Pólitíkin

Bréf, skrifað og sent árið 2000

Til forustumanna Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði og í Reykjavík (frekar en til fjölmiðla !)

Að gefnu tilefni þá vil ég láta vita af því að ég er orðinn ansi afhuga Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa fylgt honum frá barnsaldri.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mínu mati eini flokkurinn sem ég hefi talið færan um að sinna og veita forystu lands og bæjarmála til þessa, en nú er ég verulega farinn að efast um að svo sé.

Vissulega hefur flokknum tekist vel á mörgum sviðum, en eitt svið hefur hann verulega vanrækt að mínu mati, og vegur það svo sterkt að ef ekki verða hugarfarsbreytingar þar að lútandi og þá sérstaklega hið fræga “áhyggjuleysi” forsætisráðherra á þeim málaflokki, eða etv. áhugaleysi hans og ríkisstjórnarinnar á málum aldraðra. Málefnum þeirra sem tekið hafa þátt í að gera landinu okkar allt hið besta sem má við að skapa því verðmæti og sóma.

Vegna aldurs og heilsubrests í sumum tilfellum er öldruðum ekki lengur vært á vinnumarkaði þrátt fyrir ríkan vilja. Þessu fólki er nú hegnt með ónógum lífeyri og hækkuðum álögum á alla kanta.

Sérstaklega er þetta bagalegt fyrir aldraðra úti á landsbyggðinni. Fólk sem hefur með vinnu sinni komið þaki yfir höfuðið og í mörgum tilfellum eignast hús sín og íbúðir skuldlaust, og hefur í hyggju að fá sér minni íbúð vegna sjálfvirkra hækkana úr hófi fram á fasteignagjöldum ofl. sem verðlag á höfuðborgarsvæðinu stjórna (gáfulegt hitt þó heldur) og þar sem börnin eru flogin, oftast suður á höfuðborgarsvæðið.

Stundum langar þessu fólki að flytja í nánd við börnin sín en getur það ekki þar sem verðið sem fyrir íbúðirnar fást er í engu samræmi við raungildi, hvað þá stimplað fasteignaverð. Það er með öðrum orðum búið að rýra eignarrétt þessa fólks með handafli stjórnvalda.

Ég hefi þegar ákveðið að setja EKKI: X við D í næstu kosningum eins og ég hefi gert frá upphafi, ef ekki verða orðnar breytinga á hugarfari ykkar til hinna eldri með það fyrir augum að lífeyrir þeirra verði þeim samkvæmir og álögur lækki, þó ekki væri nema brot af þeim hundruðum þúsunda mánaðargreiðsla sem ÞIÐ embættismenn hafið tryggt ykkur í ellinni.

Mér hefur að líkindum tekist að fá konu mína mitt band, sen hún hefur verið dyggur starfandi Sjálfstæðismaður, ekki síst eftir að hún sá fyrstu lífeyrisgreiðslurnar frá almannatryggingum og lífeyrissjóði sem hún fékk sem vart getur talist sómasamleg upphæð, ekki síst þegar skatturinn hefur hrifsað til sín tæplega helminginn.

Við erum bæði á vinnumarkaðinum enn þá, hún 67 ára og ég 66 ára og komumst ekki hjá því að heyra óánægjuraddirnar og lítilsvirðinguna í garð stjórnvalda vegna þessara svívirðilegu framkomu og ég er ekki sá eini sem er að hugsa um að söðla um, ég hefi heyrt margar raddir ungra sjálfstæðismann sem eru að íhuga það sama og ég.

Hvaða flokkur það verður sem fær mitt atkvæði hefi ég ekki ákveðið enn, enda ekki komið að kosningum, en með sömu stefnu ríkisstjórnarinnar og hefur verið nú síðust ár gagnvart öldruðum þá fer það EKKI til Sjálfstæðisflokksins.

E.S. Og því einnig, sagt mig úr flokki Sjálfstæðismanna, hér með.

Steingrímur Kristinsson, kt. 2102344549
-------------------------------------------------------

Grein í Morgunblaðinu 19. mars 2010


Ólík sjónmál

Eftir Steingrím Kristinsson:


"Að mínu mati er full þörf á nýju fangelsi, meiri þörf á því en nýju risasjúkrahúsi sem hvorki eru til peningar til að reisa né reka, það þarf ekki að skoða, það er staðreynd."

ÞAÐ ER eitt sem vefst fyrir mér varðandi það sem er á forgangslista ríkisstjórnarinnar, það er hið margumtalaða hátæknisjúkrahús sem kosta mun tugi milljarða að byggja og sennilega allt fjármagn til þess fengið að láni. Fyrir mér er þetta eins og ef ég ellilífeyrisþeginn keypti mér 15-20 milljóna króna lúxus Hummer með afborgunum, en yrði svo að geyma hann við hús mitt númerslausan þar sem ég hefði ekki efni á borga tilskilin gjöld af honum né bensín til að aka honum.

Hátæknisjúkrahúsið sem við eigum í dag, Landspítalinn sem þjóðfélagið hefur ekki efni á að reka með sóma vegna skorts á fjármunum og starfsfólki sem þaðan hefur verið hrakið til annarra starfa á undanförnum árum.

Sama má segja um önnur sjúkrahús á landinu þar sem niðurskurðarhnífnum hefur óspart verið beitt.

Á meðan tala ráðamenn og „skoða“ hvort þörf sé fyrir að byggja nýtt fangelsi. Að mínu mati er full þörf á nýju fangelsi, meiri þörf á því en nýju risasjúkrahúsi sem hvorki eru til peningar til að reisa né reka, það þarf ekki að skoða, það er staðreynd.

Það á ekki að líðast að glæpamenn af öllu tagi, allt frá nauðgurum og barnaníðingum til eiturlyfjasala gangi lausir vegna plássleysis á viðeigandi stofnun, svo ekki sé talað um alla hvítflibba þjófanna sem væntanlega verða dæmdir til fangelsisvistar. Eða eru alþingismenn búnir að reikna það út að þeir verði ekki sendir í fangelsi, heldur á geðdeild „nýja sjúkrahússins“ sem þeir ætla að byggja, og sé þar af leiðandi í lagi að „skoða“ hvort raunveruleg þörf sé fyrir nýju fangelsi.

Ríkisstjórnin

Ekki treysti ég mér til að gefa ríkisstjórninni meðmæli, þó svo að sumt það sem frá henni hafi komið sé ekki alvont, raunar þó nokkuð margt gott. En hafi einhver valdið mér vonbrigðum þá er það forsætisráðherrann, sem mér sýnist vera strengjabrúða embættismanna sem skrifa niður það sem hún lætur frá sér fara þá sjaldan sem hún gefur sér tíma til að opna munninn á almannafæri.

Í ræðustól alþingis segir forsætisráðherrann helst ekkert nema það sem hún les af blaði, sem og stundum ber með sér að hafa verið samið deginum áður, þar sem innihaldið er ekki alltaf samhljóma því sem ræðumenn á undan höfðu tjáð sig um og óbeint beint spurningum til ráðherrans eða ríkisstjórnarinnar.

Hennar tími er fyrir löngu kominn, til að hverfa frá stjórnmálum, hafi hennar tími í raun nokkru sinni komið.

Því verður ekki neitað að fjármálaráðherrann nafni minn, hefur staðið sig með prýði hvað það varðar að verja sannfæringu sína. Hefi ég oft dáðst að því hve vel honum hefur tekist að svara pólitískum andstæðingum sínum á þingi, þó svo að ég hafi ekki alltaf verið honum sammála, t.d. í Icesave-málinu, þar sem hann reyndi með miklum krafti að halda reisn, en mistókst svo eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Hans tími er þó ekki liðinn í stjórnmálum, frekar en Ögmundar, en litla trú hefi ég á kommúnistunum þeim Svandísi núverandi umhverfisráðherra og fleiri niðurrifs kommum innan Vinstri grænna og Samfylkingar .

Ég óttast að Þór Saari hverfi af þingi ef Hreyfingin nær ekki kjöri við næstu kosningar, því Þór Saari er einn af frambærilegustu þingmönnum á þingi í dag ásamt Pétri Blöndal, sem ég sé fyrir mér sem mjög rökfasta menn. Ef til vill nær Hreyfingin sætum eftir næstu kosningar ef sá sem kallar 5% þjóðarinnar fábjána heldur sig í hópi „fimm prósentanna“ en ekki í Hreyfingunni.

Ég á væntanlega ekki kost á að gefa þeim félögum Þór og Pétri atkvæði mitt þegar þar að kemur, en er þó nokkuð viss um hvað og hverja ég muni ekki kjósa.

Best væri ef þjóðin gæti valið á milli manna við kosningar frekar en flokkanna þar sem alltof margir misjafnir sauðir og rollur eru að ota sínum tota. Þá yrðu Þór og Pétur ofarlega á listanum hjá mér.

Forsetinn okkar

Ólafur Ragnar Grímsson forseti var í ákaflegu litlu áliti hjá mér þegar hann var á kafi í pólitíkinni, raunar fór hann nokkuð mikið í taugarnar á mér.

En þegar hann bauð sig fram til forseta í fyrsta sinn ákvað ég að greiða honum atkvæði mitt, aðallega vegna þess að ef hann næði kjöri, þá værum við laus við hann úr pólitíkinni, og svo er því ekki að leyna að mér fannst „hans týpa“ eiga vel við embættið.

Ég hefi haldið áfram að styðja karlinn, sérstaklega eftir að ég átti þess kost að kynnast honum lítilsháttar persónulega eftir margar heimsóknir hans til Siglufjarðar.

Ég ætla ekki að gagnrýna hann fyrir samverustundir hans með „útrásarvíkingunum“ forðum, hann dróst aðeins með straumnum eins og flest okkar, eftir því sem okkur tókst að gera hverju sinni.

En frá því að hann vísaði hinum móðgandi Icesave-lögum til afgreiðslu þjóðarinnar hefur hann unnið þrekvirki með miklum sóma, þjóðinni til gagns. Til dæmis tókst honum á nokkrum mínútum að kynna málstað þjóðarinnar vegna Icesave betur en ríkisstjórninni hefur til þessa tekist.

Og það sem meira er, hann hefur haldið sleitulaust áfram á þeim vettvangi.

„Heill forseta vorum, húrra“ mætti hljóma með meiri sannfæringu en hingað til næst þegar alþingismenn hafa þessa setningu eftir samhljóma á alþingi samkvæmt siðvenju.

Höfundur er ellilífeyrisþegi og áhugaljósmyndari á Siglufirði.

----------------------------------------------

ES. 2012

Frá þeim tíma er ofanrituð grein var skrifuð, þá hefur nefndur Þór Saari í greininni, fallið verulega í áliti hjá greinarhöfundi.