fyrir tungumálakennslu. Nemendur vinna með orðaforða á íslensku, ensku eða dönsku allt eftir verkefnum sem kennarar geta útbúið. Nemendur vinna einir, í pörum eða keppa við Osmo persónur. 

Kennarasíða Osmo heldur utan um verkefni sem stofnuð eru. Verkefnin geta kennarar gert opinber fyrir aðra til að nota. Unnur hefur gert verkefni opinber með Start námsefninu í dönsku, s.s. nordiske lande, ansigt og krop, tøj og farver og jul.  Auk þess má finna með Smart námsefninu verkefnið mad og skolen er í vinnslu. Einnig hafa kennarar í Giljaskóla útbúið málsháttaverkefni í íslensku og orðaforðaverkefni í ensku.

Giljaskóli á Padlet vegg eða korktöflu eins og margir nefna þetta.

Padlet

Viðfangsefni: korktöflugerð

Padlet er stafræn “korktafla” á netinu þar sem kennarar og nemendur geta unnið saman, deilt texta, tenglum, myndum og fleiru. Kennari getur notað Padlet sem “korktöflu” fyrir hugstormun þar sem nemendur skrifa allt sem þeim dettur í hug um ákveðið viðfangsefni. 

Padlet er hentugt í samvinnu og hvetur til samstarfs til dæmis í hópavinnu þar sem hver hópur getur búið til sameiginlegt “vinnuborð.” Padlet er einnig frábært tæki til að safna saman bókakynningum bekkja þar sem hver nemandi skrifar inn umsögn eftir hverja bók sem hann les og aðrir geta spurt eða skrifað athugasemdir við. Hægt er að nota Padlet til að gera könnun og kjósa með því að líka við athugasemdina, smella á hjartað. Einnig getur Padlet veggur verið notaður sem námsmappa nemenda og haldið utan um vinnu hvers og eins.

Viðfangsefni: myndvinnsla, orðavinna

PicCollage er myndvinnsluforrit sem er mjög einfalt í notkun og með marga skemmtilega eiginleika fyrir notendur. Hægt er að gera ýmsar grunnbreytingar á myndunum s.s. setja inn límmiða, ýmiskonar bakgrunna og myndaramma. Hægt er að ná í forritið ókeypis en í keyptu útgáfunni fylgja fleiri möguleikar. 

Í tungumálakennslu getur kennari látið nemendur taka myndir af hlutum og nýtt í kennslu með orðaforða, málfræði og fleira.

PicCollage

Viðfangsefni: teiknimyndasögugerð

Pixton er teiknimyndasöguforrit. Skólar geta keypt aðgang fyrir nemendur í Pixton EDU. Það er hægt að velja um mismunandi form (template) og fjölmörg viðfangsefni til að vinna með.

Einnig er mögulegt að fara inn sem einstaklingur í Pixton Classic og vinna í ókeypis útgáfu. Þar eru möguleikarnir færri.

Pixton

Plickers

Viðfangsefni: spurningaleikur

Plickers er sniðugur gagnvirkur spurningaleikur til að nota í kennslustofunni án þess að nemendur séu með tæki. Nemendur fá Plickers spjöld með mynd af tákni, svart-hvít mynd sem svipar til QR kóða. Þeir lyfta spjaldinu upp og snúa á mismunandi vegu meðan kennarinn skannar skólastofuna með sínu tæki og nær þannig fram svörum nemenda. Plickers spjöldin má nota aftur og því er gott að prenta þau á betri pappír sem endist lengur. Plickers er frábært mótandi matstæki en það er hægt að nota það í miklu meira en mat. Hentar vel þegar ekki næg tæki eru í boði en kennari vill fara út fyrir bókina. 

Viðfangsefni: málfræði, orðaforði, stafsetning,

Quizlet er afar skemmtilegt og gagnlegt forrit. Kennarar geta úbúið orðalista með þeim viðfangsefnum sem verið er að vinna með hverju sinni. Forritið gagnast mjög vel í ókeypis útgáfunni en í keyptu útgáfunni bætast við möguleikar fyrir kennara. Í þessu forriti er mjög hentugt að skólar stofni sameiginlegan aðgang svo kennarar geti unnið saman að verkefnum.

Kennari getur sent nemendum hlekk að verkefni í Google Classroom eða skellt því í QR kóði t.d. í Classroomscreen.

Quizlet gefur nemendum möguleika á að þjálfa orðaforða heima og styrkja þannig færni sína.

Nemendur geta unnið með verkefnin á margsvíslegan hátt: Flashcards, Learn, Write, Spell, Test, Match og Gravity. 

Ef Giljaskoli eða UnnurV er sett í leit (Search) má finna ýmis verkefni sem tengjast dönsku og ensku. Þau eru öllum opin til notkunar.

Quizlet

Quizlet Live er mjög skemmtilegt en þá vinna nemendur í hópum. Kennari leggur verkefnið fyrir með því að varpa skjánum upp og þá geta nemendur opnað forritið og slegið inn 6 stafa kóða eða opnað myndavélina og skannað QR kóða. Það er gott að biðja nemendur að skrifa sitt eigið nafn því þegar flakkað er um stofuna til að hópa sig saman í nýjum og nýjum hóp er tímafrekt að finna út hver er hvað ef notuð eru einhver gælunöfn.

Nemendur sjá spurningu eða fullyrðingu og svarið er á skjá einhvers í hópnum. Nemendur verða að tala saman og finna saman lausnina hverju sinni því ef slegið er á rangt fer hópurinn í 0 stig en sá hópur sem fyrstur nær 12 rétt vinnur. Kennari smellir svo á "Play again" og "Shuffle Teams" til að spila leikinn aftur og aftur. Hóparnir fá ekki sömu spurningar upp á skjáinn hverju sinni. Þannig að þegar einn hópur hefur klárað hafa hóparnir ekki séð allt og því hægt að spila margsinnis.

Quizziz

Viðfangsefni: spurningaleikur

Quizizz er ókeypis og skemmtilegur spurningaleikur á netinu sem hægt er að nota í tungumálakennslu. Bæði er hægt að spila leikinn í kennslustofu eða láta nemendur vinna heima. Hægt er að spila með eða án tímamarka. Í forritinu getur kennari útbúið leifturspjöld sem gefur nemendum möguleika á að þjálfa orðaforða heima og styrkja þannig færni sína.

Quizizz gerir kennurum kleift að framkvæma námsmat á skemmtilegan hátt fyrir nemendur á öllum aldri. Spurningar birtast á skjá hvers nemanda þannig þeir svara spuningunum á sínum eigin hraða og geta skoðað svörin í lokin. Hægt er að spila leikinn í hvers konar snjalltæki, tölvu, spjaldtölvu eða síma. 

Eftir hvern spurningaleik fær kennarinn skýrslu sem sýnir niðurstöðurnar úr spurningaleiknum. Hann sér hvaða spurningum nemendur svöruðu vitlaust og sér þá hvaða þætti þarf að fara betur í. Kennarinn getur hlaðið skýrslunni niður í tövlureikni þannig sem auðveldar honum að lesa úr niðurstöðunum. 

Í forritinu má finna þúsundir tilbúinna spurningar sem kennarar um allan heim hafa útbúið. Þetta samstarf kennara heimsins hefur skilað frábæru efni sem allir geta notað. Einnig er hægt með auðveldum hætti að útbúa sinn eigin spurningaleik.

Á Snjallkennsluvefnum er fræðandi kennslumyndband.

ReadTheory

Viðfangsefni: lesskilningur og lestur

Tungumál: enska

ReadTheory eru skemmtileg lesskilningsverkefni sem byggjast upp á framvindu nemandans í náminu. Við fyrstu innskráningu fer nemandi í gegnum stöðumat sem staðsetur hann í námsefninu og eftir það fær nemandinn texta við sitt hæfi. Textinn er í formi fræðigreina og fylgja honum nokkrar spurningar, krossaspurningar og ein opin spurning. Forritið tekur alltaf mið af því hvernig nemandanum gekk í fyrra verkefni áður en hann fær úthlutað nýju verkefni. Ef nemandi skráir vitlaust svar fær hann alltaf útskýringu á því af hverju hann hélt að svarið væri rétt og einnig útskýringu á rétta svarinu. Nemandi og kennari geta fylgst náið með framvindu nemandans þar sem ýmis gröf koma eftir hvert unnið verkefni sem skýra frá stöðu nemandans. 

Á Snjallkennsluvefnum eru mjög góð og fræðandi kennslumyndbönd. Þau sýna vel fyrstu skref við notkun forritsins svo og helstu notkunarmöguleika. Við þökkum Bergmanni Guðmundssyni og Hans Rúnari Snorrasyni fyrir að leyfa okkur að nota myndböndin. 

Seesaw

Viðfangsefni: ferilmappa, matstæki

Með Seesaw má segja að námið sé á einum stað þar sem hægt er að skoða öll verkefni í hverju fagi og undir hverju einasta markmiði. Á Seesaw leggur kennari verkefni fyrir nemendur. Nemendur geta unnið þau í hvaða formi sem er hvort sem það er rafrænt eða ekki en Seesaw býður upp á fjölbreytt verkefnaskil. Verkefnunum skila nemendur í gegnum forritið. Með einföldum hætti metur kennarinn verkefnin eftir hæfniviðmiðum Aðalnámskrár. Með Seesaw fylgir fjölskylduaðgangur þar sem foreldrar geta fylgst með vinnu barna sinna, líkað við verkefnin þeirra og skrifað athugasemdir við þau. 

Seesaw virkar bæði í skólastofum þar sem nemendur eru allir með tæki eða deila tæki með öðrum. Seesaw fylgir verkefnabanki þar sem kennarar geta afritað verkefni sem aðrir hafa búið til, breytt og aðlagað að sinni kennslu. 

ScribJab

Viðfangsefni: bókagerð

ScribJab er bókagerðarforrit fyrir nemendur í tungumálanámi. Forritið er mjög auðvelt í notkun. Nemendur gera stafrænar bækur á tveimur mismunandi tungumálum, móðurmálinu og tungumálinu sem þeir eru að læra. Þeir til að lesa, skrifa, myndskreyta og geta einnig gert hljóðupptökur.  Bókunum geta nemendur deilt með öðrum nemendum. 

Á kennaraaðgangnum geta kennarar fylgst með vinnu nemenda, skrifað athugasemdir og leiðbeint nemendum við vinnuna í gegnum forritið. Þeir halda utan um bækur nemenda sinna með því að stofna hóp fyrir þá og í hópnum fá nemendur tækifæri til að vinna saman við gerð bóka. Kennari getur opnað fyrir aðgang nemenda að bókum annarra í hópnum þannig þeir geta lesið bækur hjá hverjum öðrum. 

Storyboard That

Viðfangsefni: teiknimyndasögugerð

Storyboard That er teiknimyndasöguforrit. Í ókeypis útgáfunni hafa nemendur val um 3 eða 6 ramma.

Það eru nokkrir flokkar, s.s. bakgrunnur, persónur og talblöðrur. Undir hverjum flokki eru svo margvíslegir flokkar t.d. er hægt að velja bakgrunn sem er innanhúss, utanhúss, í skóla eða eitthvað sem tengist skemmtun.

Story Jumper

Viðfangsefni: bókagerð

Story Jumper er bókagerðarforrit sem býður nemendum upp á tækifæri til að skrifa, búa til og birta sínar eigin sögur. Þessi síða býður upp á einföld tæki til að virkja sköpunarhæfileika barna við sögugerð. 

Nemendur geta myndskreytt og lesið inn á bókina með einföldum hætti, valið ýmsar persónur fyrir bókina sína, sögusvið og fleira. Ef nemandi les inn á bókina getur hann sett tónlist á bak við lesturinn og einng sett inn alls konar hljóðbrellur. Auk sögusviða sem fylgja forritinu getur nemandi einnig náð í myndir á netið til að nota sem sögusviðið sitt. Síðan getur hann sett inn alls konar persónur, dýr og fleira inn á sögusviðið. 

Með því að kaupa aðgang að síðunni opnast fleiri möguleikar en ókeypis efnið býður þó upp á marga möguleika sem duga vel við bókagerð. Hægt er að deila bókum innan bekkjarans eða með nemendum um allan heim. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að panta bókina sína og fá hana innbundna. 

Hér er að finna auðveldar leiðbeiningar fyrir kennara til að útbúa fyrsta verkefnið í Story jumber. Leiðbeiningarnar leiða kennarann skref fyrir skref hvernig hann setur upp svæðið sitt og nemenda sinna.

Viðfangsefni: orðaforði og statsetning

Leikurinn snýst um að finna földu orðin.

 Þú rennir fingri á milli stafanna til að mynda mismunandi orð.

Hundruðir borða og hellingur af orðum.