NotebookLM er gervigreindarverkfæri frá Google sem hjálpar notendum að vinna með fræðileg gögn á auðveldari hátt. Það getur umbreytt löngum og flóknum textum í skýr og aðgengileg gögn, eins og stutt svör við algengum spurningum, tímalínur eða námsleiðbeiningar. Sérstakur eiginleiki þess er „Deep Dive“ umræður, þar sem tveir gervigreindar umsjónarmenn ræða efnið á svipaðan hátt og gert er í hlaðvarpi. Þannig hjálpar verkfærið notendum að skilja efni betur og tengja saman hugmyndir (Yeo, Moorhouse og Wan, 2025).
Umbreyting á fræðilegum texta
NotebookLM getur tekið flókið efni og gert það einfaldara með því að skipta því niður í aðgengilegri hluta.
Margar leiðir til framsetningar
Notendur geta fengið efnið í margskonar formi eins og efnisyfirlit, leiðbeiningar, spurningar og svör, samantektir, tímalínur og hljóðefni. Eins getur notandi átt einskonar spjall við þær heimildir
Hljóðræn framsetning
Með „Deep Dive“ eiginleikanum geta notendur hlustað á gervigreind sem útskýrir efnið í samtali, sem getur gert námið auðveldara og skemmtilegra.
Aðgengi
NotebookLM er auðvelt í notkun og krefst ekki uppsetningar. Notendur geta einfaldlega farið á vefsíðuna og byrjað að nota. Það tekur við texta og hljóði á 35 tungumálum, sem gerir það aðgengilegt fyrir notendur með mismunandi tungumálakunnáttu.
Sérstillingar
Hægt er að sérstilla umfangið, efnið og tungumálastigið í ferlinu. Það gerir verkfærinu kleift að laga sig að þörfum og kunnáttu hvers notanda.
Hlaða upp margvíslegu efni
Notendur geta hlaðið inn textaskjölum á ýmsum sniðum (PDF, .txt, Markdown), hljóðskrám, eða afritað texta beint inn í forritið. Einnig er hægt að nota efni úr Google Drive.
Ókeypis og persónuvernd
NotebookLM er ókeypis í notkun enn sem komið er og lofar að nota ekki persónuupplýsingar til þjálfunar verkfærisins (Yeo, Moorhouse og Wan, 2025).
NotebookLM er sérstaklega gagnlegt fyrir nemendur sem eiga erfitt með að lesa og skilja flókin fræðileg gögn. Það hjálpar þeim að læra á nýjan hátt með því að umbreyta löngum textum í stuttar og skýrar útskýringar. Til dæmis geta kennarar notað verkfærið til að þróa námsefni í hlaðvarpsformi, sem styður við tjáningu og virka þátttöku nemenda. Virk þátttaka nemenda getur falist í því að þeir hafa möguleika á því að stöðva spjallið og taka þátt í
Með því að nota NotebookLM geta nemendur og kennarar bæði sparað tíma og gert nám aðgengilegra. Hins vegar er mikilvægt að beita gagnrýnni hugsun við notkun þess. Nemendur geta til dæmis borið saman frumtexta og hlaðvarpsútgáfu efnisins til að þjálfa gagnrýna greiningu á upplýsingum.
Verkfærið getur einnig nýst rannsakendum við heimildaleit með því að lesa, draga saman og tengja upplýsingar úr mörgum gögnum. Að auki er hægt að nota það til að fá yfirsýn yfir ákveðin rannsóknarsvið með því að hlusta á gervigreindar umsjónarmenn ræða efnið (Yeo, Moorhouse og Wan, 2025).
Sjálfvirkni
NotebookLM sparar kennurum tíma við undirbúning og gerir þeim kleift að bjóða upp á fjölbreytt efni. Með því að búa til mismunandi námsgögn, eins og hljóðefni, er hægt að koma til móts við ólíka námsstíla nemenda (Huffman og Hutson, 2024, bls. 2). Hljóðefni getur einnig verið sérstaklega gagnlegt fyrir nemendur sem læra betur með hlustun (Huffman og Hutson, 2024, bls. 3).
Fjölbreytt kennsluefni
NotebookLM getur búið til sérsniðið kennsluefni, spurningalista og úttektir sem laga sig að þörfum námskrár (Huffman og Hutson, 2024, bls. 3). Verkfærið getur einnig breytt námsupplifun nemenda með því að vinna úr sögulegum skjölum og þannig gera þau virkari og aðgengilegri. Þetta gerir nemendum kleift að kafa dýpra í söguleg efni (Huffman og Hutson, 2024, bls. 5). Kennarar geta einnig sérsniðið sögulegt námsefni svo það passi við ákveðin þemu og tímabil (Huffman og Hutson, 2024, bls. 6).
Ónákvæmni
Eins og með flest gervigreindarverkfæri hefur NotebookLM einhverjar takmarkanir. Tilvísanir geta riðlast, og tímalínur verða stundum ónákvæmar (Huffman og Hutson, 2024, bls. 4). Það er því nauðsynlegt að kennarar yfirfari efnið og lagfæri þar sem þarf, sem getur tekið tíma.
Takmörkuð aðlögun
Hægt er að stilla tungumálastig, en ekki er mögulegt að breyta bandarískum hreim þáttastjórnenda enn sem komið er. NotebookLM býður heldur ekki upp á sjálfvirka afritun hljóðskráa, sem gæti nýst nemendum sem eru að læra tungumál.
Hætta á of mikilli notkun
Sú hætta er fyrir hendi að nemendur gætu farið að treysta of mikið á verkfærið og þá hætt að lesa frumtextana sjálfir. Það gæti dregið úr þeirri færni að þróa gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð (Yeo, Moorhouse og Wan, 2025).
NotebookLM gervigreindarverkfærið má tengja við ýmsar námskenningar.
Félagsmenningarkenning - Vygotsky
Samkvæmt Vygotsky er nám félagslegt ferli þar sem samskipti við aðra og stuðningur frá leiðbeinanda hjálpar nemendum að læra (Aubrey og Riley, 2022, bls. 73). Segja má að NotebookLM sé stafrænn leiðbeinandi sem aðstoði nemendur við að skilja efni með ýmsum möguleikum. Hlaðvarps eiginleikinn líkir eftir samræðum aðila sem hafa þekkingu á námsefninu og hægt er að taka beinan þátt í samræðunum. Það getur stutt nemandann við að dýpka skilning sinn á efninu.
Hugsmíðahyggja - Bruner
Hugsmíðahyggja Bruner felur í sér að börn byggji upp þekkingu í samspili við umhverfið og aðra. Að þekking og merkingarmyndun sé byggð á fyrri reynslu í samvinnu við aðra. Hlutverk kennarans sé að styðja nemandann í að byggja upp eigin skilning í námi sínu og frásagnir sé leið til að skilja og efli gagnrýna hugsun (Aubrey og Riley, 2022, bls 150). NotebookLM kemur ekki í stað kennara en getur hjálpað nemendum að byggja upp eigin þekkingu með því að umbreyta flóknum gögnum í einfaldar aðgengilegar einingar. Með því að bera saman upprunalegt efni við það sem kemur frá NotebookLM þjálfa nemendur gagnrýna hugsun.
Hugræn úrvinnsla upplýsinga - Sweller
Sweller (2019) bendir á að vinnsluminni mannsheilans sé takmarkað, bæði hvað varðar magn upplýsinga og tímalengd úrvinnslu. Þessi takmörkun hefur áhrif á hversu mikið magn nýrra upplýsinga nemandi getur unnið úr hverju sinni. Ef álag verður of mikið, getur það hindrað námsferlið (Sweller, 2019, bls. 5-6). Þegar námsefni er flókið getur verið gagnlegt að brjóta það niður í smærri aðgengilegri einingar. NotebookLM getur dregið úr hugrænu álagi með því að umbreyta löngum og flóknum textum í stuttar samantektir, hlaðvarp og sjónræna möguleika eins og tímalínur.
Fjölgreindarkenning - Gardner
Gardner (1989) skilgreinir greind sem hæfni til að leysa vandamál eða búa til afurðir sem eru metnar í einu eða fleiri menningarlegu samhengi (Gardner og Hatch, 1989, bls. 5). Fjölgreindarkenningin gerir ráð fyrir að til séu sjö tiltölulega sjálfstæðar greindir og að einstaklingar séu mismunandi eftir því hvaða greindir þeir búi yfir (Gardner og Hatch, 1989, bls. 4). Þessar greindir eru: rökgreind/stærðfræðigreind, málgreind, tónlistargreind, rýmisgreind, hreyfigreind, mannleg samskiptagreind og sjálfsþekkingargreind (Gardner og Hatch, 1989, bls. 6). NotebookLM býður nemendum upp á að læra á mismunandi vegu í gegnum texta, hljóð, sjónrænt efni eða samræður og styður þannig fjölbreyttar námsaðferðir. Til dæmis geta nemendur sem læra betur með hlustun nýtt sér hlaðvarpseiginleikann.