Fræðilegt efni

Í aðalnámskrá grunnskóla eru hæfniviðmið fyrir erlend tungumál sett fram á þremur stigum þar sem nemendur hefja málanám á ólíkum aldri eftir því hvaða grunnskóla þeir sækja.

Undir námssviðið erlend tungumál fellur hlustun, lesskilningur, samskipti, frásögn, ritun, menningarlæsi og námshæfni. Í aðalnámskrá grunnskóla segir Tungumál er eitt mikilvægasta tæki mannsins til að orða hugsun sína, afla sér þekkingar og eiga samskipti við aðra. Kunnátta í ólíkum tungumálum gegnir mikilvægu hlutverki í vitsmunaþroska einstaklingsins, eykur víðsýni og stuðlar að þroska á öðrum sviðum. Umfjöllun um aðrar þjóðir og kynni af þeim opna gáttir að fjölbreyttum menningarheimum, auka víðsýni, skilning, umburðarlyndi og virðingu gangvart öðrum og ólíkum lifnaðarháttum og stuðla þar með að betri skilningi á eigin menningu. Við skipulagningu erlendra tungumála skulu öll hæfniviðmið höfð í huga og sá rammi sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá í almennum hluta aðalnámskrár. Þar segir einnig að enska gegni lykilhlutverki í alþjóðasamskipum og samvinna Íslendinga við aðrar þjóðir kallar á staðgóða enskukunnátu. Upplýsinga- og margmiðlunarheimurinn gerir einnig kröfur um enskukunnáttu. Ör þróun á sviði stafrænnar fjölmiðlunar og upplýsingatækni hefur í för með sér að Íslendingar hafa aðgang að alls kyns efni sem krefst skilnings á ýmsum afbrigðum enskrar tungu.“ 

Annað erlenda tungumálið sem nemendur læra í grunnskóla er danska eða annað Norðurlandamál. Gert er ráð fyrir að danska sé alla jafna það norræna tungumál sem kennt er í skólum hér á landi en kennsla í norsku eða sænsku stendur til boða nemendum sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð.Einnig segir að Norðurlandamál eru kennd vegna samskipta og menningatengsla við norrænar þjóðir. Saga okkar er samofin sögu þeirra og menningu. Menningararfurinn er sameiginlegur og tungumálin eru af sömu rót sprottin. Tilgangur með kennslu í norrænum tungumálum er til að viðhalda og styrkja tengslin við aðrar Norðulandaþjóðir og stuðla að því að Íslendingar eigi greiða leið að sameiginlegum markaði menntunar á Norðurlöndunum. 

Í tungumálakennslunni er mikilvægt að nýta fjölmörg tæki upplýsinga- og samskiptatækninnar sem hafa á síðustu áratugum orðið virkur hluti af lífi barna og unglinga. Skólinn er einn þeirra staða þar sem unglingar nota rafræna miðla og erlend tungumál til að afla sér upplýsinga og ætla má að nemendur noti miðlana á ólíkan hátt í skólanum og í eigin frítíma. Gegnum netið á samtíminn greiða leið inn í kennsluna sem námsefni, hvort sem er í gegnum texta, hljóð eða mynd. Samskiptatæknin auðveldar samskipti nemenda þvert á landamæri og krefst af nemendum að þeir bregðist við án lítils umhugsunartíma. Þeir þurfa að læra að þekkja öruggar og áreiðanlegar upplýsingar, nýta sér leiðréttingarforrit, veforðasöfn og fjölfræðisíður. Einnig þurfa þeir að læra á ýmis örugg tæki og forrit til að skila og taka á móti viðfangsefnum rafrænt, ásamt því að læra um höfundarrétt. Þeir þurfa að fá þjálfun í að nýta miðlana á ábyrgan hátt, læra að umgangast skrif og sköpun annarra og sín eigin af virðingu og fara eftir settum reglum.

Aðalnámskrá grunnskóla, erlend tungumál bls. 122-138

Markmið aðalnámskrár fyrir erlend tungumál

Í aðalnámskrá grunnskóla eru hæfniviðmið fyrir upplýsinga- og tæknimennt sett fram fyrir nemendur við lok 4., 7. og 10. bekkjar.

Undir námssviðið upplýsinga- og tæknimennt fellur miðlamennt, skólasafnsfræði, tölvunotkun og upplýsinga- og samskiptatækni. Í aðalnámskrá grunnskóla segir Hugtakið upplýsinga- og miðlalæsi má skilgreina, sem getuna til að greina hvaða upplýsinga er þörf, leita að þeim, leggja á þær gagnrýnið mat, og auka þannig þekkingu sína og nýta með ýmsum miðlum til að ná tilteknu markmiði. Einnig felst í upplýsinga- og miðlalæsi geta til að nálgast og nota upplýsingar í samræmi við siðferðileg viðmið um höfundarétt. Þannig getur nemandi öðlast hæfni í að tileinka sér, umskrifa og skapa þekkingu, miðla henni á fjölbreyttan hátt í samræmi við eðli tækninnar og stafrænt umhverfi. Þar segir einnig að megintilgangur kennslu námssviðsins sé að efla upplýsinga- og miðlalæsi nemenda og hjálpa þeim að öðlast almenna, góða tæknifærni og tæknilæsi.

Tæknifærni: geta til að nýta ýmis tæki, tæknibúnað og fjölbreyttar úrvinnsluleiðir. 

Tæknilæsi:  geta  til að nýta tækjabúnað við öflun þekkingar og miðlun hennar.

Upplýsingalæsi: hæfni í að afla, flokka og vinna úr upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt.

Miðlalæsi: hæfni til að greina, ná í, meta og búa til miðlaskilaboð.

Stefnt er að því að nemendur verði læsir á texta, myndir og töluleg gögn auk þess að hafa náð góðri tæknifærni og fingrasetningu. Nemendur eiga að vera ábyrgir fyrir eigin námi og sýna hæfni í vinnubrögðum, bæði í sjálfstæðri vinnu og samvinnu.  Þjálfun nemenda í upplýsinga- og miðlalæsi þarf að vera markviss alla skólagönguna. 

Námssviðið er þverfaglegt og því skal vinna með raunhæf verkefni sem samþættast öðrum námsgreinum. Það skal jafnframt leggja áherslu á að kynna nemendum tækni og aðferðir við öflun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga sem þeir geta nýtt í tengslum við annað nám. Notkun fjölbreyttra námsgagna og tækni kemur til móts við þarfir nemenda með áhugasvið þeirra og getu í huga.

Aðalnámskrá grunnskóla, upplýsinga- og tæknimennt bls. 224-232

Markmið aðalnámskrár fyrir upplýsinga- og tæknimennt

Í námskeiðinu Menntun og upplýsingatækni, MUT við Háskólann á Akureyri á haustönn 2019 unnum við verkefni um kennslulíkön. 

Líkön hafa verið sett fram til að aðstoða kennara við að finna út hvernig samþætta má tækni,  kennslu og nám á sem árangursríkastan hátt. Tvö þessara líkana, SAMR og TPACK, hafa hlotið hljómgrunn í heimi menntunar fyrir gagnlegar hugmyndir sem geta hjálpað kennurum að taka þýðingarmiklar ákvarðanir þegar nota á tækni til að bæta námsumhverfið. 

Líkönin eru ólík en stefna bæði að því marki að efla kennslu og nám. Það má því alveg hugsa sér að nota þau saman til að styðja við notkun tækni hvað varðar kennslufræði kennara og verkefnavinnu nemenda. TPACK miðar að því að greina þekkingu kennara og getu til að innleiða tækni í kennslu. Tæknin má aldrei verða það sem ræður för heldur eiga viðfangsefnin hverju sinni og kennslufræði að segja til um hvaða tækni hentar best til að leysa þau verkefni sem kennarar og nemendur standa frammi fyrir.

Eftir að hafa skoðað TPACK líkanið og þær áherslur sem lagðar eru varðandi að flétta saman kennslufræði, inntak og tækni kemur samþætting námsgreina sterkt upp í hugann. Teymiskennsla er að aukast í skólum sem liður í því að nýta mismunandi styrkleika kennara í hinu flókna og margslungna starfi sem kennsla felur í sér.

European Framework for the Digital Competence of Educators

Kennarastéttir standa frammi fyrir ört vaxandi breytingum og þurfa kennarar sífellt víðtækari og flóknari starfshæfni en áður. Kennarar þurfa að efla sig í stafrænni tækni til að geta gert nemendum kleift að verða tæknifærir.

Á alþjóðavettvangi hefur fjöldi hæfniviðmiða verið þróaður til að greina stafræna hæfileika kennara og til að hjálpa þeim að meta hæfni sína og greina þjálfunarþörf þeirra.

Skýrsla var gefin út þar sem sett voru fram sameiginleg evrópsk viðmið fyrir stafræna hæfni kennara (DigCompEdu). DigCompEdu umgjörðin beinist að kennurum á öllum skólastigum.

Skýrsluna má lesa hér.

UT hæfniviðmið fyrir kennara.

1. Fagleg skuldbinding (Professional Engagement). Kennari getur notað upplýsingatækni af öryggi, ekki einungis í kennslu heldur einnig í samskiptum við samkennara og aðra innan skólastofnunarinnar. Faglegri skuldbindingu má skipta í fjóra undirflokka sem kennarinn getur metið hvar hann er staddur. Undirflokkarnir eru samskiptaleiðir innan stofnunarinnar, faglegt samstarf innan og utan stofnunarinnar, mat á notkun upplýsingatækni í kennslufræðilegu samhengi og endurmenntun í upplýsingatækni.

2. Stafrænar bjargir (Digital Resources). Kennari þarf að hafa í huga hvernig hann velur stafrænar bjargir og hvernig þær tengjast hæfnimarkmiðum Aðalnámskrár. Einnig þarf hann að huga að hver námshópurinn er og hvernig efnið tengist og styður við nám nemenda, hvort hann eigi að útbúa efnið frá grunni eða byggja á því efni sem leyfilegt er að nota. Hann þarf að velta fyrir sér hvernig skipulag og framsetning efnisins er háttað og að það sé viðeigandi fyrir nemendahópinn.

3. Kennsla og nám (Teaching and learning). Það eru fjórir þættir varðandi kennsluna sem mikilvægt er fyrir kennara að hafa í huga:

4. Námsmat/mat (Assessment). Kennari nýtir tæknina til að meta nám nemenda. Aðferðir við matið eru:

5. Valdefling nemenda (Empowering Learners). Tryggja þarf að allir nemendur hafi jafnt aðgengi að námsefni og kennslustundum, einnig nemendur með sérþarfir. Gæta þarf að væntingum, hæfileikum og hömlum sem nemendur búa yfir. Nýta þarf upplýsingatækni til að mæta fjölbreyttri námsþörf og námsgetu nemenda og gefa nemendum tækifæri til að fara yfir á þeim hraða sem þeim hentar best. Upplýsingatækni getur stuðlað að virkri og skapandi þátttöku nemenda, aukið þverfaglega færni þeirra, gagnrýna hugsun og skapandi túlkun.

6. Stuðningur við stafræna hæfni nemenda (Facilitating, Learners Digital Compentence). Kennari styður nemendur til að afla sér upplýsinga á netinu og vinna úr þeim upplýsingum. Hann aðstoðar þá í ábyrgðarfullum samskiptum og þátttöku í stafrænu samfélagi og stuðlar að fjölbreyttum samskiptum þvert á menningarhópa og mismunandi kynslóðir. Kennari styður nemendur í að geta unnið stafrænt efni á fjölbreyttan hátt og nýta tækni til að byggja upp skapandi þekkingu. Kennari stuðlar að því að gera nemendur færa um að vernda persónuupplýsingar og einkalíf í stafrænum heimi og hann þarf að bregðast hratt og örugglega við því ef velferð nemenda er ógnað í stafrænu umhverfi. 

Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013 /2013.

Christine Redecker. (2017) JRC science for policy report: European framework for the digital compentence of educators. Sótt af https://ec.europa.eu/jrc/en/publication/eur-scientific-and-technical-research-reports/european-framework-digital-competence-educators-digcompedu

Unnur Valgeirsdóttir og Valgerður Daníelsdóttir. (2019). Kennslulíkön SAMR og TPACK. Óbirt verkefni: Háskólinn á Akureyri, Hug- og félagsvísindasvið. Sótt af https://drive.google.com/open?id=1CXwM5Q3gVgiKH8zH_kwH6SvCvaAGFGDLz07UiG5Hshw