Skipulagssvik Hfj.bæjar á Suðurbakka Flensborgarhafnar

"Þetta frábæra samráðferli og allir mjög áhugasamir … svo … kemur á hólminn það er byrjað að framkvæma … Nú er að rísa þarna mjög stór bygging, hún er 22 mestrar að hæð, og ein af niðurstöðunum í skipulagslýsingunni sem ég vann var að fólk vildi ekki endurtaka Norðurbakkann, þar sem eru blokkir, háar blokkir, beint fyrir framan lágreista byggð, við hafnarbakkann ... En núna er farið að stað … og þá er farið alveg þvert á samráðsferlið og þvert á skipulagslýsinguna, þar sem … niðurstaðan var að allir vildu sjá byggð í samræmi í þá byggð sem fyrir er, þannig ekki að fara að loka þarna fyrir eins og gerðist á Skúlagötunni og kannski þarna á Norðurbakkanum."

Magnea Guðmundsdóttir arkítekt, höfundur Skipulagslýsingar Flensborgarhafnar 2016, og verkefnisstjóri samráðsverkefnis með íbúum og hagsmunaaðilum, í þættinum Flakk hjá Lísu Pálsdóttur, 24.ágúst 2019 (16 mín á: http://bit.ly/2UAS38C)


Nú stendur yfir skipulagsvinna um Flensborgarhöfn.

Meirihluti bæjarstjórnar lætur eins og hlustað hafi verið á íbúa – en þegir þunnu hljóði um niðurstöður vandaðs íbúasamráðs sem samþykktar voru í mars 2016, með skýrum fyrirheitum um lágreistar byggingar á höfninni.

Þetta var Skipulagslýsing Flensborgarhafnar sem Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt, tók saman eftir samráð við íbúa: menningargöngu, bloggsíðu, viðtöl og vinnustofur.

Aðeins um ári síðar, 2017, voru þessi fyrirheit svikin þegar leyfi var gefið út fyrir byggingu Fornubúðarisans á hafnarkantinum, um 22 m. hárri blokkalengju sem verður um 185 m. löng þegar yfir lýkur.

Þegar íbúar bentu bæjaryfirvöldum á þessi loforð í athugasemdum haustið 2018, brugðust yfirvöld við með því að nema skipulagslýsinguna úr gildi.

67 athugasemdir bárust frá íbúum, sem er fáheyrður fjöldi í skipulagsmálum - en féllu fyrir daufum eyrum, enda niðurstaðan fyrir fram gefin hjá bænum.

Á þessari síður er gert grein fyrir örlögum þessa íbúasamráðs og svikum bæjaryfirvalda (síðan var upphaflega sett upp til að upplýsa íbúa um svik bæjarins og leiðbeina um andmæli).


Á þessari síðu:

Inngangur

Bæjarstjórn reynir að slá vopn úr höndum bæjarbúa

Hvernig er andmælum skilað inn?

Andmælabréf - leiðbeiningar

Ýmsar upplýsingar

Spurt og svarað

Suðurbakki, yfirlit, umfang bygginga

Litaði hlutinn er fyrirhugað húsnæði Hafrannsóknarstofnunar. Myndin sýnir vel, að byggingarmagn er langt umfram þarfir Hafró.

Fyrsti áfangi, fyrirhugað húsnæði Hafró

Fyrsti áfangi, fyrirhugað húsnæði Hafrannsóknarstofnunar

Öll byggingin, langt umfram húsnæðisþörf Hafró

Öll byggingin - eins og sést er magn langt umfram húsnæðisþörf Hafró

Fyrir ofan: Byggingin - séð frá Strandgötu (langi endinn sem snýr að Norðurbakkanum er í hvarfi)

Fyrir neðan: Byggingin séð frá Óseyrarbryggju. Ólíkt útlit skýrist af því að þetta eru tillögur.

Byggingarnar séðar frá Óseyrarbryggju

Sneiðmynd sem sýnir hæð bygginganna miðað við önnur hús á svæðinu.

Inngangur

Hafnarfjarðarbær hefur samþykkt byggingu 5 hæða háhýsa á hafnarkanti Flensborgarhafnar.

Húsin geta orðið 22 metra og munu byrgja útsýni - hafflötinn, kvöldsólina, Álftanes, Garðaholt, og Snæfellsjökul.

Öll lengjan getur orðið 185 metrar - einhverjar mest áberandi byggingar í Hafnarfirði.

Koma Hafrannsóknarstofnunar til Hafnarfjarðar er gleðileg - en hæð og magn er langt umfram húsnæðisþörf Hafró.

Háhýsin munu hafa fordæmisgildi fyrir framtíðarskipulag svæðisins - því er brýnt að koma í veg fyrir þetta skipulagsslys.

Samráð við íbúa er svikið því horft er fram hjá skipulagslýsingu frá 2016 þar sem talað var um:

- Lágreistar byggingar sem falli vel að aðliggjandi byggð (s. 8)

- Byggingamagn á svæðinu verði aukið í góðri sátt við aðliggjandi byggð (s. 56).

- Hæð nýrrar byggðar verði einnig í góðri sátt við nærliggjandi byggð (s. 56).

Í meginmarkmiðum og niðurstöðum skipulagslýsingarinnar segir m.a.:

Flensborgarhöfn, skipulagslýsing bls. 8

Flensborgarhöfn, skipulagslýsing (2016), bls. 8.

Flensborgarhöfn, skipulagslýsing bls. 56

Flensborgarhöfn, skipulagslýsing (2016), bls. 56.

Jafnframt segir í keppnislýsingu um opna hugmundasamkeppni um framtíð svæðisins (sem byggir á skipulagslýsingunni):

Keppnislýsing um opna hugmyndasamkeppni um svæðið (janúar 2018), bls. 3.

Bæjarstjórn reynir að slá vopn úr höndum bæjarbúa

Eins og fyrr segir stangast áformin á við skipulagslýsingu frá 2016 (lágreistar byggingar, o.s.frv.), sem var niðurstaða vandaðs, tveggja ára samráðs við bæjarbúa og aðra aðila.

Þegar íbúar tóku að andmæla fyrr í haust með vísun til skipulagslýsingarinnar, brást meirihluti bæjarstjórnar við með því að nema skipulagslýsinguna úr gildi. Þetta gerðist á bæjarstjórnarfundi á hrekkjavöku, 31. október sl.

Meirihlutinn segir að þetta sé vegna þess að skipulagslýsingin stangist á við keppnislýsinguna um framtíð svæðisins, sem minnst er á að ofan. Tvær tylliástæður er tilgreindar sérstaklega: (1) að keppnislýsingin opni á íbúabyggð og (2) að skipulagssvæðinu hafi verið breytt.

Það stenst ekki skoðun:

- Skjölin tengjast með beinum hætti: Skipulagslýsins gerir ráð fyrir að samkeppnin um framtíð svæðisins fari fram (s. 59-60), og í keppnislýsingunni stendur skrifað að skipulagslýsingin liggi henni til grundvallar: "Hópurinn skilaði af sér skipulagslýsingu fyrir svæðið, sem er lögð til grundvallar samkeppninnar" (s. 2). Skipulagslýsingin er því forsenda keppnislýsingarinnar.

- Varðandi íbúabyggð á svæðinu er orðalag ekki mjög afgerandi, og í báðum skjölum er vísað til gildandi aðalskipulags. Í keppnislýsingunni stendur: "Ekki er gert ráð fyrir íbúðum á skipulagssvæðinu í gildandi aðalskipulagi. Ef hugmyndir um sértæka íbúðarkosti sem henta svæðinu koma fram, verður ekki tekið neikvætt í slíkar tillögur" (s. 3). Í skipulagslýsingunni segir: "Ekki verði gert ráð fyrir íbúðum á svæðinu á meðan frekari uppbygging atvinnusvæðis fyrir höfnina er í bið í aðalskipulagi" (s. 56). Þetta er nú allur munurinn - og takið eftir því að skipulagslýsingin útilokar ekki íbúabyggð, gerir bara ekki ráð fyrir henni *á meðan* gildandi aðalskipulag segir annað.

- Skipulagssvæðið er afmarkað á á bls. 5 í keppnislýsingunni og bls. 7 í skipulagslýsingunni - eins og glöggir sjá er það nákvæmlega eins:

Afmörkun svæðisins: Keppnislýsing s. 5

Afmörkun svæðinsins: Skipulagslýsing s. 7

Því er ljóst að hártoganir um íbúabyggð og fullyrðingar um breytt svæði eru tylliástæður.

Hver er þá ástæðan fyrir afnámi skipulagslýsingarinnar?

- Eini efnislegi munurinn á þessum tveimur skjölum sem liggur í augum uppi er sá, að í keppnislýsingunni er ekki talað um „lágreistar byggingar“, heldu aðeins um „hæð og umfang“ (s. 3). Með því að nema skipulagslýsinguna úr gildi losnar meirihlutinn við þetta óþægilega atriði (lágreistar byggingar).

Tilgangurinn er því slá þannig vopn úr höndum þeirra bæjarbúa sem hafa andmælt nú í haust.

Þetta verður enn augljósara þegar tímasetningin er skoðuð - keppnislýsingin var samþykkt í janúar 2018, og samkeppnin fór fram vorið 2018. Hafi verið svona brýnt að afnema skipulagslýsinguna vegna keppnislýsingarinnar, hvers vegna var það ekki gert í byrjun árs, eða á vormánuðum? Merkileg tilviljun að það gerist 10 mánuðum síðar, einmitt þegar íbúar andmæla.

(Sjá nánar undir Spurt og svarað neðar á síðunni.)

Hvernig er andmælum skilað?

Ný frestur er 4. desember nk. - þeir sem ekki gera athugasemdir teljast samþykkir.

(Nýr frestur því bæjaryfirvöld þurftu að auglýsa skipulagsbreytinguna aftur eftir athugasemdir Skipulagsstofnunar.)

Fjórar leiðir:

1) Með tölvupósti

2) Afhenda bréf á þjónustumiðstöðina á Strandgötu eða Norðurhellu

3) Í pósti

4) Hafðu samband og við komum bréfinu áfram


1) Með tölvupósti (senda fyrir miðnætti 4. des):

- Skrifið bréf (sjá dæmi neðar á síðunni)

- Tilgreinið stað, dagsetningu, fullt nafn, kennitölu, lögheimili

- Skrifið undir (með penna)

- Skannið bréfið inn EÐA takið mynd af því

- Sendið skannið/myndina sem viðhengi á netfangið: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

- með subject: Fornubúðir 5


2) Afhenda bréf á þjónustumiðstöðina á Strandgötu eða Norðurhellu (opið til kl. 16 þann 4. des):

- Skrifið bréf (sjá dæmi neðar á síðunni)

- Tilgreinið stað, dagsetningu, fullt nafn, kennitölu, lögheimili

- Skrifið undir (með penna)

- Afhendið bréfið annað hvort á Þjónustumiðstöðina á Strandgötu (bæjarskrifstofurnar) eða á Norðurhellu 2.


3) Í pósti (fyrir lokun á pósthúsi 4. des - póstsimpill staðfestir dagsetningu):

- Skrifið bréf (sjá dæmi neðar á síðunni)

- Tilgreinið stað, dagsetningu, fullt nafn, kennitölu, lögheimili

- Skrifið undir (með penna)

- Sendið bréfið á heimilisfangið:

  • Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar
  • Norðurhella 2
  • 221 Hafnarfjörður


4) Hafðu samband og við komum bréfinu áfram:

- Ef þú átt erfitt með að koma bréfinu til skila getum við gert það fyrir þig.

- Þér er velkomið að hafa samband á netfangið: sudurbakki@gmail.com

Auglýsing um skipulagsbreytinguna í Fréttablaðinu, 23. október sl.

Andmælabréf - leiðbeiningar

Fólk þarf að nefna hvers vegna það andmælir

Dæmi um ástæður:

- Skyggir á útsýni fyrir stórum hluta Suðurbæjar - skert útsýni getur haft áhrif á í

- Slíkar risabyggingar kalla á aukna umferð með ónæði fyrir íbúa - aukinn umferðaþungi og skert útsýni getur lækkað fasteignaverð hjá nágrönnum svæðisins.

- Skuggavarp, t.d. að skyggi á kvöldsól.

- Skaðar ásýnd bæjarins - húsin verða meðal mest áberandi bygginga miðbæjarins (um 22 metra há og 185 metra löng).

- Samráð við íbúa svikið - með því að horfa hjá skipulagslýsingu frá 2016 þar sem talað var um lágreistar byggingar sem falli vel að aðliggjandi byggð - skipulagslýsingin byggði á tveggja ára samráði við íbúa.

(Eins og kemur fram að ofan brást bæjarstjórn við andmælum íbúa fyrr í haust með því að nema skipulagslýsinguna úr gildi, augljóslega til að slá vopn úr höndum fólks. Hins vegar er full ástæða til að halda henni á lofti - hún var niðurstaða íbúasamráðs, og var í gildi þegar auglýsingin um skipulagsbreytinguna fór í loftið (23. október sl.). Einnig má benda á að á skipulagslýsingin liggur til grundvallar keppnislýsingar um framtíð svæðisins sem fór fram síðasta vor og er í fullu gildi.)

- Sérmeðferð - að þessi eina lóð (Fornubúðir) fái sérmeðferð þegar heildarskipulag svæðisins (Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis) er í vinnslu. Mun eðlilegra væri að allt svæðið væri skipulagt í heild.

- Fordæmisgildi - mjög líklegt að byggingarnar muni hafa fordæmisgildi fyrir framtíðarskipulag svæðisins, sem er í vinnslu.

- Það er allra hagur að Hafró komi til Hafnarfjarðar, en þessi vinnubrögð kasta rýrð á það þarfa verkefni.

- Aukinn umferðaþungi - Starfsemi í slíkum risabyggingum kallar á aukna umferð með tilheyrandi ónæði fyrir nágranna svæðisins

Suðurbakki

Myndin er aðeins grófleg útlitsteikning, en gefur góða hugmynd um umfang bygginganna - hæð (allt að 22 metrar) og lengd (um 185 metrar).

Myndin sýnir aðeins fyrsta hluta, fyrirhugað húsnæði Hafró. Gefur góða mynd af hæð (um 22 metrar) miðað við skemmuna sem er þar fyrir.

Spurt og svarað

Hvernig vitum við hvað húsin verða há?

Samkvæmt skjölum bæjarins verða þær 21-22. metra háar.

Í breytingu á deiliskipulagi segir: „Miðað er við að jarðhæð sé 4,5 m há og aðrar hæðir 3,5 m samtals 18,5 m. Í ljósi kröfu um uppbrot á þaki er miðað við að mænishæð á þaki geti verið 3,5 metrum hærri en fyrrgreind hæð húss“ (sjá skjalið hér).

18,5 m + 3,5 m = 22 metrar.

Samkvæmt útlitsteikningum í skjölum bæjarins er hæð húsanna ýmist sýnd sem u.þ.b. 22 metrar eða u.þ.b. 21 metri (sjá skjöl hér). Sjá einnig mynd hér fyrir neðan sem sýnir hæð.

Húsin verða byggð við skemmu sem er þar fyrir - hvað er skemman há og hve miklu munar? Hæsti punktur á skemmunni er 12,7 metrar. Verði húsin 22 metra há verða þau 9,3 metrum hærri en skemman. Sjá mynd til glöggvunar:

Sneiðmynd sem sýnir hæð bygginganna miðað við önnur hús á svæðinu.

Hvernig vitum við hvað blokkirnar verða langar?

Teikningar af öllum hafa ekki verið birtar, en samkvæmt uppdrætti í deiliskipulagi má ætla að þær geti orðið 185 metra langar (sjá skjalið hér).


Hvers vegna eru framkvæmdir í gangi þrátt fyrir að byggingarleyfi sé ekki til staðar (nóvember 2018)

Bærinn gaf út leyfi til að steypa "gámastæði" við Fornubúðir (lóðina þar sem fyrsti hluti bygginganna á að rísa).

Glöggir sjá að "gámastæðið" (rauðlitað) er einmitt þar sem hús Hafrannsóknastofnunar á að rísa - sjá mynd (skjalið með uppdrættinum er hér).

Ekki er hægt að draga aðra ályktun, en að verið sé að steypa plötuna í húsið þrátt fyrir að ekkert sé byggingarleyfið - með fullu samþykki Hafnarfjarðarbæjar. Sjá umfjöllun í Fjarðarfréttum í nóvember 2018.

Hvers vegna var Skipulagslýsing Flensborgarhafnar felld út gildi 31. október 2018?

Samkvæmt meirihlutanum stangast skipulagslýsingin (útkoma tveggja ára samráðsverkefnis) á við keppnislýsingu um opna hugmyndasamkeppni um framtíð svæðisins. Tvær ástæður er nefndar sérstaklega:

1) Að keppnislýsingin opni á íbúðarbyggð á skipulagssvæðinu, á meðan ekki sé gert ráð fyrir því í skipulagslýsingunni.

2) Að skipulagssvæðið sé mismunandi í keppnislýsingunni og skipulagslýsingunni.

Hvoru tveggja er svarað í fyrir ofan undir "Bæjarstjórn reynir að slá vopn úr höndum bæjarbúa".

Varðandi (2) er sérstaklega athyglisvert að skipulagssvæðið er nákvæmlega eins í báðum skjölum - hvernig gæti staðið á því fyrst meirihlutinn heldur öðru fram?

Líklega mistök. Þau virðast vera að benda á ósamþykkt drög skipulagslýsingarinnar, ekki þá útgáfu sem var samþykkt í bæjarstjórn. Þetta sést þegar rýnt er í fundargerðina 13. apríl 2016 þegar skipulagslýsingin var samþykkt. Þar segir:

"Skipulags- og byggingarráð samþykkir fyrirliggjandi lýsingu fyrir sitt leyti með þeim breytingum sem fram komu á fundinum um stækkun svæðisins að Stapagötu og leggur til við bæjarstjórn: "Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir lýsingu að breyttri notkun og skipulagi hafnarsvæðisins í samræmi við fyrirliggjandi gögn."

Takið sérstaklega eftir þar sem segir "með þeim breytingum sem fram komu á fundinum um stækkun svæðisins að Stapagötu". Þarna er bæjarstjórn að samþykkja stækkun skipulagssvæðisins - um leið og skipulagslýsingin var samþykkt.

Þetta sést glögglega þegar drög skipulagslýsingarinnar dagsett 4. febrúar 2016 eru borin saman við útgáfuna sem er dagsett 3. mars 2016:

Drög Skipulagslýsingarinnar dags. 4. febrúar 2016

Afmörkun svæðinsins s. 7 - svæðið nær EKKI að Stapagötu (lengst til vinstri)

Skipulagslýsingin dags. 3. mars 2016

Afmörkun svæðinsins s. 7 - svæðið NÆR AÐ Stapagötu (lengst til vinstri)

Eins og sést, er Skipulagslýsingin dags. 3. mars 2016 í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar 13. apríl 2016 - með stækkun svæðisins að Stapagötu. Og eins og glöggir sjá, er það nákvæmlega sama skipulagssvæðið og er í keppnislýsingunni um framtíð svæðisins:

Keppnislýsingin um framtíð svæðisins

Afmörkun svæðisins: Keppnislýsing s. 5

Þannig er dagljóst, að ástæðan sem meirihluti bæjarstjórnar gefur fyrir því að nema skipulagslýsinguna úr gildi stenst ekki - því skipulagssvæðið er eins í keppnislýsingunni og skipulagslýsingunni.

Hvers vegna halda þau því fram? Væntanlega mistök.

Hvað sem því líður er þetta augljós tylliástæða. Raunverulegi tilgangurinn er að losna við "lágreistar byggingar" úr textanum - sem íbúar hafa bent á nú í haust - sem sagt, að slá vopn úr höndum andmælenda.

Hverjir standa að þessari síðu?

Nokkrir íbúar í Suðurbæ; þeir standa einnig að mótmælasíðu á Facebook.