Umferðin

Sinnuleysi

Árið 2010 bar mikið á umræðum í fjölmiðlum, af átaki í umferðamálum á vegum Umferðarstofu og lögreglu.Leitað var eftir samvinnu við sveitarfélög víða um land að hleypa af staðarátaki til að bæta umferðaröryggi og umferðarmenningu.

Meðal annars sá ég í fundargerðum Fjallabyggðar árið 2010 minnst á þessi mál, þar sem sagt var frá ósk Umferðarstofu um samvinnu við stjórn bæjarfélagsins Fjallabyggðar, og í framhaldi af því gefin "fögur loforð"

Þetta var gott mál og löngu tímabært, en viðkomandi nefnd Fjallabyggðar, Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar sem hefur umferðarmál meðal annars á sinni könnu hefur á undanförnum mörgum árum, vægt til orða tekið, staðið sig ákaflega illa á ýmsum sviðum hvað umferðaröryggi og umferðarmenningu varðar.

Þar með talin Lögreglan á Siglufirði, sem ekki hefur sinnt störfum sínum hvað lög um bifreiðastöður varðar, og fleira.

Dæmi sem varðar lögregluna, er þegar ungur aðkomu lögreglumaður var ráðinn til afleysinga í októbermánuði 2010 og hóf störf á Siglufirði, sá hann að umferðarmenning hvað varðar bifreiðastöður var í ólestri þar sem bifreiðastjórar lögðu bifreiðum sínum þar sem þeim datt í hug, án tillits til þess að staða bifreiða þeirra væri ólögleg, sem hindraði aðra umferð.

Bílum var lagt þvers og skáhalt við og upp á gangbrautum osfv. Þessi ungi lögreglumaður hélt auðvita að almenn umferðarlög væru í gildi á Siglufirði, eins og td. í Reykjavík.

Hann kærði þó nokkurn fjölda fyrir ólöglegar bifreiðastöður.

Allt varð „vitlaust“ í bænum þegar gíróseðlarnir fóru að berast. Sumir borguðu þó að sagt var, en aðrir ekki sáttir með svona ófyrirleitin vinnubrögð.

Málið endaði á sameiginlegum fundi lögreglu og sýslumanns, þannig að sektir voru afturkallaðar, og endurgreiddar.

Og einhverjar "bla bla" yfirlýsingar sem ekki komu fram í fundargerðum á netinu.

Engar breytingar hafa orðið á umferðarmenningunni, ekki enn í dag í júnímánuði 2012.

Á Siglufirði leggja bifreiðastjórar bílum sínum enn í dag, stórum og smáum þvers og kruss á götum og gangstéttum, þvert á gangstígum, götuhornum, og eða þar sem þeir þeim þykir þægilegast að leggja. Sumir kunna raunar ekki að leggja inn í stæði, þau fáu sem eru merkt.

Hvanneyrarbrautin, mynd hér ofar: Stundum eru stærri jeppar og sendibifreiðar alveg við hvíta strikið á miðri götunni, og geta þá aðrar bifreiðar ekki mæst þarna, nema þá ef til vill, með því að brjóta lög og fara upp á gangstéttina. Þungir bílar á leið inn í bæinn, gætu í slíkum tilfellum brotið gangstéttina, sem ekki er gerð fyrir akstur þungra bíla.

Þarna hafa "heiðarlegir" ökumenn hindrað umferð um þjóðvegarkerfið innanbæjar, allt með "meintu" leyfi Bæjarstjórnar Fjallabyggðar, sem ekkert gerir í málinu. Og svo og í tilfellum, er gangstéttin þrengd og jafnvel lokuð fyrir barnavögnum og gangandi.

---------------

Óstaðfestar fréttir herma að bifreiðastöðuverðir í Reykjavík og á Akureyri hafi á ákveðnum tímum unnið fyrir launum sínum með sinni gæslu og sektarmiðum.

Hvernig væri að ráða í óákveðinn tíma stöðumælavörð á Sigló ?

Hvanneyrarbraut, Aðalgata Suðurgata og Laugarvegur væri góð tekjulind, miðað við ástandið eins og það hefur verið á nefndum götum undanfarin ár.

Ég hef margsinnis á undanförnum árum nefnt þessi mál við lögregluþjóna, svo einu sinni við þáverandi sýslumann án þess að breytinga hafi orðið vart.

Ég skrifaði ma. Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar, opið bréf árið 2010 ma. á www.sksiglo.is

Umferðarráð getur komið þessum málum á einhvern hátt til betri vegar, en máltækið segir: "Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja". það máltæki má uppfæra á bæjaryfirvöld, án samviskubits.

Nú er komið sumar og nokkrir unglingar lokið við (?) að merkja gangbrautir, hraðahindranir og merkingar við gatnamót, en engin bílastæði hafa enn fengið skilgreiningu, þann 13. júní 2012

Steingrímur Kristinsson.