Áhættuhópar COVID-19
COVID-19
Sértu í sóttkví, í hættu á Covid-19 smiti, með flensueinkenni eða illa kvefaður, ertu vinsamlegast beðinn um hafa samband og fresta bókuðum tíma, eða skoða möguleika á að fá símtal eða fjarlækningaviðtal í staðinn.
s. 535-7700 eða á setrid@setrid.is
Áhættuhópar
Gefnar hafa verið út leiðbeiningar frá sóttvarnarlækni til sjúklinga í áhættuhóp sem finna má á covid.is - áhættuhópar
Leiðbeingar frá læknum:
COVID-19 og hjarta og æðasjúkdómar
Sýking með SARS-COV-2 veirunni veldur COVID-19 sjúkdómi. Sjúkdómurinn veldur vanalega dæmigerðum einkennum veirusýkinga það er að segja hita, hósta, slappleika og beinverkjum. Einkennin eru allt frá því að vera mjög væg upp í að vera lífshættuleg með alvarlegum öndunarerfiðleikum og líffærabilun en slík versnun getur komið fram nokkrum dögum eftir að veikindanna verður fyrst vart. Langflestir fá tiltölulega væg einkenni en lítill hluti sjúklinga veikist alvarlega.
Fólk með undirliggjandi hjarta og æðasjúkdóma, háþrýsting og sykursýki er í aukinni hættu á alvarlegum veikindum og sama gildir um þá sem eldri eru. Ónæmiskerfi yngra fólks virðist vera betur í stakk búið til að takast á viðsýkinguna.
Reykingafólk og þeir sem hafa lungasjúkdóma er einnig í aukinni áhættu, enda leggst sýkingin í alvarlegum tilfellum fyrst og fremst á lungun. Fólk er því eindregið hvatt til að hætta reykingum.
Ástæður þess að sjúklingar með hjartasjúkdóma, háþrýsting og sykursýki eru í aukinni hættu á að fá alvarleg einkenni hafa ekki verið skýrðar að fullu en ónæmiskerfið virðist spila þar inní. Covid-19 sjúkdómurinn getur einnig aukið talsvert álagið á hjarta og æðakerfi og þeir sem hafa undirliggjandi kransæðasjúkdóm til dæmis geta verið mun viðkvæmari fyrir falli í súrefnismettun.
Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir sýkingu?
Embætti Landlæknis gaf út ítarlegar leiðbeiningar 7. mars 2020 sem gott er að lesa.
Það er mikilvægt að forðast sýkingu með öllum ráðum og fara enn varlegar en aðrir. Forðast fjölmenna staði og allt samneyti við þá sem hafa einhver einkenni sýkingar, þótt afar væg séu. Allir flurfa að þvo hendur oft og vel og á réttan hátt (börn eiga að hafa fengið góða þjálfun í handþvotti) og fólki er ráðlagt að forðast að snerta andlitið. Sótthreinsa yfirborð sem maður snertir oft; ekki deila með öðrum mat, gleraugum, handklæðum, áhöldum o.s.frv. og hósta í olnbogabótina eða í klút. Það getur verið skynsamlegt að fá aðstoð við innkaup eða heimsend matvæli.
Ef þú ert með hjarta eða æðasjúkdóm ættir þú að:
Passa að hreyfa þig á hverjum degi. Ef veður leyfir og þú treystir þér til ættir þú að ganga úti. Einnig má nýta sér leikfimi í útvarpi eða sjónvarpi og leiðbeiningar sem hægt er að nálgast á netinu.
Athugaðu að þú eigir lyf sem duga næstu 4 vikurnar og passaðu að taka lyfin samkvæmt fyrirmælum.
Ef þú ert ekki þegar bólusett(ur) fyrir lungnabólgu af völdum pneumokokka bakteríu og influensu leitaðu þá til þinnar heilsugæslu.
Ef þú færð einkenni (hita, hósta) skaltu gæta fyllstu varkárni til að smita ekki aðra. Vertu með rafrænan aðgang að Heilsuveru og hafðu samband í netspjalli við hjúkrunarfæðing. Við alvarlegri einkenni, háan hita eða öndunarfæraerfiðleika er mikilvægt að þú hafir samband við þinn lækni eða lækni á Heilsugæslu. Vaktsíminn 1700 er opinn allan sólarhringinn.
Þú ættir að fylgjast sérstaklega vel með þinni líðan ef þú smitast af covid-19. Einkenni geta versnað skyndilega! Hafðu alltaf samnband við lækni við öndunarerfiðleika, aukna mæði og/eða mæði í hvíld.
Taktu parasetamól (panodil) við hita og verkjum. Ekki taka bólgueyðandi verkjalyf (íbúfen, naproxen, celekoxib og fleiri).
Sýking af hvaða tagi sem er eykur vökvaþörf þína, passaðu að drekka nóg.
Sjúklingar með hjartabilun sem eru á þvagræsandi lyfjum (furix, torasemide) ættu að fylgjast daglega með vikt. Aukin mæði samhliða þyngdaraukningu getur verið merki um vökvasöfnun í lungum en slíkt getur þó verið erfitt að greina frá lungnabólgu og nauðsynlegt að leita ráða læknis.
Ef þú ert á töflumeðferð við sykursýki ættir þú að fá leiðbeiningar hjá lækni hvort þú þurfir að stöðva eða breyta skömmtum af sykursýkitöflunum þínum (þetta á t.d. við um jardiance, forxiga, glimeryl og metformin). Stungulyfi sem ekki eru insúlín (victoza og ozempic) valda ekki hættu á sykurfalli og má öllu jöfnu taka áfram.
Sérstakar leiðbeiningar gilda fyrir þá sem eru á insúlíni en þeim sjúklingum er bent á að vera í sambandi við sinn lækni eða göngudeild sykursjúkra.
En umfram allt vertu í góðu sambandi við fjölskyldu og vini og farðu vel með þig á þessum erfiðu tímum.
Gangi þér vel
22. mars 2020
Helga Margrét Skúladóttir hjartalæknir
Covid-19 og sykursýki hjá fullorðnum
Sykursýki hefur letjandi áhrif á ónæmiskerfi fólks sem veldur því að fólk er lengur að ráða niðurlögum sýkinga og er lengur að jafna sig. Það er líka mögulegt að veiran lifi lengur í umhverfi þar sem sykurinn er hár. Þegar fólk með sykursýki fær veirusýkingu þá getur orðið erfiðara að meðhöndla veikindin vegna hækkunar á blóðsykri. Það getur líka flækt málið ef viðkomandi hefur þekkta fylgikvilla af sinni sykursýki (t.d.hjartasjúkdóm,skerta nýrnastarfsemi, háþrýsting eða annað).
Þess vegna hefur fólk með sykursýki verið skilgreint sem sérstakur áhættuhópur vegna COVID-19 sýkinga.
Hvað er hægt að gera til að milda áhrif sýkingar?
Í fyrsta lagi er mikilvægt að forðast sýkingu með öllum ráðum og fara enn varlegar en aðrir: Það gildir eins og fyrir aðra að: þvo hendur oft og vel; forðast að snerta andlitið áður en maður þvær og þurrkar sér um hendurna;, sótthreinsa yfirborð sem maður snertir oft; ekki deila með öðrum mat, gleraugum, handklæðum, áhöldum ofl.; hósta í olnbogabótina eða í klút; forðast alla sem eru með einkenni um öndunarfærasýkingu; forðast fjölmenna staði (ferðalög, tónleika, bíó, almenningssamgöngur) og loks ef þú ert lasinn...vertu þá heima!
Ef þú ert með sykursýki:
undirbúðu þig vel ef til þess kæmi að þú þyrftir að fara í sóttkví eða einangrun.
passaðu að eiga nægar birgðar af insúlini og öðrum sykursýkilyfjum. Eigðu einnig nóg af strimlum til mælinga, blóðhnífa og nálar á penna. Hugsaðu hvað þú þarft að eiga mikið fyrir næstu 4 vikur
passaðu að eiga nægan mat, einkum það sem þú notar venjulega til að leiðrétta sykurföll. Passaðu að hafa þrúgusykur, sykurgel og Glucagen hypostop sprautur til ef blóðsykurinn skyldi lækka skyndilega. Það getur t.d. gerst ef maður verður lystarlaus vegna veikinda
sýking af hvaða tagi sem er eykur vökvaþörf þína, passaður að drekka nóg af vatni og öðrum vökva
vertu dugleg(ur) að mæla blóðsykurinn ef þú ert lasinn og sérstaklega ef þú færð háan hita. Þá geturðu þurft að mæla þig á 2-3ja tíma frest og gefa aukalega hraðvirkt insulin til að halda blóðsykrinum innan marka. Gefðu alltaf grunninsúlinið og mundu að stundum þarf líka að auka það
fáðu leiðbeiningar hjá lækni hvort þú þurfir að stöðva eða breyta skömmtum af sykursýkitöflunum þínum (þetta á t.d. við um jardiance, forxiga, glimeryl og metformin)
ef þú ert með tegund 1 sykursýki, þá eykst hættan á ketónblóðsýringi (DKA, diabetic ketoacidosis) í bráðum veikindum. Rifjaðu upp leiðbeiningar sem þú hefur fengið um viðbrögð við veikindum. Eigðu þvagstrimla til að stixa þvagið fyrir ketónum og hafðu samband við heilbrigðisstarfsfólk ef þig grunar ketonsýring.
ef þú færð flensulík einkenni (háan hita, hósta, öndunarerfiðleika), þá er mjög mikilvægt að þú hafir samband við lækni. Hafðu tilbúin símanúmer hjá þínum lækni og/eða hjúkrunarfræðingi eða vertu með rafrænan aðgang að Heilsuveru
ef þú býrð ein/einn vertu þá viss um að einhver sem þú treystir viti að þú ert með sykursýki og geti aðstoðað þig ef þú veikist og þarft á hjálp að halda
Úr frétt frá Félagi um innkirlafræði
COVID-19 og lungnasjúkdómar
Sýking með SARS-COV-2 veirunni veldur COVID-19 sjúkdómi. Veiran veldur sýkingu í efri hluta öndunarfæra sem eru nefhol og kok og hjá sumum í neðri öndunarfærum sem eru berkjur og lungnablöðrur Þess vegna hefur fólk með langvinna lungnateppu verið skilgreint sem sérstakur áhættuhópur vegna COVID-19 sýkinga. Almennt má gera ráð fyrir að þetta eigi við um alla lungnasjúkdóma nema þá vægasta form til dæmis astma sem ekki gefur dagleg einkenni. Reykingar eru líka áhættuþáttur
Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir sýkingu?
Embætti Landlæknis gaf út ítarlegar leiðbeiningar 7. mars 2020 sem gott er að lesa.
Það er mikilvægt að forðast sýkingu með öllum ráðum: Það gildir eins og fyrir aðra að: þvo hendur oft og vel á réttan hátt; forðast að snerta andlitið áður en maður þvær og þurrkar sér um hendurnar;, sótthreinsa yfirborð sem maður snertir oft; ekki deila með öðrum mat, gleraugum, handklæðum, áhöldum o.s.frv..; hósta í olnbogabótina eða í klút; forðast alla sem eru með einkenni um öndunarfærasýkingu; forðast fjölmenna staði (ferðalög, tónleika, bíó, almenningssamgöngur) og halda hæfilegri fjarlægð við aðra helst 2 m og loks ef þú ert lasinn... vertu þá heima! Hægt er að fá vottorð hjá lækni ef fólk vill stunda nám eða vinnu að heiman.
EF ÞÚ ERT MEÐ LUNGNASJÚKDÓM:
undirbúðu þig vel ef til þess kæmi að þú þyrftir að fara í sóttkví eða einangrun.
gættu að því að eiga nægar birgðir af öndunarfæralyfjum og öðrum lyfjum sem þú tekur reglulega. Hugsaðu hvað þú þarft að eiga mikið fyrir næstu 4 vikur. Taktu öll lyf eins og þér er ráðlagt. Ekki hætta að taka ónæmisbælandi lyf nema í samráði við lækni. Hafðu samráð við þinn lækni hvort þú eigir sýklalyf og stera heima til að bregðast við versnunum.
pantaðu mat á netinu ef þú vilt ekki fara út að versla -hættu að reykja og fáðu ráð til þess og lyf ef þarf
hreyfðu þig reglulega. Ef þú vilt ekki fara í þína reglulegu líkamsþjálfun skaltu nýta þér leikfimi í útvarpi eða sjónvarpi og þætti sem hægt er að nálgast á Netinu. Ef þú treystir þér til og veður leyfir ættir þú að ganga úti.
ef þú færð flensulík einkenni (háan hita, hósta, öndunarerfiðleika auk vöðvaverkja), þá er mjög mikilvægt að þú hafir samband við lækni og/eða símanúmer 1700. Hafðu tilbúin símanúmer hjá þínum lækni og/eða hjúkrunarfræðingi og vertu með rafrænan aðgang að heilsuvera.is. Algengt er að lungnasjúklingar fái versnanir á sínum sjúkdómi. Hvernig er hægt að greina á milli? Versnunum á undirliggjandi lungnasjúkdómi fylgja sjaldnast hár hiti og vöðvaverkir sem gæti frekar verið COVID-19.
ef þú býrð ein/einn vertu þá viss um að einhver sem þú treystir viti að þú ert með lungnasjúkdóm og geti aðstoðað þig ef þú veikist og þarft á hjálp að halda
Gangi þér vel!
Gunnar Guðmundsson, lungnalæknir